Eldgosaeyjar Hafdís Hanna Ægisdóttir líffræðingur situr á helluhrauni á Galáposaeyjum. Eyjarnar urðu allar til vegna eldgosa.
Eldgosaeyjar Hafdís Hanna Ægisdóttir líffræðingur situr á helluhrauni á Galáposaeyjum. Eyjarnar urðu allar til vegna eldgosa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hafdís Hanna Ægisdóttir líffræðingur hefur í vetur stundað rannsóknir á Galápagoseyjum. Lífríki þar er einstakt og greip hún tækifærið fegins hendi þegar henni bauðst að fara þangað. Egill Ólafsson ræddi við Hafdísi Hönnu.

Hafdís Hanna Ægisdóttir er líffræðingur frá Háskóla Íslands. Meistaraverkefnið hennar, sem hún vann við líffræðiskor HÍ undir handleiðslu Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, prófessors í grasafræði, var hluti af stærra samnorrænu verkefni sem leitaði svara við hvernig heimskautaplöntur svöruðu snöggum umhverfisbreytingum.

"Við vorum sex meistaranemar sem unnum að þessu verkefni; tveir frá Íslandi, tveir frá Kaupmannahöfn og tveir frá Osló. Gagnasöfnunin fól í sér ferðalög til spennandi staða á Grænlandi, Svalbarða sem og á Tröllaskaga og á norðanverðum Vestfjörðum. Vegna þessara samnorrænu tengsla fékk ég tækifæri til að vinna hluta af meistaverkefninu mínu við Kaupmannahafnarháskóla. Ég bjó í Kaupmannahöfn í tvo vetur og var það mjög skemmtilegur tími. Þar leiðbeindi mér dr. Marianne Philipp sem er dósent við Kaupmannahafnarháskóla. Ég útskrifaðst með MS-gráðu í júní 2003 og flutti tveimur vikum síðar til Basel í Sviss til að hefja doktorsnám í vistfræði alpaplantna. Síðastliðin þrjú sumur hef ég því fengið tækifæri til að ferðast um svissnesku Alpana þvera og endilanga.

Rannsakar æxlunarkerfi plantna

Alla tíð síðan ég bjó í Kaupmannahöfn hef ég haldið góðu sambandi við fólkið sem ég vann með þegar ég stundaði þar nám. Á síðasta ári hafði Marianne Philipp samband við mig og bauð mér að taka þátt í fimm vikna vísindaleiðangri til Galápagoseyja núna í febrúar og mars. Ég gerði mér strax grein fyrir því að þetta væri alveg einstakt tækifæri og tók boðinu.

Þessi vísindaleiðangur var hluti af mjög svo metnaðarfullum dönskum leiðangri sem farið hefur um öll heimsins höf síðustu átta mánuði. Leiðangurinn kallast Galathea 3 (www.galathea3.dk) og skipið sem notað var til að flytja vísindamenn, fjölmiðlamenn og stúdenta á milli landa og heimsálfa var gamla varðskipið Vædderen sem er Íslendingum að góðu kunnugt eftir að það kom með handritin til Íslands árið 1971.

Leiðangurinn sem ég tók þátt í til Galápagoseyja er eitt margra verkefna innan Galathea 3-verkefnisins.

Hann var það sem kallast staðbundið verkefni, þ.e.a.s. við stunduðum allar okkar rannsóknir á eyjunum en sigldum ekki með skipinu á milli landa eins og sumir vísindamenn gerðu."

Hafdís Hanna var spurð hvað hún væri aðallega að rannsaka á Galápagoseyjum.

"Á Galápagoseyjum rannsökuðum við þróun æxlunarkerfa hjá plöntum sem dreifst hafa þangað frá meginlandi S-Ameríku, t.a.m. Ekvador eða Perú. Vegna einangrunar sinnar frá meginlandi Suður-Ameríku – en þær eru um 1000 km frá strönd Ekvador – og landfræðilegrar legu eru Galápagoseyjar einkar vel til þess fallnar að skoða þróun lífvera. Á fáum stöðum í heiminum má jafnglöggt sjá hvernig lífverur hafa aðlagast ólíkum aðstæðum.

Það var einmitt á Galápagoseyjum sem Charles Darwin fékk innblásturinn að hugmyndum sínum um þróun lífvera sem síðar urðu að þróunarkenningunni. Má í þessu samhengi nefna finkur Darwins sem oft eru teknar sem dæmi í líffræðikennslu. Finkur á eyjunum skiptast í nokkrar tegundir sem aðlagast hafa ólíku fæðuvali. Tegundirnar sem þekkja má í sundur af mismunandi löguðu nefi eru taldar eiga sér sameiginlegan forföður.

Eyjarnar eru helst þekktar fyrir sérstætt dýralíf; risaskjaldbökur, fornaldarlegar eðlur og fugla. Flóran á eyjunum er ekkert síður merkileg þótt hún sé minna þekkt og er hún mjög áhugaverð m.t.t. þróunar- og vistfræðirannsókna.

Tilgangur verkefnisins var að kanna hvort sjálfsófrjósamar plöntutegundir – þ.e. plöntur sem ekki geta frjóvgað sig sjálfar – sem dreifst hafa frá meginlandi Suður-Ameríku til Galápagoseyja hafi þróast í þá átt að geta frjóvgað sig sjálfar. Það er kostur fyrir plöntu sem nemur land á fjarlægri eyju að geta frjóvgað sjálfa sig þar sem aðrir einstaklingar sömu plöntutegundar eru alla jafna fáir eða engir fyrst í stað. Þetta er ástæða þess að margar plöntutegundir sem numið hafa land á einangruðum eyjum hafa þróað með sér þann hæfileika að geta frjóvgað sig sjálfar. Æxlunarkerfi þessara plantna er því oft öðruvísi en hjá plöntum sömu tegundar sem vaxa í stærri stofnum á meginútbreiðslusvæði plöntutegundarinnar (t.a.m. í tilfelli Galápagoseyja – á meginlandi S-Ameríku). Niðurstöður rannsókna okkar munu vonandi geta varpað ljósi á þróun æxlunarkerfa hjá plöntum en rannsóknir á æxlunarkerfum plantna eru mjög nærtæk aðferð til að rannsaka og skilja þróun þeirra á einangruðum stöðum."

Reyna að verja þetta einstaka vistkerfi

Hafdís Hanna var spurð hvort það væru ekki forréttindi að rannsaka lífríki á þessum einstaka stað.

"Jú, ég held að Galápagoseyjar hljóti að vera draumastaður flestra náttúrufræðinga. Eins og ég sagði áðan var það þar sem Darwin fékk innblásturinn að hugmyndinni um náttúruval, þ.e.a.s. að sá hæfasti lifi af. Þessar hugmyndir urðu síðar grundvöllur þróunarkenningarinnar sem kom fyrir almenningssjónir í tímamótariti hans "Uppruna tegundanna" árið 1859. Þegar mér var boðið að taka þátt í þessum leiðangri vissi ég að ég gæti ekki látið mér þetta tækifæri úr greipum ganga. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á eyjum, lífríki þeirra, vistfræði og þróun einangraðra tegunda.

Sem vísindamaður hafði ég tækifæri á að kynnast lífríki þeirra mun betur í gegnum rannsóknirnar auk þess að fá leyfi til að fara inn á svæði sem lokuð eru ferðamönnum."

Hvernig er staða mála á eyjunum? Stafar umhverfinu engin hætta af ferðamönnum eða öðru utanaðkomandi áreiti?

"Staða umhverfismála á eyjunum er að mörgu leyti góð en þó fara eyjarnar ekki varhluta af þeim vandamálum sem hrjá aðra staði í heiminum. Það má í raun segja að umhverfisvandamál þar séu eins og smækkuð mynd af hnattrænum umhverfisvandamálum. Innfluttum dýra- og plöntutegundum fjölgar, mengunarslys hafa orðið og El Niño-veðurfyrirbrigðið, sem hefur mikil áhrif á lífríki hafsins við eyjarnar, er

talið hafa eflst vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Allt eru þetta vandamál sem raskað hafa jafnvæginu í lífríkinu og ekki er ljóst hverjar endanlegar afleiðingar þeirra verða.

Galápagoseyjar tilheyra Ekvador og hafa verið þjóðgarður frá árinu 1959. Langstærstur hluti eyjanna eða 97 % tilheyra þjóðgarðinum. Ferðamönnum hefur fjölgað mjög á síðustu árum og áratugum og nú koma yfir 100.000 gestir þangað árlega. Þessari miklu aukningu ferðamanna hefur fylgt straumur fólks frá Ekvador sem flust hefur til eyjanna í von um betra líf við að þjónusta ferðamennina. Fólksfjöldi á eyjunum hefur því tífaldast á síðustu 30 árum.

Þrátt fyrir að starfsfólk þjóðgarðsins reyni eftir fremsta megni að fylgjast með að engar framandi dýra- og plöntutegundir komi til eyjanna er nær vonlaust að skoða alla gáma, farangur o.s.frv. Framandi lífríki hefur því stundum komist framhjá þjóðgarðsvörðunum og gert nokkurn usla á sumum svæðum. Sums staðar hafa framandi plöntutegundir kæft náttúrulegan gróður og framandi dýr grafið undan lífsviðurværi þeirra dýra sem fyrir eru á eyjunum. Auknum fólksfjölda fylgir náttúrlega aukin vatnsnotkun, eldsneytisnotkun og úrgangur sem erfitt er að takmarka.

Þeir ferðamenn sem fara til Galápagoseyja eru langflestir náttúruskoðendur sem gera sér grein fyrir því hve lífríki eyjanna er viðkvæmt. Einnig er aðgengi ferðamanna takmarkað að mörgu leyti. Ferðamenn mega ekki heimsækja allar eyjarnar og á sumum þeirra mega þeir bara fara í land á einum stað og þá aðeins með leiðsögumönnum þjóðgarðsins. Þetta fyrirkomulag tryggir að rask ferðamanna verður eins lítið og mögulegt er. Því má einnig bæta við að fólk sem fær sérstakt leyfi til að fara inn á svæði sem annars eru lokuð (s.s. vísindamenn, kvikmyndagerðarmenn o.s.frv.) fara í gegnum mjög strangt ferli áður en þeim er hleypt í land. Allur farangur, þó sérstaklega föt og skór, er grandskoðaður til að tryggja að engin fræ eða dýr slæðist með.

Þjóðgarðsstarfsmenn sem og starfsmenn rannsóknarmiðstöðvar eyjanna, sem kennd er við Charles Darwin, hafa einnig unnið mjög gott starf við að útrýma framandi dýra- og plöntutegunum sem fluttar hafa verið viljandi eða óviljandi til eyjanna síðustu áratugi og aldir. Stærsta vandamál síðustu ára hafa verið geitur sem sjómenn slepptu í land í nokkrar eyjar á 19. öld. Geiturnar áttu sér enga náttúrulega óvini og fjölguðu sér úr hófi fram. Ofbeit af þeirra völdum ógnaði m.a. lífsviðurværi risaskjaldbakna sem einnig eru grasbítar. Á síðustu árum hefur tekist að útrýma geitum af mörgum eyjanna."

Hvað tekur við hjá þér þegar þessu verkefni er lokið?

"Nú tekur við hjá mér að klára doktorsritgerðina mína sem ég stefni á að skila hér í Basel snemmsumars. Ég þarf því að snúa mér frá hitabeltisplöntum í bili og hugsa um vistfræði alpaplantna."

"Einmana Georg"

Galápagoseyjar hafa ekki varið varhluta af útrýmingu tegunda. Fyrr á öldum var afar vinsælt af sjómönnum að taka mér sér skjaldbökur um borð í skip sín enda töldust þær herramannsmatur og kjötið hélst lengi ferskt á langri siglingu. Þetta olli því að sumar skjaldbökuundirtegundir dóu út. Eitt frægasta dæmið er risaskjaldbakan "Einmana Georg" (Lonesome George) sem fannst á eyjunni Pintu (Isla Pinta) í Galápagoseyjaklasanum árið 1972. Talið hafði verið að öllum risaskjaldbökum hefði verið útrýmt af eyjunni en þetta eina karldýr vakti von um að hægt yrði að bjarga þessari undirtegund. Þrátt fyrir mikla leit hefur ekki fundist kvendýr af sömu undirtegund til að makast við Georg og því kallast hann "Einmana Georg". Það eru því allar líkur á því að "Einmana Georg" sé eina eftirlifandi risaskjaldbakan af þeirri undirtegund sem lifði á eyjunni Pintu og að með honum deyi hún út.
Höf.: Egill Ólafsson