Úlfhildur Dagsdóttir gerði sér reisu til Japans, þar sem hún skoðaði meðal annars ævintýralega Ghibli safnið. Einn af stofnendum þess var Hayao Miyazaki, þekktasti anime-leikstjóri Japans og höfundur fjölda teiknimynda í þessum sérstæða japanska stíl. Miyazaki er talinn meðal þeirra leikstjóra sem endurnýjuðu japanska kvikmyndagerð á níunda áratugnum. Teiknimyndir eins og Navsíka úr dal vindsins og Laputa náðu nokkrum vinsældum, en það var þó ekki fyrr en með Prinsessu Mononoke árið 1997, sem Miyazaki sló verulega í gegn.
Eftir Úlfhildi Dagsdóttur
varulfur@centrum.is
Á þaki Ghibli-safnsins í Mitaka, Tókýó, stendur stytta af róbótinum úr Laputa: fljúgandi kastalinn (Tenkuu no Shiro Rapyuta 1986). Japanskir ferðamenn bíða þolinmóðir og glaðir í röð til að láta mynda sig fyrir framan hann. Lítill hópur bandarískra ferðamanna gefst hins vegar upp, gengur lengra inn í þakgarðinn og sest þar á stein, og réttir mér, sem óvart álpast á eftir þeim, myndavél. Vinsamlega taka mynd af okkur. Þegar við snúum til baka hefur röðin við róbótinn enn lengst og Japanarnir pósa.
Ghibli-safnið er hannað eins og það gæti verið einn af ævintýraköstulum Hayao Miyazakis, þekktasta anime-leikstjóra Japans og einum stofnanda Ghibli-safnsins og Ghibli-stúdíósins. Miyazaki er talinn meðal þeirra leikstjóra sem endurnýjuðu japanska kvikmyndagerð á níunda áratugnum, en hún hafði þá verið í nokkurri lægð. Teiknimyndir eins og Navsíka úr dal vindsins (Kaze no Tani no Naushika 1984) og fyrrnefnd Laputa náðu nokkrum vinsældum, en það var þó ekki fyrr en með Prinsessu Mononoke (Mononoke Hime 1997) sem Miyazaki sló verulega í gegn en sú mynd var vinsælasta myndin það ár í Japan – þar til Titanic kom og sökkti henni. Miyazaki hefur gert tvær myndir síðan, Chihiro og álögin (Sen to Chihiro no Kamikakushi 2001) og Hinn kviki kastali Howls (Hauru no Ugoku Shiro 2004) og sló sú fyrri öll met í Japan.
Hennar vegna er nú svo komið að til að komast inn í Ghibli-safnið þarf að panta miða fyrirfram, með nokkrum fyrirvara, en vinsældirnar eru orðnar svo miklar að gripið var til þessa ráðs til að safnið yfirfylltist ekki. Ég festi samviskusamlega kaup á miða gegnum breska ferðaskrifstofu og var mætt þarna einn sólheitan morguninn til að skoða dýrðina.
Kvikar myndir
Teiknimyndir, eða anime, eins og þær heita upp á japnesku, eru mikilvægur þáttur í menningarframleiðslu landsins. Í sjónvarpi eru sýndar anime-sjónvarpssyrpur sem yfirleitt standa í beinu sambandi við myndasögur eða manga, og sumar þeirra verða svo að kvikmyndum. Að auki eru svo gerðar sjálfstæðar anime-myndir, eins og til dæmis þær sem framleiddar eru af Ghibli-stúdíóinu. Þessar japönsku teiknimyndir eru þó nokkuð ólíkar þeim teiknimyndum sem þekktastar eru á Vesturlöndum, en það eru bandarískar Disney-myndir og nú nýlegar frá fyrirtækjum eins og Pixar og Dreamworks. Þó er slóð þeirra einmitt rakin til Disneys, því Osamu Tezuka, mikilvægasti höfundur japönsku myndasögunnar, sótti sín helstu áhrif til Disneys, en hann gerði einnig anime og var meðal þeirra sem mótuðu hinn sérstaka japanska stíl, en anime-syrpa hans, byggð á litla róbótanum Astro-stráknum, naut gífurlegra vinsælda. Sá hafði upphaflega birst sem myndasaga og þannig hófst hið nána samband myndasögunnar og teiknimynda í Japan. Sem dæmi um hversu náið þetta samband er má nefna að Miyazaki ætlaði sér aldrei að gera myndasögu um Navsíku, heldur bara teiknimynd, en framleiðendur neituðu að fjármagna anime sem væri ekki byggt á myndasögu. Enda stofnaði Miyazaki Ghibli í kjölfar Navsíku-myndarinnar og hefur getað gert sínar teiknimyndir í friði eftir það (og reyndar myndasögur líka, en ekki endilega þær sömu). Fyrsta myndin sem Miyazaki gerði undir merkjum Ghibli var Laputa, en henni fylgdi Nágranni minn Totoro (Tonari no Totoro 1988), en ímynd bumbumikilla fígúra þeirrar myndar, með sín oddmjóu eyru, eru á einkennismerki Ghibli. Reyndar minna þessar verur dálítið á múmínálfana, en þeir hafa notið feikilegra vinsælda í Japan.Fyrsti salurinn í Ghibli-safninu er tileinkaður sögu teiknimyndarinnar og þar má sjá ýmsar tegundir hreyfimyndagerðar frá upphafi hennar til nútímans. Salurinn er myrkur og það sem einkennir sýninguna er ekki aðeins sýningargripirnir sjálfir heldur öll umgjörð þeirra og hönnun, en annar sonur Miyazaki kemur að henni, hinn sonurinn er sjálfur orðinn leikstjóri anime-mynda, hann leikstýrði nýjustu mynd Ghibli-stúdíósins, Sögur frá Earthsea (Gedo Senki 2006) sem byggð er á Earthsea-sögum Ursulu Le Guin. Í öðrum sölum er lögð áhersla á að endurskapa vinnuherbergjastemningu, þar eru skrifborð og áhöld, tebollar og inniskór – og bókahillur, en í einni þeirra sá ég ljósmyndabók um Ísland.
Lifandi náttúra
Bakgrunnur og umgjörð skiptir gífurlegu máli fyrir myndir Miyazaki og spilar náttúran þar stórt hlutverk. Myndir hans eru enda með heilmiklum náttúruverndarboðskap, allt frá Navsíku og Mononoke til Chihiro og Totoro. Navsíka er umhverfisvænt framtíðarævintýri sem segir frá prinsessunni Navsíku og baráttu hennar við að vernda jörðina sem hefur að meira eða minna leyti verið lögð í eyði eða gerð óbyggileg vegna langvarandi misnotkunar mannanna. Navsíka er náttúrubarn sem er í tengslum við jörðina og þau skrímsli sem hana byggja í kjölfar eyðingarinnar. Á sama hátt er Prinsessa Mononoke ævintýri með umhverfisverndar-boðskap, nema hún gerist í forsögulegri fortíð Japans, á miklum umhleypingatímum. Náttúran er miskunnarlaust rányrkt og hinn ungi Ashitaka kallar óvart yfir sig bölvun þegar hann drepur verndarvætt skógarins. Hann leggur í leiðangur í leit að uppruna bölvunarinnar og hittir fyrir leiðtoga rányrkjaranna Lady Eboshi og fulltrúa náttúrunnar Mononoke prinsessu, sem er fósturdóttir úlfa, og er tilbúin að deyja í baráttunni gegn græðgi mannanna.Totoro sýndist mér einna ástsælasta mynd Miyazaki, en fígúrurnar úr henni skipuðu heiðursess í safninu og dótabúðinni. Þetta er lítið ævintýri um tvær litlar stelpur, Satsuki og Mei, sem flytja með pabba sínum í nýtt hús úti í skógi. Mamman er á spítala og stelpurnar sakna hennar ákaft. Mei litla er síforvitin og rambar inn í rjóður eins konar risastórs bangsa, Totoro, sem pabbi hennar segir að sé sjálfsagt konungur skógarins. Með stelpunum og Totoro tekst svo vinskapur. Myndin sækir efnivið sinn í náttúruvættatrú Japana, svokallaða Shinto-hefð, en hún er eins konar blanda forfeðra- og náttúrudýrkunar. Við hliðina á nýja (sem þó er svo gamalt að það er að hruni komið) húsinu er Shinto-skrín og eftir að Mei hittir Totoro fer pabbinn með stelpurnar þangað til að votta anda skógarins (sem einnig tekur á sig mynd risastórs trés) virðingu sína.
Sagan um Chihiro og álögin sem lögð eru á foreldra hennar er einnig byggð á náttúruvættatrú Shinto, líkt og reyndar bæði Navsíka og Mononoke. Chihiro er á ferð með foreldrum sínum og þau villast og eru skyndilega stödd við hlið sem virðist opnast inn í yfirgefinn skemmtigarð. Eitthvert lífsmark er þó að finna því í einu veitingahúsanna er mikill matur á borðum (matarfórnir eru hluti af Shinto). Foreldrar Chihiro setjast strax að réttunum og raða í sig með þeim afleiðingum að þau breytast í svín. Og í ljós kemur að þetta er heimur andanna, foreldrarnir eru fangar þeirra og það kemur í hlut Chihiro að bjarga málunum. Hún ræður sig til vinnu í höll illrar nornar, sem þarna ræður öllu, og kemst í kynni við strák sem reynir að hjálpa henni, en hann er undir álögum nornarinnar eins og fleiri í höllinni.
Kvikir kastalar
Allar einkennast þessar myndir af ofurfallegu myndmáli náttúru og umhverfis, bæði í sjálfum myndunum og svo í samskiptum fólks við umhverfið. Náttúra Miyazaki er yfirleitt voldug, jafnvel ógnvekjandi, sem kemur ekki í veg fyrir að hann bjóði upp á kyrrlátar senur þar sem gefst færi til að skoða hið smáa og fínlega. Shinto-hugmyndaheimurinn (sem er ávallt nokkuð blandaður heimspeki Búdda) birtist í því að allt er lifandi, gróður og dýr hafa sál eða anda og þetta vita hinar ungu kvenhetjur mynda Miyazaki. Þær bera virðingu fyrir náttúrunni, skilja dýr hennar og vætti og því gengur þeim vel að umgangast hana. Chihiro er líklega japanskasta mynd Miyazaki en hann hikar ekki við að sækja sér vestræn áhrif og stef. Sagan um hinn kvika kastala Howls er beinlínis aðlögun á þekktri sögu Diönnu Wynne Jones, en bæði Navsíka og Laputa sækja sér hugmyndir í þekktar bókmenntir og goðsögur, Navsíka er hugrakka prinsessan í Ódysseifskviðu sem kemur Ódysseifi til hjálpar þegar hann rekur allslausan á land undir lok ævintýra sinna. Laputa er hins vegar eitt af löndunum sem Gúlliver heimsækir í Ferðum Gúllivers eftir Jonathan Swift en þar er Laputa er fljúgandi eyja vísindamanna. Eyjan flýgur í krafti málmsteins nokkurs, adamantíns, en það er goðsögulegt/skáldskaparlegt efni sem er afar vinsælt í nútíma myndasögufantasíum, en ofurhetjan Wolverine er til dæmis með klær úr því efni. Miyazaki fær þetta steinefni lánað í myndinni, það er enn sem fyrr efnið sem gerir flug kastalans Laputa mögulegt og er sömuleiðis nátengt róbótunum sem byggja eyjuna, en þeim virðist stýrt í krafti steinsins. Líkt og í öðrum myndum Miyazaki er kvenhetja í aðalhlutverki, hin munaðarlausa Sheeta sem er elt bæði af illmennum úr hernum og illskeyttum sjóræningjum, allir sækjast þeir eftir steininum sem hún ber um hálsinn og er erfðagripur. Steinninn hefur töfravald, lífgar dauðan róbót og vísar veginn til fljúgandi eyjunnar. Enn birtist hér gagnrýni Miyazaki á valdagræðgi og hernað, Sheeta óttast mátt steinsins og vill eyða honum, en annar afkomandi konungsfjölskyldunnar frá Laputa vill nota hann til að verða valdamikill stríðsherra.
Myndin er einnig gott dæmi um hina sérstæðu nálgun Miyazaki á tækni sem einkennir alla hönnun myndanna, en henni má helst lýsa sem eins konar lífrænni tækni. Öll tæki eru á einhvern hátt lifandi – fljúgandi kastalar og hlaupandi kastalar til dæmis – hönnuð þannig að þau verða lífræn, hvort sem það eru flugtæki, sem Miyazaki hefur sérstakt uppáhald á, eða róbótar, lestir og bílar, sem einnig koma fyrir. Þessum áhrifum nær hann fram með fremur órólegum ávölum línum, flugtæki eru oft belgvíð og öll samskeyti sýnileg, vænghafið oft snubbótt svo minnir á smáfugl eða flugu og oft eru tækin á einhvern hátt skökk eða skæld; hér er ekkert straumlínulagað eða ferkantað. Dæmi um þetta er róbótinn góði, hann er frekar ólánlegur í laginu greyið, útlimir grannir með mörgum samskeytum eða liðum, armarnir svo langir að þeir ná niður á jörð. Búkurinn er hins vegar egglaga og brjóstkassinn breiður, höfuðið er eins og oddur á byssukúlu og augun skökk, en yfir andlitinu er eins konar gríma með einu stóru og einu litlu auga. Allt gerir þetta að verkum að róbótinn virkar vinalegur og næstum aumkunarverður, sem þó kemur ekki í veg fyrir að hann geti verið ógnandi þegar til á að taka.
Þetta myndmál lifandi tækni er svo nýtt til hins ýtrasta í kastalanum kvika, en hann er stórkostlegt dæmi um myndheim Miyazaki. Hér birtist þetta allt, óregluleg hönnun samsetningar, öll samskeyti eru sýnileg og jafnvel ýkt og kastalinn skiptir sífellt um svip – bókstaflega, því hann hefur andlit. Myndin er einnig dæmi um stöðuga gagnrýni Miyazaki á stríðsrekstur en sagan gerist í Evrópu á einhvers konar viktoríönskum (ef marka má búninga, húsin virðast eldri) tíma, stríð vofir yfir og konungurinn vill fá Howl til hjálpar. Howl er frægur fyrir að stela hjörtum ungmeyja, en Sophie óttast hann ekki, hún er ekki nógu falleg til að freista Howls. En þó liggja leiðir þeirra saman sem verður til þess að vond norn leggur á hana þau álög að hún verður gömul. Sophie flýr og sest að í kastala Howls og svo hefst ótrúlegt ævintýri.
Lifandi ævintýri
Miyazaki hefur á undanförnum árum skapað sér þá stöðu að vera talinn besti núlifandi teiknimyndahöfundur heims, og hér nota ég orðið teiknimynd viljandi, því hann er einn af fáum sem enn gerir teiknimyndir með gamla laginu, teiknaðar, ramma fyrir ramma, en ekki tölvugerðar. Ef marka má viðtöl við Miyazaki er hann ekki mikill bjartsýnismaður og segist aðspurður ekki hafa mikla trú á að boðskapur mynda hans nái að breyta heiminum til hins betra, en þó viðurkennir hann í samtali við blaðamann Guardian (14. sept. 2005), "ef við listamenn reynum að segja að lífið sé þess virði að lifa því og heimurinn þess virði að búa í honum, þá gæti eitthvað gott komið út úr því".Það er auðvelt að öðlast trú á hið góða – þó ekki væri nema bara góða list! – við það að horfa á myndir Miyazakis. Þó eru þetta engar vellur, hér er fjallað um dramatík og átök og mörkin milli hins illa og hins góða eru ekkert endilega alltaf skýr, né stöðug. Þetta kemur vel fram í kastalanum kvika, en þar hafa bæði illa nornin og Howl, svo ekki sé talað um eld-demóninn Calcifer, óljósa stöðu á mörkum góðs og ills. Sömuleiðis er upplifun Sophie á öldrun sinni ótrúlega átakanleg og falleg í senn. Bent hefur verið á að þessar myndir séu barna- og fjölskyldumyndir í Japan en á Vesturlöndum sé tilhneigingin sú að líta á þær sem listrænt efni fyrir fullorðna, kannski vegna þess hve ólíkar þær eru bandarískri framleiðslu hvað varðar útlit, myndmál, andrúmsloft, framvindu (eða bara ‘tempó') og efnistök. En það er einmitt þetta, hversu frábrugðnar þær eru bandarísku efni sem gerir myndir Miyazaki að listrænni og ánægjulegri upplifun, auk þess að bjóða upp á áhugaverðar vangaveltur.
Þegar ég gekk út úr Ghibli-safninu var ég dálítið hugsandi. Þó safnið væri vissulega skemmtilegt og frábærlega hannað, með allskyns útskotum, ranghölum, hringstigum, brúm og fjársjóðsleitum, fannst mér eitthvað vanta upp á fræðsluþáttinn, hefði viljað sjá meira af myndum úr myndunum, jafnvel módel af vélum, húsum og köstulum og kannski einhvern texta. En þegar ég var komin lengra og horfði á húsið úr fjarlægð fattaði ég að fræðsla er ekki málið hér, ekki frekar en Miyazaki trúir á að myndir hans þjóni einhverjum boðskap: málið er að ganga inn í þetta safn líkt og Sophie inn í kastala Howls og gangast þannig inn á ævintýraheim Miyazaki og Ghibli-myndanna og fá, í nokkra klukkutíma, að upplifa ævintýrið.
Höfundur er bókmenntafræðingur.