Á ÍTALÍU eru allar bestu borgir Evrópu ef marka má lesendur tímaritsins Condé Nast Traveller . Flórens, Róm og Feneyjar röðuðu sér í þrjú efstu sætin í könnun blaðsins og máttu menningarborgirnar París og Vín báðar lúta í lægra haldi. Og hvað er það sem heillar við Flórens? Þetta venjulega sem ferðamenn sækjast eftir, sagan, menningin, maturinn og náttúran - en það ríkulega. Þekkt nöfn úr veraldarsögunni eru á næstum því hverju strái í Flórens. Þar má nefna Dante, Galíleó, Botticelli, Michaelangelo og Leonardo da Vinci - endurreisnina og rómantíkina sem haldast í hendur. Nútímaleg en sjóðandi menning undir áhrifum frá kaþólsku kirkjunni, ólífuolíur búnar til af ástríðu og alvörupitsur. Þessi bræðingur gerir sig greinilega! Íbúar þessara borga og landa hafa löngum haft á sér þá staðalímynd að vera ástríðufullir og skapheitir. Það virðist spennandi og kannski eitthvað sem ferðamenn sækjast eftir í stórum stíl. Sem er þá áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga sem og önnur Norðurlönd enda komust þær ekki einu sinni inn á listann. Erum við virkilega svona köld og fyrirsjáanleg?
Bestu borgir Evrópu
Flórens, Ítalíu
Róm, Ítalíu
Feneyjar, Ítalíu
Istanbúl, Tyrklandi
París, Frakklandi
Barselóna, Spáni
Sienna, Ítalíu
Brugge, Belgíu
Vín, Austurríki