Geisladiskur Ólafar Arnalds nefndur Við og við. Öll lög og textar eru eftir Ólöfu utan ljóð í númer tíu og lag & texti í númer fimm. Ólöf syngur, leikur á gítar, koto-hörpu, charanga, fiðlu, víólu, orgel og páku.

Geisladiskur Ólafar Arnalds nefndur Við og við. Öll lög og textar eru eftir Ólöfu utan ljóð í númer tíu og lag & texti í númer fimm. Ólöf syngur, leikur á gítar, koto-hörpu, charanga, fiðlu, víólu, orgel og páku. Aðrir hljóðfæraleikarar eru: Skúli Sverrisson á kontrabassa, Róbert Sturla Reynisson á gítar, Kjartan Sveinsson á píanó, Matthías Hemstock á bjöllur, Hildigunnur Halldórsdóttir á fiðlu, Ari Þór Vilhjálmsson einnig á fiðlu, Þórarinn Már Baldursson á víólu, Sigurgeir Agnarsson á selló, Stefán Jón Bernharðsson á horn, Emil Friðfinnsson á horn, Sigurður Þorbergsson á básúnu, Grímur Helgason á klarinett og Eiríkur Orri Ólafsson á trompet. Upptökustjórn, umsjón og ráðgjöf: Kjartan Sveinsson. Hljóðblöndun og tónjöfnun: Birgir Jón Birgisson og Kjartan Sveinsson. Sérlegur listrænn ráðgjafi var Skúli Sverrisson. Upptökur fóru fram í Sundlauginni og Víðistaðakirkju. 12 Tónar gefa út.

VIÐ OG við er fyrsta sólóplata Ólafar Arnalds. Á henni flytur Ólöf þægilega vísnatónlist í anda Spilverksins og Megasar en einnig má heyra áhrif úr austur-asískri tónlist og djassi. Söngstíll Ólafar gefur Við og við einstakt yfirbragð, röddin hennar er mjög sérstök en engu að síður afskaplega falleg. Stemmningin á plötunni er dýrmæt, hún minnir á eitthvað gamalt og gott. Hvort sem það er eldhúsið hjá ömmu, fyrstu plötur Megasar eða bara að sitja í lopapeysu úti á túni – þá er það sér-íslensk líðan.

Textarnir á Við og við eru á íslensku og bæði undirstrika hæfileika Ólafar og einlægni ásamt því að vera skemmtilega heimilislegir. Ólöf fjallar um daglega hluti eins og Ártúnsbrekkuna, vináttu og annað slíkt. Þetta gerir hún í þægilegu tómi tónlistar sem er laus við óþarfa tilgerð og prjál. Einfaldar laglínur fá að njóta sín í hófstilltum en vel hugsuðum útsetningum. Vandaður gítarleikur er í forgrunni flestra laganna en önnur hljóðfæri koma fyrir eins og velkomin viðbót, aldrei yfirþyrmandi, frekar eins og eðlilegt framhald á annars góðum lögum. Það þarf ekki að taka það fram að innkoma Skúla Sverrissonar er sérlega góð, hann ljáir plötunni bassaleik sinn af visku og færni. Það sama má segja um hina hljóðfæraleikarana, listrænn metnaður er augljóslega í fyrirrúmi. Það er gaman að heyra plötu sem inniheldur svona mikið af hljóðfærum án þess að þau rekist á og verði kraðaksleg. Kjartan Sveinsson upptökustjóri hefur unnið verk sitt vel.

Ég verð að játa að ég bjóst ekki við því að Við og við væri jafn góð plata og raun ber vitni. Í stað þess að heyra krúttlegar og barnalegar raddir og útsetningar, fékk ég þroskað verk ungrar konu sem veit hvert hún ætlar sér. Ólöf sýnir hér að hún er ekki aðeins frambærilegur tónlistarmaður, heldur einnig áhugaverð söngkona og virkilega góður laga- og textasmiður. Það er á fárra færi að skapa jafn góða stemmningu og hún gerir á Við og við . Hún nær tengslum við hlustandann á augabragði svo framarlega að hann gefur henni tækifæri. Það verður fróðlegt að sjá hvert framtíðin leiðir Ólöfu Arnalds.

Helga Þórey Jónsdóttir

Höf.: Helga Þórey Jónsdóttir