Mannþröng Aðalmarkaðurinn í Banjul er alltaf iðandi af fólki að kaupa og selja allt frá ferskum ávöxtum og pottum og pönnum til þjófstolinnar tónlistar og ilmvatns.
Mannþröng Aðalmarkaðurinn í Banjul er alltaf iðandi af fólki að kaupa og selja allt frá ferskum ávöxtum og pottum og pönnum til þjófstolinnar tónlistar og ilmvatns. — Ljósmyndir/Eliza Reid
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vestur-Afríka er sjaldnast á dagskrá ferðalanga í álfunni. Lítið er um há fjöll og vinsælustu safari-garðarnir eru annars staðar.

Vestur-Afríka er sjaldnast á dagskrá ferðalanga í álfunni. Lítið er um há fjöll og vinsælustu safari-garðarnir eru annars staðar. Þótt brúnn litur sandsins ráði ríkjum er líka að finna strendur með pálmatrjám, fjölbreytta menningu og goðsagnakennda verslunarbæi. Eliza Reid var í sjö vikur í Vestur-Afríku og kynntist annálaðri gestrisni íbúanna þar.

Hitinn umvafði mig í einu vetfangi og rakinn var svo mikill að ég missti andann. Jafnvel þótt næturloft léki um Dakar, höfuðborg Senegals, voru umskiptin gríðarleg frá því sem líkaminn hafði vanist; íslensku hausti og síðan um 17 klukkustunda ferðalagi í þremur flugvélum.

Þetta var mín fyrsta minning um Afríku.

Sú næsta vaknaði andartaki síðar þegar ég hafði gengið niður gamla og lúna járnstigann sem hafði verið rennt upp að flugvélinni. Samferðamennirnir á flugleið AZ850 með Alitalia frá Mílanó hópuðust inn í litla rútu sem færi með þá að flugstöðinni en hægra megin við stigann stóð brosmildur maður í skósíðum, hvítum serk; kaftan. Hann hélt á venjulegu pappaspjaldi og á það hafði verið skrifað með svörtum tússpenna "Mme. Reid". Hann fylgdi mér að bragði að annarri rútu sem ók strax sína leið að Salle d'honneure á Léopold Sedar Senghor-flugvellinum. Þar blés loftkæling ferskum vindum, blessunarlega. Um leið og ég settist örþreytt í mjúkan leðursófa í þessum lúxussal sá annar aðstoðarmaður um að ná í farangurinn minn og skrá mig inn í landið.

Bakpokaferðalangar hafa svo sem séð það svartara!

Bjargvætturin í serknum var Arona Sy, vinur vinar míns sem hafði boðið mér að dveljast á heimili sínu þegar ég væri í Dakar. Arona á þekkt ráðgjafarfyrirtæki og fjölskylda hans er nátengd forseta landsins. Það útskýrði hinar höfðinglegu móttökur á flugvellinum en í raun voru þær þó aðeins forsmekkur þess sem koma skyldi næstu sjö vikur. Íbúar Vestur-Afríku eru höfðingjar heim að sækja.

Dakar að degi til

Sagt er að Dakar í Senegal sé líflegasta og fjörugasta borg Vestur-Afríku en hún geti þó verið fráhrindandi því svo mikið gangi stundum á. Tvær milljónir manna búa í borginni og tónlistarlífið þar þykir óviðjafnanlegt. Senegal hlaut sjálfstæði frá Frakklandi árið 1960 og franskra áhrifa gætir bæði í húsagerðarlist og mataræði. Bagettur eru í morgunmat og neskaffi er aðaldrykkurinn – með mjólkurdufti frekar en alvörumjólk út af loftslaginu.

Ég fór fyrst um Dakar í björtu með Mariama, 25 ára gamalli eiginkonu Aronas (sem sjálfur var á fertugsaldri). Hún var jafn gestrisin og viðkunnanleg og eiginmaðurinn og klæddist hefðbundnum kvenfötum og bar höfuðklút, hijab. Fyrst fórum við á Sandaga-markaðinn, aðalviðskiptatorgið í Senegal. Ungir menn falbjóða þar ólíkustu hluti; farsímakort, herðatré og bökunarpönnur svo nokkur dæmi séu nefnd. Heljarinnar kjötstykki héngu þarna í hitanum og einn kaupmaðurinn bauðst með bros á vör til að slátra hvaða kjúklingi sem væri í búrunum við hlið hans. Konur gengu um markaðinn með skæra hálsklúta og börn bundin við bak sér.

Loftið lyktaði af hráu kjöti, ofþroskuðum ávöxtum, hráum og reyktum fiski, bensíni, hita og stöku sinnum barst ilmur af sápu eða öðru slíku úr hinum eða þessum sölubásnum. Stundum lá manni við ógleði og stundum var lyktin ljúf. Allt að einu líður hún manni aldrei úr minni.

Margt til lista lagt

Smám saman kynntist ég daglegu lífi í þessum hluta heimsálfunnar en þar á milli naut ég hinna vestrænu þæginda sem loftkæld íbúð Aronas og Mariama hafði upp á að bjóða. Ég svaf vel hverja nótt og þurfti ekki að þola moskítóflugurnar eða rafmagnsleysið sem varð nær daglegt brauð síðar í ferðinni. Ég fór líka í stutta ferð til norðurhéraða Senegals með Souleymane, frænda Aronas, en að nokkrum dögum liðnum var ég búin að jafna mig það vel á þessu nýja umhverfi að ég ákvað að láta slag standa og halda yfir til Gambíu.

Gambía er aðeins 11.300 ferkílómetrar og er því smæsta ríkið á meginlandi Afríku. Á landakorti líkist það helst snáki sem hlykkjast sína leið upp frá ströndum Senegals. Það land umlykur Gambíu á alla vegu nema að hafinu. Enska er opinbert tungumál í Gambíu, ekki franska eins og í Senegal, og Bretar í leit að hlýrra veðri að vetri til eru tíðir gestir á hinum sendnu ströndum landsins. Auk þess er tiltölulega algengt að evrópskar konur á miðjum aldri leiti yngri ástvinar á þessum slóðum.

Sjálf naut ég liðsinnis "konu á miðjum aldri" á mínu stutta ferðalagi um Gambíu. Arona vildi auðvitað tryggja að ég færi úr heimalandi hans án nokkurra vandkvæða og kom mér því í samband við Madame Fatou Samb – og guð hjálpi þeim sem reyndi að gera á hlut Mme. Samb; það sá ég fljótt!

Hún kallaði sig commerçant (kaupmann) og kunni fag sitt öðrum betur. Um það bil einu sinni í mánuði ferðaðist hún með bíl og ferju milli Dakar og Banjul, höfuðborgar Gambíu, og seldi varning sinn. Hún batt grásprengt hár sitt í þétta fléttu og skreytti hár sitt líka með fallegri silfurnælu. En öllu skipti að hún gat þrefað og prúttað við hvern sem er.

Klukkan fimm að morgni lögðum við Mme. Samb af stað til gare routière , leigubílastöðvar í Dakar. Þaðan aka menn út á land í Senegal og til Gambíu, um leið og nægur fjöldi fólks er kominn í hvern bíl. Í morgunhúminu skrifaði ég í dagbókina mína að staðurinn líktist helst fjölförnum ruslahaug uns maður gerði sér grein fyrir að bílhræin eru í raun farkostir sem eru enn í notkun. Þarna fékk ég smjörþefinn af almannasamgöngum í Afríku.

Við vorum alls sjö sem þjöppuðum okkur saman í gamlan hvítan skutbíl. Flóknir samningar um fargjald fyrir okkur og farangurinn tóku um klukkustund, með miklu handapati og sviptingum til og frá. Um sólarlag lögðum við loks í hann en námum svo staðar eftir um kílómetra akstur til að taka bensín (reglan virtist sú að því lengur sem það tók að fylla bíl af farþegum, því fyrr þurfti að fylla hann af bensíni þegar ferðin var loks hafin). Ég tók eftir því að öll viðvörunarljósin í mælaborðinu voru upplýst og sem betur fór var hraðamælirinn fastur við 60 kílómetra markið þannig að ég gat aldrei gert mér fulla grein fyrir því hve hratt við fórum í raun yfir.

Eftir um níu stunda akstur og stutta siglingu með ferju vorum við komin til Banjul. Við höfðum farið um 260 kílómetra leið. Ég rétt náði að bóka herbergi á hóteli, fara í sturtu, kaupa mér lambakebab af götusala og renna augum yfir eitt dagblað borgarinnar, Daily Observer. Þar var meðal annars grein um samtök til að berjast gegn engisprettum í Afríku og beiðni til fólks að leyfa ekki búpeningi sínum að þvælast inn á flugvöllinn í Banjul.

Ég hafði lofað Arona að vera komin heim til þeirra hjónanna á ný um kvöldmatarleyti næsta dag. Þótt það hefði tekið okkur níu tíma að komast til Banjul fullvissaði Mme. Samb mig um að ef við legðum af stað til baka klukkan þrjú yrðum við í Dakar um klukkan sjö, insjallah. Sú hefð að ljúka nær öllum setningum á insjallah, "ef guð lofar", eins og gerist og gengur í löndum múslima, hlaut að falla manni í geð. Samt gat hún þó vakið dálítinn kvíða ef út í það var farið.

Við vorum komin til Dakar um klukkan hálfeitt eftir miðnætti. Ferðin hafði verið skemmtileg þótt ég hefði kannski sofið meira en ég hefði kosið. En félagsskapur hinnar fyrirferðarmiklu Mme. Samb vó svo sannarlega á móti því.

Stóra járnbrautarklúðrið

Í ferðahandbókinni minni sagði að járnbrautarferðin milli Dakar og Bamako, höfuðborgar grannríkisins Malí, teldist til hinna fáu mikilsverðu leiða af því tagi sem enn tíðkuðust í Afríku. Leiðin er 1.225 kílómetra löng. Malímenn sjá um hana og í orði kveðnu á hún að taka um 40 klukkustundir. Í raun varir ferðalagið um þrjá sólarhringa að öllu jöfnu. Ákveðinn brottfarartími fyrirfinnst ekki; fyrst þegar lestin er komin á áfangastað er ákveðið hvenær snúa skuli til baka. Þetta hlaut í raun og sann að vera hin ógleymanlega leið til Malí.

Aðaljárnbrautarstöðin í Malí líktist mjög öðrum slíkum byggingum í þróunarlöndunum. Hún var mikilfengleg á að líta og litskrúðugar veggmyndir lýstu áfangasigrum í sögu ríkisins. En innan hinna fögru veggja, sem voru reyndar farnir að láta á sjá, ríkti síðan óreiðan ein.

Ég var búin að bíða brottfarar og blaka blævængnum til og frá í nokkra klukkutíma þegar mér var sagt að vegna bilunar seinkaði lestinni til Bamako til klukkan sjö um kvöldið. Ég gat séð að fólkið, sem sat á gólfmottum í kringum mig, var líka orðið þreytt á biðinni. Auk þess höfðu flestir fastað daglangt því Ramadan-mánuðurinn stóð yfir. Engu að síður var glaðværð yfir hópnum. Enginn kvartaði og þótt farþegar í smærri lestir kæmu stöðugt og færu reyndi enginn að troðast eða flýta sér um of. Og við sem vorum á leið til Bamako biðum þess áfram róleg að lestin okkar legði af stað... insjallah.

Rétt fyrir hinn nýja brottfarartíma – í þann mund sem sólin var að hverfa á bak við sjóndeildarhringinn – höktu hinir gulgrænu vagnar "Express"-lestarinnar eftir sporinu inn á járnbrautarstöðina. Sumsstaðar hafði málningin flagnað af og vagnarnir höfðu greinilega látið á sjá eftir því sem árin liðu. Hundruð farþega fylltu þá eins og hendi væri veifað. Kaupmenn voru áberandi, einkum á öðru farrými þar sem sætaskipan var frjáls og þeir báru með sér mannhæðarháa poka, fulla af lauk, hrísgrjónum og ýmiss konar vefnaðarvöru. Farþegar á fyrsta farrými gátu gengið að fráteknum sætum en þar voru þau þó jafnlúin, slitin og skítug og annars staðar í lestinni.

Ég hafði ákveðið að gera vel við mig og keypti mér því miða í couchette- klefa. Þar voru fjórir legubekkir. Svampdýna fylgdi hverjum bekk; mín var götótt og þunn og lakið óþrifalegt. Veitingavagn átti víst að vera í lestinni en hann var lokaður og farþegar höfðu komið með eigin kost sem skyldi duga þeim í þrjá sólarhringa; vatn og ýmislegt matarkyns sem þoldi hitann. Sjálf var ég meðal annars með nokkrar sardínudósir og kíló eða svo af þurrkuðum apríkósum.

Ég steig um borð í lestina um klukkan hálfátta þegar sólin var sest og þeir sem höfðu beðið með mér máttu ljúka föstunni þann daginn. Þeir drukku te og gæddu sér á döðlum og flatbrauði. Þegar inn í lestina var komið sáust vart handa skil. Rafmagn kæmist ekki á fyrr en farið væri af stað. Á meðan óx hitinn og svækjan var kæfandi. Moskítóflugurnar flögruðu um og gátu gefið manni malaríu ef því var að skipta; og tugir kakkalakka voru hér og þar (samferðamaður minn í klefanum hafði bent mér á þá alla með vasaljósinu sínu).

Svo biðum við brottfarar.

Og biðum.

Og biðum.

Ferðafélagarnir virtust öllu vanir, sýndu langlundargeð og við spjölluðum saman um heima og geima. Um klukkan hálftólf, eftir fjórar stundir í þessum suðupotti, gerði ég mér þó ferð eftir lestarpallinum og spurði starfsmenn á vettvangi sisona hvað ylli töfinni. Þeir svöruðu með bros á vör að lestin legði af stað um leið og búið væri að hlaða hana varningi kaupmannanna og það myndi örugglega gerast "fyrir miðnætti".

Allt um kring voru pokar og pinklar sem biðu þess að vera staflað upp í lestinni. Þeir voru örugglega í hundraðatali og starfsmennirnir, sem stóðu við þá, virtust ekki líklegir til þess að láta hendur standa fram úr ermum.

Þar með lauk mínu mikla lestarævintýri í Afríku – því ég gafst upp.

Ég hélt rakleiðis að næsta almenningssíma, hringdi í Arona og spurði hvort ég mætti gista hjá þeim hjónum eina nótt enn. Það var auðvitað sjálfsagt.

Ég fór aftur upp í lestina til að sækja föggur mínur og kvaddi fólkið sem hefði átt að verða ferðafélagar mínir næstu sólarhringana. Um leið og ég gekk hálfskömmustuleg eftir lestinni allri kölluðu sumir til mín: "Madame, ertu að fara úr lestinni núna? Hvers vegna?"

Ég þóttist verða að vera komin til Malí fyrir helgi en blygðaðist mín eftir sem áður. Hér var maður lifandi kominn, ofdekraði og ríki Vesturlandabúinn.

Þegar ég fann þreytuna líða úr mér í uppbúnu gestarúminu hjá Arona og Mariama var ég hins vegar orðin sátt við sjálfa mig. Ég hafði áður haldið í langar lestarferðir og ég hafði nú þegar hitt marga innfædda og upplifað sitt af hverju. Þar að auki má vel vera að lestarferðin hefði orðið ógleymanleg en hún hefði alls ekki orðið skemmtileg.

Næsta dag tók ég fyrsta flug með Air Senegal til Bamako.

Sandur og ryk í Malí

Moskítóflugur í tugatali. Fimm sinnum í kalda sturtu. Rafmagnið af þrisvar sinnum. Ein löng nótt.

Svona mætti helst lýsa fyrstu nóttinni minni á Auberge Toguna í Bamako, hóteli þar sem gistingin kostaði 12.000 CFA á nótt (1.500 krónur) og flokkaðist því undir "ódýrt" í ferðahandbókunum. Moskítóflugurnar eru sérlega varhugaverðar að næturlagi því bíti þær í svefni er hætta á malaríusmiti án þess að maður geri sér grein fyrir því og sjúkdómurinn getur dregið fólk til dauða sé ekki gripið til réttra ráða í tæka tíð. Og rafmagn fer oft af hverfum eða gervöllum borgum sem standa ekki í skilum við orkufyrirtækin. Sama gildir víða um vatnsveituna.

Þegar rafmagnið fór af þessa nótt slokknaði auðvitað á viftunni í herberginu og hitinn magnaðist á svipstundu. Eina ráðið var að skella sér í sturtu og engu máli skipti að heitt vatn var ekki að fá á þessu hóteli; nú var það kalda vatnið sem öllu skipti.

Ferðalangurinn sem gekk um rykugar götur Bamako, höfuðborgar Malí, að morgni næsta dags var því ansi lúinn, þjakaður og þreytur. En ekki varð umflúið að hafa sig af stað; ég þurfti að fá vegabréfsáritanir svo ég gæti haldið ferðinni áfram til næstu landa sem biðu mín samkvæmt þeirri grófu ferðaáætlun sem ég hafði samið áður en ég lagði í hann.

Bamako er í dalverpi og það orð fer af borginni að þar sé hitinn sérlega þrúgandi, rykið alltumlykjandi og þreyta sæki fljótt að ferðalöngum sem séu óvanir þess háttar aðstæðum. Aftur á móti bætti mjög úr skák að heimamenn vildu allt fyrir mig gera, vísuðu mér veginn milli sendiráðanna og ég naut þess til hins ýtrasta að ganga um borgina fram eftir degi. Öryggisverðir og lögregluþjónar tóku meira að segja undir kveðjur mínar ef ég vinkaði til þeirra og brostu þegar ég gekk framhjá þeim.

Reyndar var örlítið súrt í broti að hið fjöruga tónlistarlíf, sem Bamako státar af, var ekki eins öflugt og venjulega út af Ramadan. Auk þess fæst sjaldnast raunsönn mynd af landinu öllu með því að dveljast aðeins í höfuðborginni og ég ákvað því að leggja land undir fót, dreif mig upp í rútu og fór sem leið lá 260 kílómetra norður og austur, til hinnar fornu borgar Ségou á bökkum Nígerfljóts.

Ég var komin á áfangastað að kvöldi og fann fljótt ágætishótel sem fjölskylda frá Líbanon rak og hafði á sér gott orð. Um leið og ég naut þess að sötra bjór í fyrsta sinn alla ferðina (það er erfitt að finna áfengi þegar Ramadan stendur yfir) spjallaði ég við tvo aðra útlendinga á barnum; annar var Bart, hollenskur leiðsögumaður að bíða eftir hópi ferðamanna sem von var á daginn eftir, og hinn Joumana frá Montréal í Kanada. Hún hafði áður búið nálægt Ségou en var núna í fríi hérna. Þau buðu mér með sér út á lífið seinna um kvöldið og ég lét ekki segja mér það tvisvar enda ekki oft sem maður fær slíkt tækifæri á ferðalagi einn síns liðs.

Stuttu eftir kvöldmat fór mér hins vegar að líða frekar illa. Höfuðverkur sótti á mig, auk verkja í liðamótum og mér snöggkólnaði. Ég hef auðvitað varann á þegar ég ferðast ein á fjarlægum stöðum og fletti því einkennunum upp í gömlu og snjáðu ferðahandbókinni minni.

Og viti menn, ég var með öll einkenni malaríu nema það veigamesta – háan hita. Í bókinni stóð skýrum stöfum að færi hitinn yfir 38 gráður yrði maður að leita læknis undir eins. Yrði ekkert að gert gæti malaríuvírusinn náð til heilans og þá væri voðinn vís. Í Afríku deyja að jafnaði tvö mannsbörn úr malaríu á hverri mínútu svo þetta voru ekki innantómar viðvaranir. Sjálf þóttist ég samt komast að því að fyrst ég væri ekki með háan hita væri þetta aðeins flensa og ekkert að óttast. En ég lét vera að njóta lífsins lystisemda með Bart og Joumana og lagðist þess í stað til svefns.

Morguninn eftir leið mér miklu verr, það var varla að ég gæti drattast nokkur skref áfram. Dagurinn leið og að kvöldi ákvað ég að mæla í mér hitann, svona til öryggis. Ég reyndist vera með 39,3 gráður. Starfsmenn hótelsins kölluðu samstundis eftir lækni.

eliza@elizareid.com

Eliza Reid ferðaðist ein síns liðs um Vestur-Afríku í október og nóvember í fyrra. Þessa og næstu fjórar helgar birtir Morgunblaðið ferðasögu hennar.

Bakgrunnurinn

Hvert: Um sjö ríki Vestur-Afríku, Senegal, Gambíu, Malí, Búrkína Faso, Benín, Tógó og Ghana.

Hvenær: 2. október til 21. nóvember 2006 (sjö vikur).

Hver: Eliza Reid, blaðamaður í hlutastarfi við Iceland Review , markaðsráðgjafi og rithöfundur með ólæknandi ferðabakteríu. Fædd og uppalin í Kanada en búsett á Íslandi síðustu ár og líkar lífið hér afar vel.

Hvers vegna: Þrjú ár voru liðin síðan ég fór síðast í langt ferðalag einsömul (um Rússland, Mið-Asíu og Austurlönd fjær) og tími til kominn að leggja aftur land undir fót. Vestur-Afríka varð fyrir valinu því mig hafði lengi langað til Afríku en ekki endilega til vinsælu þjóðgarðanna og veiðilendnanna í austur- og suðurhluta álfunnar. Í flestum ríkjum Vestur-Afríku er líka sæmilega stöðugt stjórnarfar, þau eru tiltölulega smá og auðvelt að ferðast á landi milli þeirra þannig að ég gat heimsótt mörg lönd í einni lotu. Það hafði líka sitt að segja að á þessar slóðir sækja frekar fáir Vesturlandabúar. Það heillar mig alltaf dálítið að ferðast þangað sem aðrir fara sjaldan (í fyrra fór ég í sumarfrí til Hvíta-Rússlands).

Ég vildi vera ein á ferð því ég hafði áður gert það og kann vel við frelsið sem felst í því að geta gert nákvæmlega það sem mér sýnist hverju sinni án þess að þurfa að taka tillit til óska annarra.

Undirbúningur: Við komuna til Dakar hafði ég ekkert í höndunum nema allra helsta ferðabúnað, flugmiðann til baka, vottorð um bólusetningu gegn gulu og nokkrum öðrum sjúkdómum, tvær ferðahandbækur og nafnalista frá hinum og þessum vinum þar sem ég gæti leitað gistingar eða aðstoðar ef á þyrfti að halda. Ég fann mér alltaf gistingu sama dag og ég kom á nýjar slóðir og var yfirleitt í nokkra daga á hverjum stað. Netkaffi voru hvarvetna þannig að það var auðvelt að vera í sambandi við umheiminn – fyrir utan það að rafmagnið var alltaf að fara af.

Vestur-Afríka

Afríka sunnan Sahara telst til fátækustu hluta heimsins. Mörg ríki á þessum slóðum hafa þurft að þola blóðugar borgarastyrjaldir um lengri eða skemmri tíma. Á hinn bóginn hafa önnur ríki búið við frið, lýðræði og batnandi lífsskilyrði. Mikill munur getur verið milli landa á menntun, heilbrigðiskerfi og innviðum þjóðskipulagsins. Til dæmis eru Ghanamenn sæmilega vel menntaðir en ólæsi er óvíða jafnmikið og í grannríkinu Búrkína Faso. Flestir íbúar Vestur-Afríku búa við bág kjör og draga fram lífið við frumstæðan landbúnað.

Senegal

Fólksfjöldi: 11,9 milljónir

Höfuðborg: Dakar

Opinber tunga: franska en margir mæla einnig á wolof

Trúarbrögð: múhameðstrú (94%)

Lífslíkur við fæðingu: 59,25 ár

Senegal er sagt með stöðugri ríkjum Vestur-Afríku. Valdarán hefur aldrei átt sér stað þar síðan ríkið hlaut sjálfstæði. Forsetakosningar í lok febrúar 2007 fóru fram án vandkvæða. Senegal liggur vestast allra ríkja á meginlandi Afríku og tónlistarlíf landsmanna er í miklum blóma (Youssou N'Dour er "Björk" þeirra Senegala). Ár hvert kemur hálf milljón ferðamanna til landsins. Strendur þess eru vinsælar, næturlífið í Dakar sömuleiðis og gamlar minjar um þrælaflutningana vestur um haf, einkum á eyjunni Gorée.

Malí

Fólksfjöldi: 11,7 milljónir

Höfuðborg: Bamako

Opinber tunga: franska en margir tala bambara

Trúarbrögð: múhameðstrú (90%)

Lífslíkur við fæðingu: 49 ár

Malí er landlukt ríki og þar er áttunda hæsta dánartíðni hvítvoðunga í heiminum (að meðaltali deyja 107,58 börn af hverjum þúsund. Samsvarandi tala á Íslandi er 3,29). Innan við 4% landsins er hæft til ræktunar; annað er óravíðátta Sahara-eyðimerkurinnar. Fleiri ferðamenn fara þó til Malí en annarra ríkja í Vestur-Afríku enda eru þar nokkrir staðir á heimsminjaskrá UNESCO, þar á meðal Dogon-héraðið, hin goðsagnakennda Timbúktú og moskan í Djenné, sú stærsta í heiminum sem gerð er úr leir. Ófriðlegt hefur verið í héruðum Túarega norður af Timbúktú en annars á ferðamönnum að vera óhætt að ferðast um Malí eins og þá lystir.

Höf.: eliza@elizareid.com