Vinsælt Bláa lónið hefur árum saman verið vinsæll ferðamannastaður og heilsulind.
Vinsælt Bláa lónið hefur árum saman verið vinsæll ferðamannastaður og heilsulind. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Friðrik Ársælsson fridrik@mbl.is Bláa lónið hf. var stofnað 1. júní 1992. Grunnur starfseminnar er lækningamáttur virkra efna Blue Lagoon-jarðsjávarins og lífríkis hans.

Eftir Friðrik Ársælsson

fridrik@mbl.is

Bláa lónið hf. var stofnað 1. júní 1992. Grunnur starfseminnar er lækningamáttur virkra efna Blue Lagoon-jarðsjávarins og lífríkis hans. Fyrirtækið rekur Bláa lónið heilsulind, sem er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins, og veitir meðferð við húðsjúkdómum í nýrri lækningalind. Fyrirtækið hefur einnig þróað Blue Lagoon-húðvörur með virkum efnum jarðsjávarins. Rannsókna- og þróunarstarf skipar mikilvægan sess í starfsemi fyrirtækisins enda benda rannsóknir til þess að efni í jarðsjónum og lífríki hans dragi úr öldrun húðarinnar auk annarra lífvirkra áhrifa.

Starfsmenn Bláa lónsins eru 150–200, en starfsmannafjöldi breytist eftir árstíðum.

Aukinn skilningur á verðmætasköpun sprotafyrirtækja

"Bláa lónið hf. hefur byggt upp vísindaþekkingu á jarðsjónum og lífríki hans og þannig verðmæti úr einstakri náttúruauðlind. Við höfum borið gæfu til þess að skilja mikilvægi slíkrar þekkingaruppbyggingar og haft skýra framtíðarsýn. Þetta er eitt af lykilatriðunum til að verkefni sem þetta gangi upp," segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins hf.

Þá sé ekki síður mikilvægt til að þróunarverkefni nái á legg að starfsumhverfið og efnahagsástandið sé stöðugt. Háir vextir og gengissveiflur geta gert sprotafyrirtækjum erfitt fyrir.

"Ég tel þó að margt gott hafi áunnist og kemur þar hvort tveggja til kraftur einkageirans og tilstuðlan stjórnvalda sem og aukinn skilningur á því hversu mikil framtíðarverðmæti geta legið í þróunarverkefnum sprotafyrirtækja til hagsbóta fyrir samfélagið."