Ólöf Arnalds "Þessi kynslóð lítur ekki á hlutina sem svarta eða hvíta og það er engin stéttaskipting á milli lærðra og ólærðra. Það er eins og sú hugmynd eða afstaða sé að leysast upp, það hefur enginn áhuga á svoleiðis dilkadrætti lengur."
Ólöf Arnalds "Þessi kynslóð lítur ekki á hlutina sem svarta eða hvíta og það er engin stéttaskipting á milli lærðra og ólærðra. Það er eins og sú hugmynd eða afstaða sé að leysast upp, það hefur enginn áhuga á svoleiðis dilkadrætti lengur." — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir að hafa lagt tugum tónlistarmanna lið með hljóðfæraleik og söng í yfir áratug lét Ólöf Arnalds loks slag standa með sína fyrstu sólóplötu. Platan, sem heitir Við og við , hefur fengið lofsamlegar viðtökur og framúrskarandi dóma en hún kom út við lok febrúarmánaðar.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Leiðir okkar Ólafar liggja saman í gegnum símalínu í þetta sinnið, en hún var stödd í suðupotti þeim er Berlín heitir þegar blaðamaður hafði samband. Í vikunni tróð hún upp ein og óstudd á opnun íslenskrar hönnunarsýningar í sameiginlegum sýningarsal norrænu sendiráðanna og lék þar á gítar og charanga ásamt því að syngja. Á tónleikum hérlendis að undanförnu hefur Róbert Reynisson gítarleikari lagt henni lið, og áttu landsmenn allir kost á því á dögunum að heyra hvert Ólöf er að fara í sólótónlist sinni, en hún var ein þeirra listamanna sem komu fram á tónleikum Hlaupanótunnar í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, tónleikar sem voru partur af Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar og voru þeir sendir út beint í gegnum Rás 1. Tónleikar Ólafar mynduðu gæsahúð á áhorfendum og þú hefðir þurft að vera steinrunninn þurs til að hrífast ekki af einfaldri, berstrípaðri fegurðinni sem var slengt á borð.

"Áreynslulaus og undurblíð fegurð sem hitti beint í hjartastað og besta dæmið þar um var titillag sólóplötunnar, "Við og við". Stórkostlegt," sagði í Morgunblaðsdómi um tónleikana.

Kynning á plötu Ólafar stendur semsagt yfir um þessar mundir, hvort heldur er í Reykjavík eða Berlín, og í lok apríl verða tónleikar í Winnipeg sem hluti af íslenskri listahátíð þar í borg. Á miðvikudaginn næsta verða svo opinberir útgáfutónleikar plötunnar haldnir á NASA. Þar verða tilkallaðir flestir þeir sem þátt tóku í gerð plötunnar, en á henni kennir ýmissa grasa hvað hljóðfæraleik varðar; strengjakvartettar, blásturshljóðfæri, kontrabassi, pákur og koto-harpa eru á meðal þess sem stuðst var við til að galdra upp sérstæðan seið Ólafar. Þessu og meira til verður til tjaldað á útgáfutónleikunum.

Á kafi

"Platan verður flutt í heild sinni, í öllum þeim útsetningum sem heyrast á plötunni, það er með strengjum, blæstri og öllu tilheyrandi," tjáir Ólöf blaðamanni. "Þetta verður væntanlega bara í þetta eina skipti. Þetta er svona viðhafnarviðburður, því að ég geri svo mikið af því að spila ein. Mig langaði því til að hafa þetta dálítið sérstakt."

Ólöf hefur fengið ýmis tilboð um að spila að undanförnu og hefur hún nýtt þau eins og kostur er. Hún segir að útgáfutónleikarnir eigi væntanlega eftir að gefa sér betri tilfinningu fyrir því hvernig best sé að kynna plötuna í framhaldinu.

Ólöf segir að Við og við hafi opnað fyrir enn frekari sköpun, þegar hugmyndirnar eru komnar úr sekknum verður til pláss fyrir nýjar.

"Um þessar mundir er maður þó á kafi í þessari plötu, þar sem maður er að fylgja henni eftir. Það er eins og langmesta vinnan fari í gang þegar plöturnar eru loksins komnar út! En þegar um hægist ætla ég að fara að semja nýtt efni og ég verð að segja að ég get varla beðið og er mjög spennt fyrir þeirri vinnu."

Ólöf hefur starfað meira og minna við tónlist í meira en tíu ár og hefur verið afskaplega dugleg við að leggja vinum og félögum lið í hinum ýmsu verkefnum. Hún hefur samið tónlist við leikrit og innsetningar, starfað með djössurum, nútímatónlistarmönnum og tilraunagúrúum, unnið samstarfsverkefni í gegnum Tilraunaeldhúsið og starfað með hljómsveitum eins og múm og Slowblow. Þá hefur hún unnið nokkuð með Skúla Sverrissyni, en aðild hennar að frábærri plötu Skúla frá því í fyrra, Seríu , varð til að koma hennar eigin sólóplötu í gang. En hvort hún fer að snúa sér meira að sólóvinnu í kjölfar Við og við er óráðið.

"Ég veit bara ekki hvernig þau mál eiga eftir að þróast. Það verður hreinlega að koma í ljós. Það er engin sérstök áætlun á borðinu fyrir þetta ár. Ég mun spila eitthvað með múm á þessu ári og einnig Skúla, og nóg að gera þar a.m.k."

Ólöf hóf ferilinn með hljómsveitinni Mósaík, söng með þeim kornung á Músíktilraunum árið 1995, en í þeirri sveit var gítarleikari Benedikt H. Hermannsson, Benni Hemm Hemm. Svo leiddi hún sveitina Endemi þremur árum síðar í gegnum Músíktilraunir. Með henni þar var m.a. Eiríkur Orri Ólafsson trompetleikari, en hann hefur verið afar virkur í senunni sem hefur ekkert tiltekið nafn, en þeir sem henni tilheyra tengjast þvers og kruss í gegnum hina og þessa tónlistarhópa (t.d. múm, Skakkamanage, Benni Hemm Hemm, Borko, Seabear, Stórsveit Nix Nolte, Flís o.fl.). Dagskipunin þar er að sveigja frá hvers kyns boðum og bönnum, öllu er hrært saman, sumir eru lærðir og aðrir alls ekki en saman tengist þetta fólk í linnulausri leit að einhverju nýju og skapandi.

Ólöf rifjar upp að í árdaga þessarar hreyfingar hafi oft verið haldnir tónleikar í Tjarnarbíói og þar hafi ein hljómsveit verið sérstaklega minnisstæð, "þessir síðhærðu sem spiluðu löngu lögin", eins og hún orðar það. Já, Sigur Rós var að tilkeyra sig á þessum tíma, og vegir hennar hafa legið um áðurnefndan hóp í gegnum árin. Kjartan Sveinsson, píanóleikari og þúsundþjalasmiður Sigur Rósar, tók þannig upp plötu Ólafar og veitti góð ráð við gerð hennar.

Eftir eyranu

"Á þessum tíma voru allir að kynnast, bæði þeir sem fóru síðar í nám og líka þeir sem eru að vinna í þessum bransa, 12 tóna-gengið o.s.frv.," segir Ólöf. "Vinátta var að myndast og hún átti eftir að leiða af sér ýmislegt. Þetta er samkrull af fólki, sumir eru lærðir en aðrir ekki, og það "ástand" er mjög gefandi. Þessi kynslóð lítur ekki á hlutina sem svarta eða hvíta og það er engin stéttaskipting á milli lærðra og ólærðra. Það er eins og sú hugmynd eða afstaða sé að leysast upp, það hefur enginn áhuga á svoleiðis dilkadrætti lengur. Þetta er mjög jákvætt, fólk er bara að vinna að tónlistinni og það er hún sem skipar fyrsta sætið."

Spurð hvort hún hafi fundið fyrir gagnrýni á svona vinnubrögð segir hún nei, en hún er þó á því að hugmynd um einhvers konar skiptingu á milli lærðra og ólærðra eigi sér örugglega fastari sess hjá eldri kynslóðum.

"Fyrir mitt leyti þá finnst mér þægilegt að geta lesið nótur og þá get ég á mjög handhægan máta útskýrt fyrir fólki hvernig ég vil fá eitthvað spilað. En samt vinn ég mjög mikið eftir eyranu og ég hef aldrei verið neitt sérstaklega góð í nótnalestri. Ég hef bara verið eins góð í honum og ég þarf hverju sinni. Ég hafði lært á fiðlu í þrjú ár þegar það loksins uppgötvaðist að ég kynni ekki að lesa nótur. Ég fékk alltaf kennarann til að spila með mér og elti hann. Það var fín æfing í því að spila eftir eyranu en það kom kennaranum algerlega í opna skjöldu þegar í ljós kom að ég vissi ekki hvað sneri upp eða niður í þessum nótum."

Ólöf segir að viðhorfið hjá þessum áðurnefnda vinahópi sínum sé mjög afslappað, það sé bara kýlt á hina og þessa hluti. Og það eru alltaf allir til í stuðið virðist vera, allir að spila með öllum hvar og hvenær sem er.

"Já, og það hjálpast líka allir rosalega vel að. Það gerir þessa senu svo grasserandi, þetta greiðasamfélag með öllum sínum kostum og göllum. Það spila allir fyrir alla og með öllum en það er svosem ekki mikill peningur í því. En já, ef maður vill henda upp tónleikum þá getur maður gert það eins og að smella fingrum. Ef maður er í græjuvandræðum eða vantar eitthvað þá er alltaf hægt að hringja í einhvern. Svo ef einhvern vantar fiðlu í eitt lag þá stekkur maður til. En gróðinn er ekki alltaf mældur í peningum, það er verið að skapa menningarverðmæti sjáðu til... (hlær). En fyrir utan þennan beina starfa er fólk að skiptast á hugmyndum, um tónlist og bara hvaðeina. Guð og heiminn eins og sagt er í Þýskalandi."

Ólöf segir að það sé líka allt annað að starfa að tónlist í dag en þegar hún byrjaði á sínum tíma.

"Það hafa opnast ný tækifæri fyrir tónlistarmenn og hljómsveitir sem ekki voru fyrir hendi fyrir tíu árum. Nú er hægt að fá ferðastyrki til að komast út að spila, íslensku grasrótarútgáfurnar hafa virkilega sótt í sig veðrið og svo er það auðvitað þessi stafræna bylting, það er hægt að taka upp og klára plötu inni í herbergi hjá sér. Í dag eru meiri möguleikar fyrir þá sem hafa löngun til að skapa og koma einhverju á framfæri."

Tekið til

Við og við er einlæg og falleg plata, lágstemmd og jafnvel viðkvæmnisleg. Heyra má áhrif frá þjóðlagatónlist og sumir hafa jafnvel greint kínverska tónlist.

"Þegar stórt er spurt..." segir Ólöf og tekur sér málhvíld. "Ég heyri þetta frá mjög mörgum, að það sé eitthvað asískt í gangi á plötunni. Ég veit ekki hvað þetta er, mig grunar að þetta hafi mest að gera með tóntegundirnar. Sumt af þessu er dálítið "mótalt" og frekar lausbeislað. Dúr og moll dægurlaganna víkja oft. Tilhneigingin í laglínunum hefur kannski eitthvað með þetta að gera, þær eru stundum skærar og hátt uppi. En ég lagði ekki upp með nein sérstök áhrif þegar ég var að semja þessi lög. Ég upplifi þessi lög bara eins og þau eru og á frekar erfitt með að horfa á þau utan frá."

Ólöf segir í framhaldinu að platan hafi veitt henni meira sjálfstraust og öryggi hvað lagasmíðar varðar.

"Ég vissi ekki hvort ég kynni að semja lög áður en ég ákvað að gera þessa plötu en allt í einu finnst mér eins og ég kunni það. Hér áður fyrr komst ég ekki frá A til B með þessi lög mín, – ég var kannski hrifin af einhverri einni melódíu og hjakkaði í henni aftur og aftur. Mest af því sem er á plötunni er eitthvað sem ég var búin að þrástagast á í eitt og hálft ár. Það var ekki fyrr en ég fór af stað með plötuna að þetta fór að raðast saman – þá varð ég að klára lögin, og þau urðu að vera þetta mörg. Að setja sér þetta markmið olli því að hugmyndirnar fóru loks að rata heim til sín. Og tvær hugmyndir sameinuðust kannski í einu lagi. Þetta var svona eins og að taka til. Þetta var bara tiltekt, hugmyndunum var komið fyrir á réttum hillum og svo var unnið með þær áfram."

Ólöf hefur lýst því áður fyrir blaðamanni að hún hafi átt erfitt með að gera texta. Hún hafi reynt að klambra saman textum á ensku en þótt það hallærislegt. Það var ekki fyrr en hún gerði texta við lagið "Vaktir þú", sem er að finna á áðurnefndri plötu Skúla Sverrissonar, að gátt opnaðist.

"Hver og einn texti plötunnar fjallar um eina manneskju," útskýrir Ólöf. "T.d. lagið "Klara", textinn að því og raunar lagið varð til í hljóðverinu af því að ég átti hana eftir (Klara er litla systir Ólafar). Ég var búin að gera lag um mömmu og pabba og stóru systur en átti eftir að semja lag til Klöru. Ég hafði verið að glamra lagið á charanga í bíl fyrir austan, þetta er svona vegalag. Mér fannst þetta skrýtið lag en ég ákvað bara að kýla það inn, ákvað að treysta hugmyndinni. Kannski hefur öryggi mitt aukist að því leytinu til að ég er farin að gera meira af því að sleppa takinu og treysta hugmyndunum. Lögin fá bara að vera í friði, án afskipta frá mér... ef það meikar einhvern sens (hlær)."

Eins og áður segir verða útgáfutónleikar Ólafar á NASA á miðvikudaginn, 21. mars. Þess má þá geta að bráðlega fer hún ásamt Lay Low og Pétri Ben. í stutta hljómleikaferð um landið, en það er Rás 2 sem stendur að því uppátæki. Fyrstu tónleikarnir verða 19. apríl á Egilsstöðum en endað verður á NASA hinn 27. apríl.