[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í þessum næstsíðasta hluta frásagnar Elizu Reid af tveggja mánaða ferðalagi um Vestur-Afríku segir frá dvöl hennar í Tógó og Benín – og óvæntum kynnum af hinum nýja vúdúleiðtoga heimamanna.

Klukkan eitt um nótt, eða um 18 tímum á eftir áætlun, renndi rútan frá Ouagadougou í Búrkína Faso í hlað á umferðarmiðstöðinni í Lomé, höfuðborg Tógó. Við farþegarnir vorum heilir á húfi þrátt fyrir þref við málaliða á leiðinni og hrikalega krappar beygjur víða á veginum svo ekki sé minnst á vansvefta bílstjóra sem var hvíldinni afar feginn á áfangastað.

Ég gekk út úr rútunni, slæpt og þreytt, og í sama vetfangi þyrptust leigubílstjórarnir um mig; þeir voru ekki lengi að koma auga á eina Vesturlandabúann í hópnum. Ég samdi um fargjald við mjósleginn náunga sem bauð af sér góðan þokka og fylgdi honum að bílnum hans. Sá reyndist alveg ómerktur. Annar maður, "vinur" bílstjórans, smeygði sér svo líka inn með okkur – "til öryggis", var mér sagt. Ég sýndi þeim spjald af hótelinu sem ég ætlaði að gista á. Þeir sögðu mér að þangað væri um fimmtán kílómetra leið, út fyrir bæinn.

Viðvörunarbjöllur tóku nú að klingja í kollinum á mér. Þótt þessir kumpánar væru enn vinalegir að sjá var ég í þann mund að brjóta allar öryggisreglur sem ég hafði sett mér. En ég var þreytt og í fljótu bragði sá ég ekki hvaða kosta annarra ég átti völ þarna um miðja nóttina.

Ég greip því til minnar sérstöku "varaáætlunar fyrir viðsjárverðar aðstæður": að tala og tala. Ég spurði félagana um fjölskylduhagi þeirra og skáldaði á staðnum sögu af því að ég þekkti hótelstjórann og vildi komast sem fyrst á leiðarenda því hann hefði ætlað að bíða mín og væri örugglega orðinn áhyggjufullur fyrst rútan hefði verið svona sein fyrir.

Rétt utan borgarmarkanna bar það til að lögregluþjónn skipaði bílstjóranum að nema staðar. Ég var beðin að sýna vegabréfið mitt og ég notaði tækifærið til að fullvissa mig um að við værum á réttri leið að hótelinu mínu. Lögregluþjónninn var afar blíður í viðmóti og staðfesti að það væri aðeins nokkra kílómetra í burtu. Mér létti mjög og hafði ekki eins mikinn vara á mér. Laust fyrir klukkan tvö komum við svo að Hotel Alizé. En ekki var sopið kálið þótt í ausuna væri komið; bílstjórinn minn lenti strax í miklu stappi við næturvörðinn. Þeir þrefuðu á fon, einu tungumála heimamanna, og að því kom að bílstjórinn þýddi fyrir mig á frönsku í hverju vandinn lægi: "Vörðurinn segir mér að hótelstjórinn sé í fastasvefni. Ég er að reyna að segja honum að hann verði að vekja hann og segja honum að þú sért komin og ekkert ami að þér."

Sagan mín hafði greinilega verið tekin trúanleg. Í fyrsta sinn á ævinni borgaði ég meira en umsamið verð fyrir leigubíl og lagðist í uppbúið rúm, hvíldinni fegin.

Stefnumót við æðstaprest

Ég kom að morgni til Ouidah í Benín, eftir tvo hvíldardaga í Tógó. Pálmatré skreyta sendnar strendur borgarinnar en þar eru einnig mörg minnismerki um þá sem týndu lífinu í þrælaflutningunum miklu þegar milljónir Afríkumanna voru fluttar nauðugar til nýlendna Vesturlandabúa í Karíbahafi og á meginlandi Ameríku. Ouidah var ein margra þrælahafna á strönd Vestur-Afríku og þeir, sem var siglt með þaðan, lentu flestir í ánauð í Brasilíu og eyjum Karíbahafs, einkum á Haítí.

En Ouidah er einnig þekkt út af þeim átrúnaði sem íbúar þaðan tóku með sér til nýja heimsins – vúdú. Um helmingur Benínbúa játar vúdútrú og margir þeirra, sem kalla sig kaþólska eða múslima, blanda vúdúsiðum við þá trú sína.

Vúdútrúin er víða sýnileg. Skurðgoð standa á götuhornum og skipa heiðurssess á heimilum. Í heilögum skógi má finna styttur hinna ýmsu guða og sérstaka athygli vekur þar hornótt fyrirbæri með gríðarlegan getnaðarlim sem stendur fyrir styrk og frjósemi. Gestir á þessum slóðum halda líka gjarnan að slöngumusterinu sem var reist þeim helgu skepnum til lofsemdar og þar er hægt að láta mynda sig með lifandi kyrkislöngu – að vísu meinlausa – um háls sér.

Þar fyrir utan komst ég senn að því að von væri á vúdúhöfðingja í bæinn. Þegar ég var búin að skrá mig á Hotel Oasis í miðbænum, ein gesta, greip ég nokkrar föggur mínar og hugðist fá mér hádegissnarl einhvers staðar í nágrenninu. Dálítill hópur fólks var á gangi við veitingastað hótelsins, sæmilega uppáklæddur sýndist mér. " Içi, madame! " var kallað til mín. Þessa leið! Þau bentu í átt að matsalnum þar sem eitthvert einkasamkvæmi var greinilega í gangi.

Ég tvísté en gekk svo nær innganginum. Þar stóðu tveir fílefldir lögreglumenn, vopnaðir í þokkabót. Þarna var engin venjuleg uppákoma hins vegar. " Oui, madame, c'est içi ," sagði annar þeirra og benti mér að ganga inn um dyrnar.

Og þannig gekk það nú til að ég gerðist boðflenna í hátíðarhádegisverðinum sem útvöldum gestum hafði verið boðið í til að fagna krýningu ellefta æðstaprests vúdúista, Daagbo (hans hátignar) Tomadjlehoukpon II Metogbokandji.

Boðsgestirnir buðu mig velkomna og ég settist við langborð þar sem ég gæddi mér á hefðbundnum þríréttuðum málsverði og bjór með. Einn sessunauta minna, verkfræðingurinn Rodrigue, bauðst til að fara með mér daginn eftir til æðstaprestsins sjálfs (hann var ekki viðstaddur hátíðarverðinn því honum var óheimilt að yfirgefa húsakynni sín í tiltekinn tíma eftir hina nýju upphefð).

Kvöldið eftir sótti Rodrigue mig á þeim tíma sem við höfðum sammælst um og við gengum um fimm mínútna leið að heimili æðstaprestsins. Hátíðahöld voru þegar hafin, með söng, dansi og gleði. Nokkur hundruð manns voru á staðnum og fylgdust með hópi karla og kvenna, klæddum í strápils með gulmáluð andlit, bringu og brjóst. Þau dönsuðu í hringi við taktfastan trumbuslátt.

Öðru hvoru sýndist mér einhverjum í hópi áhorfenda liggja við yfirliði. Nærstaddir gestir létu þá til sín taka, studdu við hinn magnlausa og ýttu inn í hringinn. Rodrigue sagði mér að andi hefði tekið sér bólfestu í þessu fólki sem þýddi að það yrði síðan tekið í heilagra manna tölu. Þeir sem höfðu þegar náð þeim áfanga skáru sig úr því þeir báru kúabjöllur um hálsinn auk fjölmargra hálsmena úr kuðungsskeljum. Þau minntu mig einna helst á skotbeltin sem hetjurnar bera í hasarmyndum.

Hátignin sjálf var í sérstöku herbergi og sat þar í mikilfenglegum valdastól. Hann var ósköp venjulegur að sjá, meðalmaður á hæð, líklega á fimmtugsaldri og klæddur í fábrotinn kaftan . Til beggja hliða voru aðdáendur hans og á litlu borði fyrir framan stóð tóm viskíflaska. Grálitur átrúnaðargripur, sem líktist skál á hvolfi, var einnig á borðinu. Rodrigue kynnti mig sem "ævintýrakonu" sem ætlaði að skrifa um ferðalag sitt til Afríku. Þar sem ég er það kjarklaus að ég þori ekki að hjóla á reiðhjóli fannst mér þessi lýsing á mér nú frekar kaldhæðin.

Hans hátign bauð mér til samræðna í einkastofu sinni. Okkur var fylgt að minna herbergi með blámáluðum veggjum, plastdúk á gólfi og rafmagnsviftu í einu horninu. Þar beið hans líka annað hásæti, eftirlíking af "Lazyboy"-hægindastólunum.

Ég bar fram nokkur þakkarorð um þann heiður sem mér væri sýndur og var það allt í þeim anda sem Rodrigue hafði ráðlagt mér að nota í viðurvist hins höfðinglega æðstaprests. "Ég er mjög lánsöm," sagði ég að lokum.

"Já, það er satt," svaraði hann að bragði, og sló mig aðeins út af laginu. Næstu tíu mínúturnar ræddum við saman um Benín og hvernig mér fyndist að ferðast um landið. Að síðustu kom hann mér á óvart með því að biðja um netfangið mitt svo við gætum skrifast aðeins á. Vúdúkóngurinn var bara eins og ég og þú.

Ástir og áritanir

Cotonou er höfuðstaður Benín í öllu nema orði kveðnu. Borgin er lýsandi dæmi um þann mikla vöxt sem hefur hlaupið í þéttbýlisstaði á þessum slóðum síðustu áratugi og öll þau vandamál sem því fylgja. Um milljón manns býr í Cotonou (sjö milljónir í öllu Benín) og mengunin og ruslið á götum úti er eftir því. Atvinnuleysi er einnig mikið.

Ljóst var að ég þurfti að vera að minnsta kosti daglangt í borginni því ég þurfti að sækja um vegabréfsáritun til Gana og hana var ekki hægt að fá við landamærin, ólíkt því sem ég hafði vanist hingað til.

Ekki verður umflúið að afla dvalarleyfa tímanlega á ferðalagi eins og þessu. Við sum landamæri fást þau ekki sjálfkrafa og það getur bæði verið dýrt og erfitt að kaupa þau fyrirfram, einkum ef maður er ekki viss um komu- og brottfarardaga. Á hinn bóginn verða oft til skemmtilegar sögur af öllu veseninu við að ná í þennan verðmæta stimpil í vegabréfið. Auk þess þarf maður gjarnan að fara í borgarhluta sem eru utan vinsælla ferðamannasvæða og reynir á tungulipurð sína gagnvart harðsnúnum embættismönnum. Ég klæðist alltaf mínum hreinustu fötum þegar ég þarf að halda í sendiráð í þessum erindagjörðum.

Morgun einn fór ég á skellinöðru, eða zemidjan eins og heimamenn kalla þá fararskjóta, að sendiráði Gana í Cotonou.

Þar varð kona fyrir svörum, ströng á svip, og sagði að ég gæti ekki fengið dvalarleyfi nema ég færði sönnur á að ég ætti gistingu vísa í landinu; það dugði skammt að benda á þá kosti sem voru í boði í ferðahandbókinni minni snjáðu.

Ég þurfti því að leita uppi almenningssíma í hverfinu, hringja til Gana og bóka gistingu á meðaldýru hóteli þar sem hægt væri að senda símbréf til sendiráðsins því til staðfestingar.

Þegar ég sneri til baka var konan í óðaönn að álasa kínverskri ferðakonu fyrir að hafa ekki límt ljósmyndir nægilega vel með umsókninni sinni um áritun. Hún gjóaði augunum gremjulega til mín þegar ég færði mig nær með mína umsókn og fullvissaði hana um að á hverri stundu bærist fax með upplýsingum um bókunina mína í Gana.

"Ísland!" hrópaði hún hálfpartinn upp yfir sig þegar hún rak augun í heimilisfang mitt á eyðublaðinu. "En það hlýtur að vera svo kalt þar! Hvernig í ósköpunum geturðu þolað það?"

"Allt fyrir ástina," svaraði ég og reiddi mig á að þessi valkyrja ætti sér mýkri hliðar. Og viti menn, hjarta hennar bráðnaði á svipstundu. ""Allt fyrir ástina" – það líkar mér," sagði hún og brosti blíðlega til mín. Sigurinn var í höfn; ég vissi að vegabréfsáritunin yrði tilbúin þegar til var ætlast.

Veggir – málaðir og blóði storknir

Um 120 kílómetra norður af Cotonou er Abomey, höfuðstaður hins forna konungdæmis Dahomey eins og Benín var áður kallað. Þar sátu hinir afar óvægnu konungar Dahomey (að sögn afkomendur pardusdýrs og prinsessusonar) uns Frakkar brutu landið undir sig seint á nítjándu öld. Kastalaveggir Abomey voru skreyttir höfuðkúpum óvina ríkisins, öðrum til varnaðar. Sjálfir voru veggirnir meðal annars gerðir úr storknu blóði þeirra hina sömu óvina.

Konungshallirnar í Abomey eru nú á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Hver konungur lét byggja sér höll og af þeim tólf sem risu standa tvær enn þann dag í dag. Ferðalangar fá ekki að fara einir um þær og leiðsögumaðurinn minn, Pierette að nafni, lóðsaði mig um glaður í bragði. Hann sýndi mér grafhvelfingu Guézo konungs þar sem blóð fórnarlamba hans þekur enn veggi. Þar eru einnig vopn sem amasónurnar svokölluðu báru. Þær tilheyrðu her konungdæmisins og voru alræmdar að grimmd; og sneru þær ekki úr herför með nægilega marga fanga fórnuðu þær lífi sínu kónginum til dýrðar. Pierette naut þess líka að benda mér á hásæti Guézos; það hvílir á hauskúpum óvina hans. Þessari nöturlegu skoðunarferð lauk svo með heimsókn í musteri Ahossanna en þar eru grafir 41 eiginkonu Glélés konungs sem voru grafnar lifandi eftir dauða hans sjálfs.

Þegar ég var búin að fá minn skammt af hryllingi þann daginn fór ég á zemi eftir moldargötum að gistihúsinu Chez Monique í útjaðri borgarinnar. Þar hitti ég aðra gesti, hóp Svisslendinga og Bandaríkjamanna sem höfðu haldið til Abomey til að vinna við munaðarleysingjahæli sem þeir höfðu stutt frá því í ársbyrjun 2005. Þau spurðu hvort ég væri ekki til í að hjálpa við að mála veggi einn daginn með þeim.

Munaðarleysingjahælið Peuple du Monde (www.peupledumonde.org) er í þriggja hæða byggingu og hýsir 120 börn. Þrátt fyrir miklar endurbætur undanfarin ár er hvorki rafmagn né rennandi vatn í húsinu og ekki eru til nógu mörg moskítónet fyrir öll börnin. Þeir sem reka hælið giskuðu á að nærri þriðjungur þeirra væri sýktur af alnæmi. Bandaríkjamennirnir höfðu séð fyrir því að hægt yrði að ganga úr skugga um það en þótt niðurstaða fengist vantaði fjármagn til að greiða fyrir lyf og læknismeðferð.

Ég varði einum degi í að mála veggi útieldhússins og tveggja útikamra. Flugur sveimuðu um, hitinn var steikjandi og svitinn taumaði af mér svo stakk í augun. Svækjan hafði engin áhrif á krakkana sem sungu fyrir okkur í málningarvinnunni eða þau kipptu í höndina á mér og báðu mig um að taka mynd af sér. Ein svissnesku kvennanna fræddi táningsstelpurnar um heilsuhætti; engin þeirra vissi hvernig þær gætu orðið ófrískar eða hvernig hægt væri að koma í veg fyrir það.

Hinir brosmildu og fjörugu krakkar í Peuple du Monde veittu mér aukinn styrk til að halda til annars munaðarleysingjahælis sem ég hafði ákveðið að heimsækja áður en ég lagði upp í ferðalagið. Það er á vegum SPES, samtaka í Tógó sem Íslendingar stofnuðu og fjármagna að mestu leyti. Leiðin lá aftur til Lomé.

eliza@elizareid.com

Vestur-Afríka

Benín

Fólksfjöldi: 7,8 milljónir.

Höfuðborg: Porto Novo.

Opinbert tungumál: Franska en fon og youruba eru algeng í suðurhluta landsins.

Trúarbrögð: Vúdú (50%), kristni (30%), múhameðstrú (20%).

Lífslíkur við fæðingu: 53 ár.

Ung ferðakona sem ég sá í Senegal klæddist stuttermabol með áletruninni "Benín: Næsti bær við Nígeríu". Fjölmennasta ríkið í Afríku er vissulega oftar í alþjóðafréttum heldur en grannríkið mjóa í vestri. Á hinn bóginn er Benín, sem áður kallaðist Dahomey, eitt friðsælasta ríki álfunnar að mati BBC. Að vísu skapar nábýlið við risann í austri ýmis vandamál, ekki síst mansal barna, en ferðamenn geta notið fallegra sólarstranda auk fróðleiks um þrælaflutninga, vúdú og aðra siði.

Eliza Reid ferðaðist ein síns liðs um sjö lönd í Vestur-Afríku í október og nóvember á liðnu ári. Þetta er fjórði hluti ferðasögu hennar, en fimmti og síðasti hlutinn birtist næsta sunnudag. Slóðir á fyrri greinar eru: www.mbl.is/go/8hpsw www.mbl.is/go/y3ma6 www.mbl.is/go/ysap2
Höf.: Elizu Reid