Eftir Pétur Gunnarsson
peturgun@centrum.is
Frakkar og Íslendingar eiga sammerkt að vera gjarnt að líta til upphafsins, einskonar heimareits sem alltaf er hægt að fara aftur á til að endurnýja sig og safna sér saman. Hjá Íslendingum er það landnámið og það hamfarahlaup sköpunar sem fylgdi í kjölfarið. Frakkar aftur á móti miða upphaf sitt við Grikkland til forna, þeim er tamast að byrja þar.
"Land" er vitaskuld ekki eins klárt hugtak hjá meginlandsþjóð og eyþjóð. Frakkland hefur í gegnum tíðina verið eins og harmonikka, inn og út, ýmist náð frá Miðjarðarhafi að Norðursjó, en líka skroppið saman í bleðilinn kringum París, eins og þegar Lúðvík 7. missti stóra skák af Frakklandi yfir til Englands þegar hann skildi við drottningu sína, Alienóru af Aquitaníu, sem síðan hljóp beint í fangið á Hinriki 2. Englakóngi og hafði með sér heilu landsvæðin úr föðurgarði. Og jók við þau lönd sem Hinrik átti fyrir í Normandí (12. öld).
Og ekki geta Frakkar (eins og við) bent á tiltekið ártal þegar þeir hófu búsetu í landi sínu, einhvers staðar í blámóðu forsögunnar. Það er ekki fyrr en með herleiðöngrum Júlíusar Sesars sem ljós sögunnar fellur á þá fáum árum fyrir Krist. Þúsund árum síðar hefst þeirra mikla ritöld á móðurmáli, um líkt leyti og ritæðið rennur á Íslendinga.
***
En það er bara á skömmu skeiði sem þessar tvær þjóðir eru samferða, fljótlega dregur í sundur með þeim og það sem skilur á milli er lægðin djúpa sem Íslendingar sigla inn í og ráfa um í næstu sex aldir á meðan sól Frakka hækkar á himninum og skín skærast með sjálfum sólkonunginum á 17. öld.Þegar auður og völd höfðu endanlega flust frá Íslandi þurftu hinir ríku og stríðandi ekki að verða sér úti um "menningarlegt auðmagn", svo gripið sé til hugtaks úr smiðju franska þjóðfélagsfræðingsins Pierre Bourdieu. Þessi þörf er hins vegar yfrin í Frakklandi þar sem aðall og kirkja heyja harðvítuga baráttu um völdin og aðall og kirkja innbyrðis og kóngurinn við alla. Í slíku ástandi er enginn hörgull á lánasjóðum og starfslaunum sem bjóðast listamönnum. Fyrir vikið er menning Frakka aristókratísk í grunninn, gegnumsýrð af sjónarmiðum aðalsins, þ.e. stétt sem Guð hafði undanþegið öllum búksorgum og átti aðeins að gæta heiðurs síns og sóma, en þess utan að njóta lífsins.
Einkennalaus bændamúgur hafði það hlutskipti að sjá um viðurværi forréttindafólksins, jafn orðalaust og búfénaður sem dreifir sér um hagana og sér landeigendum fyrir fæði, klæðum og vöðvaafli.
Borgarastéttin kemur síðan með puðið, starfsframann og framapotið og steypir aðlinum fyrst í skuldafen og síðan frá völdum í byltingarhrinum. En þótt aðallinn glati völdum sínum og áhrifum eru lífsgildi hans furðu lífseig í franskri menningu. Jafnt í ástarlífi sem bókmenntum. Höfundar á borð við Balzac, Flaubert og Proust eru allir á bandi aðalsins í viðhorfum og gildismati. Og borgaralegu siðferði hefur gengið brösuglega að koma böndum á ástarlíf Frakka sem dregur óneitanlega dám af frjálslyndi aðalsins. Forseti Frakklands til skamms tíma átti til að mynda hjákonu og dóttur í seli, fyrir utan allar hinar konurnar, já og eiginkonu auðvitað, og þótti engum fjölmiðli taka því að sjá það né heyra.
***
Ætli frelsi sé ekki eitthvert munntamasta orð franskrar tungu? Frægt er ljóðið sem Paul Eluard orti og Jón Óskar sneri, 21 erindi sem öll eru tilhlaup að þessu eina orði: FRELSI.Ekki einasta er það upphafsorðið í vígorði frönsku byltingarinnar: "Frelsi, jafnrétti, bræðralag", það er sjálfur möndullinn sem heimspeki þeirra og bókmenntir snúast um.
Aftur á móti er "frelsi" ekki sérlega tamt íslenskri hugsun, helst að símafyrirtæki og bankar beiti því fyrir sig – í eitthvað yfirfærðri merkingu þó – jafnvel andhverfri.
Hvað skyldu Íslendingar hafa sett á gunnfánann ef þeir hefðu gert byltinguna í stað Frakka?
Vinnuna kannski? "Vinna, jafnrétti, bræðralag". Og æstustu byltingarseggirnir "yfirvinnuna".
Kannski kjarnast hér munur á Íslendingum og Frökkum. Á Íslandi er ekki hefð fyrir því að vera einber njótandi lífsins. Og skýrir kannski sumt kyndugt í fari okkar, til dæmis að við skulum aldrei gera uppreisn gegn kjörum okkar. Það virðist vera sama hvað verðlagið er absúrd og vaxtastigið hátt, við getum endalaust gengið nær okkur af því að lífið er ekki inni í myndinni, nema sem afgangsstærð. Þessu er öfugt farið hjá Frökkum sem róa að því öllum árum að færa eftirlaunaaldurinn neðar og neðar, helst niður í 55 ára og fara glaðir og reifir inn í starfslokin. Á meðan það er engu líkara en verið sé að senda íslenska eftirlaunaþega í refsivist. Ekki er ýkja langt síðan íslenskur verkalýðsforingi hafði það á stefnuskrá að berjast fyrir því að launafólk fengi að vinna líka eftir sjötugt. Því á Íslandi er lífið vinnan og þar af leiðandi er ekkert líf án vinnu. Á meðan Frakkar búa hugsanlega að vinnufælni aðalsins og þessari hugsun: að lífið sé til þess að njóta þess.
***
"París var þar sem 20. öldin var", skrifaði bandaríska listaspíran, Gertrude Stein, um ákvörðun sína að setjast að í París á þriðja áratug síðustu aldar. Og landi hennar Hemingway líkti París við "hreyfanlega hátíð". Og satt er það: fáar borgir eru jafn örlátar á tíma sinn. Ótölulegur fjöldi kaffihúsa býður gestinum sæti, glæsilegir parkar standa honum opnir, ótæmandi söfn bjóðast til að hafa ofan af fyrir honum að deginum og alltaf má finna ódýra hótelholu til að sofa af blánóttina.París er leiksvið. Sviðsmyndin götur og hallir og garðar. Og þú ert frjáls að búa þig til í þessu götuleikhúsi. Það kemur engum við hvernig aðstæður þínar eru heima fyrir, um leið og þú lokar á eftir þér útidyrahurðinni ertu óskrifað blað. Nokkur skref og þú getur gefið þig út fyrir að vera hvað sem er, það er að segja þú sjálfur.
Þá er ótalin nautnin að lesa franskt dagblað. Af því Frökkum er svo tamt að láta sig allan heiminn varða. Íslenskt dagblað getur á einum vetri birt 23 greinar um bakflæði og næsta vetur álíka margar um ágreining tannlækna og tannsmiða varðandi hvað þeir síðarnefndu megi gera í munnholi.
Frakkar aftur á móti hreyfa tunguna, rökræða. Halldór Laxness orðaði rökfælni Íslendinga eitthvað á þá lund: að þá setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls. Rökræðan er yndi og eftirlæti Frakka. Ekki samt einhver Morfís, heldur búa þeir að hefð sem á rætur aftur á sautjándu öld í heimspekingnum Descartes og lýtur að því að smætta og þætta öll viðfangsefni niður í ljósa og sundurgreinandi ræðu uns sannleikurinn gefur sig fram.
Íslendingum er tamara að koma sagnamegin að veruleikanum, að segja sögu. Öfugt við Frakka flosnuðu þeir ekki upp frá sínum miðaldabókmenntum, málæðin fór ekki í sundur, heldur hitaði upp hugarfylgsnin sem voru athvarf þeirra út ísöld allsleysisins. Það er undarlegt til þess að hugsa að kynslóðirnar skuli hafa megnað að smygla þessum varningi í gegn um hið stranga landamæraeftirlit fátæktarinnar. Aftur á móti var fáu þyrmt af því sem mölur og ryð fá grandað. Öfugt við Frakka hljótum við að skila auðu þegar kemur að glæsibyggingum, þar eiga enn við orð Adams frá Brimum sem í riti frá 11. öld segir um Íslendinga: "Fjöllin eru þeim í stað borga."
Enn í dag er það hin volduga náttúra sem gerir að verkum að Ísland blaktir í vitund nútímamanna: öræfin, víðernin, ógrynnin.
Og svo svörin við spurningunni sem fá lönd ganga jafn eindregið eftir við þjóð sína: af hverju ertu hér?
Höfundur er rithöfundur.