Arcade Fire The Neon Bible er önnur plata sveitarinnar og kemur út í ár, og óhætt að segja að svo gott sem allir tónlistaráhugamenn bíði með hjartað í buxunum eftir plötunni.
Arcade Fire The Neon Bible er önnur plata sveitarinnar og kemur út í ár, og óhætt að segja að svo gott sem allir tónlistaráhugamenn bíði með hjartað í buxunum eftir plötunni.
Rokksveitir frá Kanada hafa verið mjög framarlega í skapandi neðanjarðarrokki undanfarin fimm ár eða svo og fengu Íslendingar að kynnast því af eigin raun á liðinni Airwaves-hátíð.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Neil Young, The Band, Joni Mithcell... og hvað annað aftur? Einhvern veginn virðist listinn stuttur þegar kemur að því að telja upp markverða dægurtónlistarmenn frá Kanada, þótt efalítið sé hann lengri séu þær gráu píndar eitthvað meira. En svona birtist þetta a.m.k. fyrir almenningi. Í Bandaríkjunum er allt að gerast, en Kanada er stærra, dreifðara og minna spennandi land. Fjarskyldur frændi, lítt áhugaverður og eiginlega hálfleiðinlegur. Og oft heyrir maður í samtölum er merkir bandarískir tónlistarmenn eru til umræðu: "Nei, Neil Young er ekki frá Bandaríkjunum, hann er frá Kanada."

Þetta virtist lengi vel eiga við um allar tónlistarstefnur og maður hjó eftir því þegar menn og konur komu frá Kanada. Alanis Morissette, Avril Lavigne og já, síðrokkssveitin þarna, Godspeed you black emperor! Þeir eru víst frá Kanada. Þetta frétti maður á sínum tíma, árið 2000, og þótti merkilegt. Í dag er straumur áhugaverðra sveita frá Kanada hins vegar það stríður að maður er hættur að kippa sér upp við slíkar fréttir. Það kemur manni ekki lengur á óvart að enn ein áhugaverða sveitin sé þaðan, svo virðist sem eitthvað mjög svo skemmtilegt sé úti í vatninu þarna, og á því bergja ungar rokksveitir af offorsi um þessar mundir.

Þrír suðupunktar

Þessi gróska á sér aðallega stað í þremur stórborgum í Kanada, þ.e. Montreal, Toronto og Vancouver. Athyglisvert er að ekkert er t.d. að gerast í höfuðborginni, Ottawa. Það er erfitt að setja fingur á hvað það er nákvæmlega sem veldur því að meira líf er í þessari borg en hinni, af hverju er meira af þessari tónlist hérna en af hinni þarna? Af hverju er Húsavík t.d. rokkhöfuðborg Íslands, Ísafjörður svona spriklandi hress og Hafnarfjörður einnig?

Montreal er í Quebec, nánast eins austarlega og hægt er að komast í Kanada. Þar á Arcade Fire, nafntogaðasta kanadíska sveitin í dag, bækistöðvar sínar. Plata hennar, Funeral , frá árinu 2004 sló í gegn í jaðarrokksheimum en hefur auk þess náð taki á hinum almenna markaði, til dæmis hefur U2 leikið lag af plötunni á undan tónleikum sínum. The Neon Bible er önnur plata sveitarinnar og kemur út í ár, og óhætt að segja að svo gott sem allir tónlistaráhugamenn bíði með hjartað í buxunum eftir plötunni. Pressan er svakaleg og platan einfaldlega "heitasta" plata ársins hvað vonir og væntingar áhrærir. Af öðru spennandi Montreal-efni má nefna Islands, en hún var ein þeirra Kanadasveita sem sóttu Ísland heim á Airwaves. Fyrsta plata hennar, Return to the Sea , var mikið lofuð en Islands á sér rætur í annarri ekki síður merkilegri sveit, Unicorns ( Who Will Cut Our Hair When We're Gone? er þeirra þekktasta verk). Söngvaskáldið góða Jim Guthrie er einnig frá Montreal, en hann hefur starfað með Islands, og einnig Wolf Parade, sem hefur eins og Arcade Fire vakið mikla athygli. Plata þeirra Apologies to the Queen Mary (2005) þótti ein sú besta það árið. Wolf Parade er reyndar aðflutt sveit, er upprunalega frá Victoria, sem er eins langt frá Montreal og hugsast getur. Fleiri sveitir hafa leikið þennan leik, þetta er ekki ósvipað og var með Seattle á sínum tíma, er hún var suðupunktur gruggsins. Gæðasveitin The Dears kemur og frá Montreal (mælt er með No Cities Left frá 2003) og sker sig nokkuð frá framangreindum sveitum. Þá má ekki gleyma Patrick "okkar" Watson sem sló í gegn á Airwaves, en hann kemur frá smábænum Hudson í Quebec.

Samsláttur

Færum okkur nú aðeins suður á bóginn, nánar tiltekið til Toronto (og skautum yfir Ottawa, sem liggur þarna á milli). Þar finnum við fyrir Final Fantasy, sem er verkefni Owens nokkurs Pallets. Strengjabundið kammerpopp hans á plötunni He Poos Clouds , sem út kom í fyrra, aflaði honum hinna eftirsóttu Polaris-verðlauna en Owen er fjölhæfur mjög og hefur starfað með Arcade Fire, Jim Guthrie og Hidden Cameras, sem eru og frá Toronto. Hidden Cameras er merk sveit, glúrið og kaldhæðnislegt gleðipopp sem minnir lítið eitt á Belle & Sebastian. Sveitin er leidd af hinum yfirlýsta homma Joel Gibb og tekst hann á við þann þátt af tilveru sinni í lögum eins og "Golden Streams" og í plötuheitum eins og The Smell Of Our Own . Líkömnun tónlistar Gibbs er efni í aðra grein. Stórsveitin Broken Social Scene er þó efalaust þekktasta afsprengi Toronto. Plata þessarar jaðarsúpergrúppu, You Forgot It in People , vakti mikla athygli, en hún kom upprunalega út árið 2002. Broken Social Scene hefur innanborðs um og yfir tuttugu manns. Stars á einnig rætur í Toronto (er flutt til Montreal, nema hvað) en Amy Millan, söngkona hennar, hefur og starfað með Broken Social Scene. Það er einkennandi fyrir þessa kanadísku bylgju að samgangur og samstarf hljómsveita á milli er mikið. Það virðist ekki bundið við stærð landa eða samfélaga hvernig þessar senur virka, þær virðast alltaf jafn "litlar" og allir þekkja alla.

Að lokum færum við okkur eins vestarlega og hægt er, til Vancouver. Þaðan er stutt til Seattle og það er eins og það sé hægt að heyra það í tónlist Vancouver-bandanna. Rokkaðri en einnig ívið víraðri en gengur og gerist í Toronto og Montreal. Aðalbandið er önnur súpergrúppa, The New Pornographers, sem m.a. inniheldur söngkonuna kunnu Neko Case. Sýran er þá í boði Pink Mountaintops og Frog Eyes (eru reyndar frá Victoria), líklega ein súrasta – og besta – Kanadasveitin í dag. Destroyer er þá verkefni Dans Bejars (einnig í New Pornographers) en platan Destroyer's Rubies var hiklaust ein af plötum ársins. Þá verður að geta Swan Lake, súpertríós sem hefur á að skipa Bejar, Carey Mercer úr Frog Eyes og Spencer Krug úr Wolf Parade. Fyrsta plata sveitarinnar, Beast Moans , kom út á síðasta ári, og mikill gæðagripur þar á ferð.

Það er erfitt að finna einhvern samnefnara yfir þessa bylgju, utan að tónlistin er nýskapandi og fersk. Það verður því spennandi að fylgjast með í ár; ná nýjar sveitir að hagnýta sér þessa sókn eða strandar kannski allt með næstu plötu Arcade Fire?