Á æfingu "Hérna hjá Barcelona eru margir sterkir karakterar samankomnir í einu liði. Menn sem eru óhræddir að segja sína meiningu." Eiður Smári ásamt Brasilíumanninum Ronaldinho.
Á æfingu "Hérna hjá Barcelona eru margir sterkir karakterar samankomnir í einu liði. Menn sem eru óhræddir að segja sína meiningu." Eiður Smári ásamt Brasilíumanninum Ronaldinho. — AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Orra Pál Ormarsson orri@mbl.is Þarna eða þarna," segir leigubílstjórinn og bendir á tvö hús í götunni. Hann er ekki viss.

Eftir Orra Pál Ormarsson

orri@mbl.is

Þarna eða þarna," segir leigubílstjórinn og bendir á tvö hús í götunni. Hann er ekki viss. Ég er staddur í friðsælu úthverfi Barcelona, á leið til fundar við Eið Smára Guðjohnsen, landsliðsfyrirliða í knattspyrnu. Þegar ég nálgast fyrra húsið heyri ég bjartar íslenskar barnsraddir og er því viss í minni sök þegar ég kný dyra. Í því heyri ég sáran grát að innan. Æ, æ. Eftir stundarkorn er dyrunum hrundið upp og eiginkona Eiðs Smára, Ragnhildur Sveinsdóttir, stendur í gættinni. Hún tekur glaðlega á móti mér en biður mig um leið að hafa sig afsakaða eitt augnablik enda er hún að huga að næstelsta syninum, Andra Lucasi, fimm ára, sem orðið hefur fyrir smávægilegu hnjaski. Hann hristir það þó fljótt af sér. Mikill er máttur mömmukossins.

Þegar Andri Lucas hleypur sem leið liggur inn í stofu veiti ég athygli númerinu á bakinu á fótboltatreyjunni hans, 7 – nema hvað. Aðspurð segir Ragnhildur að Andri sé ekki farinn að stunda knattspyrnu með skipulögðum hætti en áformin eru þó skýr. "Hann mun mæta á sína fyrstu æfingu hjá HK í sumar."

Ragnhildur kallar á bónda sinn sem kemur fljótt í leitirnar. Hann birtist að vísu úr annarri átt en við eigum von á en það er ekki ljóður á ráði knattspyrnumanns að koma áhorfendum í opna skjöldu. Eiður Smári heilsar mér innilega, afslappaður í gallabuxum og stuttermabol. Verðmætustu fætur Íslandssögunnar eru berir. "Ætli sé ekki best að við förum inn í eldhús," segir hann og Ragnhildur samsinnir því. "Jú, það er sennilega mest næði þar."

Brosað gegnum maukið

Við eldhúsborðið er yngsti sonurinn, Daníel Tristan, eins árs, að snæða miðdegisverð, ávaxtamauk. Ásjóna mín kemur ókunnugum börnum yfirleitt í uppnám en sá stutti brosir bara sínu blíðasta – gegnum maukið. Óttast greinilega ekki nokkurn mann. "Hann er hvergi banginn þessi," segir stoltur faðirinn og hlær. Kippir í kynið. Að málsverði loknum er kappanum smeygt ofan í hjólagrind og fer hann mikinn um húsið. Birtist alltaf annað veifið í eldhúsinu meðan við faðir hans sitjum að spjalli – skælbrosandi. Snerpan og yfirferðin gefa fögur fyrirheit um framtíðina.

Elsti sonurinn, Sveinn Aron, sem er á níunda ári, er ekki heima. Hann er á æfingu með drengjaliði Barcelona. "Þeir æfa mjög stíft og Sveinn er eiginlega strax orðinn hálfatvinnumaður. Kominn með sína eigin snyrtitösku og allt," segir Eiður Smári og brosir. "Annars verð ég að viðurkenna að mér þykir þetta fullmikið af því góða. Hann er bara átta ára."

Ragnhildur tekur í sama streng. "Þegar Sveinn byrjaði að æfa hjá Barcelona var hann settur í læknisskoðun og m.a. látinn hlaupa á hlaupabretti til að mæla styrk og úthald, alveg eins og Eiður Smári þurfti að gera. Hér líta menn knattspyrnu mjög alvarlegum augum."

Það er víst ábyggilegt. Sveinn Aron er bersýnilega í góðum höndum og ég stenst ekki mátið og spyr hvort íslenska þjóðin geti eftir allt saman átt von á því að sjá Guðjohnsen-feðga saman í landsliðinu. Eiður Smári kæfir þær væntingar í fæðingu. "Nei, svo lengi verð ég ekki í þessu."

Allt um hina ungu Guðjohnsen-bræður. Beinum nú sjónum að húsbóndanum sjálfum. Eiður Smári er fyrst spurður hvernig honum hafi líkað að hafa vistaskipti eftir átta ár í Englandi.

"Mjög vel. Það er draumur allra sem leggja stund á knattspyrnu að leika fyrir félag eins og Barcelona. Minn draumur er orðinn að veruleika. Fjölskyldan er líka farin að kunna vel við sig hérna. Barcelona er skemmtileg borg. Við vorum svo heppin að finna þetta hús fljótlega eftir að við komum og tókum það á leigu. Þetta er mjög rólegt og þægilegt hverfi. Algjör draumastaður til að vera á með börn. Þá spillir veðrið heldur ekki fyrir. Það var tuttugu stiga hiti dag eftir dag í janúar, sem mér skilst að vísu að sé frekar óvenjulegt."

– Hvernig hefur gengið að læra spænskuna?

"Mjög vel hjá mér. Ragga er ekki komin alveg jafn langt þar sem hún er minna innan um spænskumælandi fólk. Ég er stöðugt bablandi á æfingum og hef náð ágætum tökum á spænskunni. Ég á frekar auðvelt með að læra tungumál. Kannski vegna þess að ég þurfti strax sem barn að læra annað tungumál en mitt eigið."

– Hvað talarðu mörg tungumál?

"Ætli þau séu ekki fjögur. Ég tala spænsku núna, svo tala ég hollensku og ensku reiprennandi, auk íslensku. Þá skil ég talsvert í þýsku líka enda er hún skyld hollenskunni og svo lærði ég frönsku þegar ég var í skóla í Belgíu. Það er þó ofmælt að ég tali þessi tvö mál."

– Ég hef fylgst með þér og félögum þínum á tveimur æfingum og af þeim að dæma er stemningin í hópnum ágæt, ekki satt?

"Jú, jú. Hún er það. Það hefur samt sitt að segja að hérna hjá Barcelona eru margir sterkir karakterar samankomnir í einu liði. Menn sem eru óhræddir að segja sína meiningu. Við erum ekki sammála um alla hluti. Menn eru heldur ekki jafn félagslyndir að eðlisfari hér og Englendingarnir. Ekki eins miklir félagar. Ég held að það sé bara menningin. Hún er allt öðruvísi hér en í Englandi. Við leikmennirnir gerum samt ýmislegt saman, förum m.a. reglulega út að borða til að efla liðsandann, með og án maka. Þetta eru á heildina litið mjög fínir náungar enda þótt maður eigi meiri samleið með sumum en öðrum – eins og gengur. Ég hef náð einna bestu sambandi við Brasilíumennina. Það eru miklir ljúflingar sem gott er að umgangast. Það hjálpar mikið að vera kominn með vald á spænskunni. Barcelona er fjölþjóðlegt lið en við tölum eftir sem áður spænsku á æfingum. Það mun líklega seint breytast."

Hvergi meira álag á leikmönnum

– Er andrúmsloftið í búningsklefanum frábrugðið því sem þú áttir að venjast hjá Chelsea?

"Já, það er það. Þetta er samt ekki alveg sambærilegt. Undir lokin hjá Chelsea var ég í kjarnanum sem var búinn að vera lengi hjá félaginu og þekkti það út og inn. Hérna er ég ennþá nýi leikmaðurinn. Fyrir vikið er staða mín önnur."

– Eftir að þið duttuð út úr Meistaradeildinni gagnrýndir þú félaga þína á blaðamannafundi. Sagðir að þeir þyrftu að leggja meira á sig.

"Já, ég gerði það. Það sem ég átti við var að menn þyrftu ekki endilega að leggja meira á sig hver og einn, heldur leggja meira á sig hver fyrir annan. Vinna betur saman sem lið. Þá gætum við verið á hærra plani. Það var kjarni málsins. Þetta vakti athygli og komst til skila enda þótt sum blöð hafi beygt fyrirsögnina aðeins."

– Hvernig tóku liðsfélagarnir þessu?

"Misjafnlega. Sumir voru sammála þessu en aðrir ekki og menn sögðu sína meiningu, rétt eins og ég hafði gert. Það hafa allir rétt á sinni skoðun og málefnalegar umræður gera engum mein. Svona lagað hefur hins vegar engin áhrif á móralinn á æfingasvæðinu, við hlæjum og göntumst saman eftir sem áður. Þannig á það að vera. Mér fannst ég bara þurfa að segja þetta á þessum tímapunkti. Nú er þetta liðin tíð og við höldum áfram."

– En hvernig voru viðbrögðin utan hópsins?

"Mjög góð. Ég hef fengið mjög góð viðbrögð við þessu hjá fólki í kringum mig og fólki úti á götu. Þetta var fyrsti blaðamannafundurinn sem ég held á spænsku og það mæltist líka vel fyrir. Ég hefði svo sem getað gert það fyrir löngu en dró það þar sem mér þykir þægilegra að tala enskuna. Héðan í frá mun ég bara tala spænsku við blaðamenn hérna."

– Hvernig skynjarðu umhverfið? Það fer ekki framhjá nokkrum manni að stuðningsmenn Barcelona eru kröfuharðir?

"Heldur betur. Væntingar til liðsins og álag á leikmönnum er líklega hvergi meira í heiminum. Ég hef aldrei upplifað eins mikla utanaðkomandi pressu. Það er ekki bara glæsileg saga félagsins sem gerir þetta að verkum, heldur líka katalónska stoltið. Gengi liðsins er samofið sjálfstæðisbaráttu fólksins og er því hvatning í hinu daglega amstri. Í Katalóníu snýst allt um Barcelona-liðið. Það er vissulega mikið fjallað um stóru liðin í Englandi – og þar er líka gula pressan – en það er á allt öðrum nótum. Hér eru tvö til þrjú blöð sem skrifa ekki um neitt annað en Barcelona-liðið. Hvernig æfingarnar eru, hverjir eigi að spila leikina osfrv. Daginn út og inn eru blöðin að kryfja ástandið."

– Er þetta yfirþyrmandi?

"Það getur verið það. Maður má samt ekki láta þetta hafa áhrif á sig. Þá sekkur maður fljótt í djúpið. Ég hef því reynt að brynja mig fyrir þessu áreiti. Það er líka bara ein leið til að svara þessu – inni á vellinum."

– Talandi um það. Ljóst er að þú réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þegar þú gekkst til liðs við Barcelona, rútínerað lið, sem var rétt búið að landa Evrópubikarnum. Samt fékkstu fljótlega að spreyta þig. Hefurðu spilað meira eða minna en þú áttir von á?

"Það er ekki gott að segja. Mér var hent út í djúpu laugina í haust þegar Samuel Eto'o meiddist og gekk ágætlega. Síðan hefur tækifærunum fækkað og í raun má segja að á þeim stutta tíma sem ég hef verið hérna hafi ég fengið að kynnast öllum hliðum á því að leika fyrir Barcelona. Ég hef verið inn og út úr liðinu og bæði fengið hrós og skammir. Raunar er ekkert þarna á milli – hjá Barcelona er maður annaðhvort hetja eða skúrkur."

– Ertu sáttur við þinn hlut í vetur?

"Já, ég er það. Auðvitað vill maður alltaf meira og ég veit að ég get betur. En þetta er fyrsta árið mitt hérna og ég hef gengið í gegnum miklar breytingar. Miðað við það er ég þokkalega sáttur."

– Enda þótt staða ykkar sé prýðileg í spænsku deildinni félluð þið úr keppni í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og þykið ekki hafa leikið eins vel og á síðustu leiktíð. Er erfitt að vera nýr í hópnum við þessi skilyrði?

"Já, það er það. Ég er eini nýi leikmaðurinn í liðinu og þegar menn fara að velta fyrir sér hvað hafi farið úrskeiðis í vetur er auðvelt að benda á nýja leikmanninn. Ég fann svolítið fyrir þessu á tímabili. Eftir því sem liðið hefur á veturinn hefur hins vegar komið í ljós að liðið sem heild leikur ekki eins vel og það getur. Þá hafa menn vonandi áttað sig á því að þetta er ekki bara ég. Liðið er einfaldlega í svolítilli lægð."

– Er þetta kannski ennþá erfiðara þar sem þú ert framherji?

"Klárlega. Hér er fólk vant því að sitja uppi í stúku og horfa á bestu knattspyrnumenn heims og ef þú ert framherji þá áttu að skora þrjátíu mörk á tímabili. Fólk sættir sig ekki við annað."

Sker sig úr hópnum

– Það hafa ekki margir Norðurlandabúar gert garðinn frægan hjá Barcelona. Getur verið að Katalónarnir séu tregari að taka þig í sátt vegna þess að þú ert Íslendingur? Manni skilst að þeir séu ekkert alltof hrifnir af öðrum Spánverjum, hvað þá Norður-Evrópubúum.

"Það má vel vera að það spili inn í þetta líka. Flestir leikmenn liðsins eru dökkhærðir, litlir og nettir og það eru örugglega viðbrigði fyrir fólk að horfa á ljóshærðan mann upp á tæpa 190 sentímetra hlaupandi um völlinn. Henrik Larsson var auðvitað hérna á undan mér en hann er ekki þessi "dæmigerði" Svíi."

– Myndirðu segja að Katalónar væru fordómafullir?

"Nei, alls ekki. Ég held að þetta snúist fyrst og fremst um það hverju menn eru vanir. Ég hef ekki fundið fyrir fordómum hérna."

– Þú hefur svo til eingöngu spilað sem fremsti maður. Hefur aldrei komið til tals að færa þig aftar, jafnvel á miðjuna?

"Rijkaard veit að ég get spilað á miðjunni og ég þarf ekkert að minna hann á það. Þegar ég kom fórum við yfir málin og hann sá mig alltaf sem fremsta mann í þessu liði. Hvað sem síðar verður. Annars róterum við þrír fremstu menn mikið meðan á leikjum stendur. Þannig var ég t.d. í stöðunni hans Ronaldinhos þegar ég skoraði á móti Liverpool um daginn og hann fremstur. Annars er mér svo sem sama hvaða stöðu ég spila. Ég vil bara vera inni á vellinum."

– Ljónið á vegi þínum virðist vera Samuel Eto'o. Hann er vinsæll og markheppinn þegar hann er heill heilsu. Verður ekki erfitt að velta honum úr sessi?

"Að sjálfsögðu. Eto'o er frábær leikmaður, eins og svo margir í liðinu. Það vissi ég fyrir."

– Mikið hefur verið rætt um framtíð Eto'os í vetur. Er hann hugsanlega á förum ?

"Ég hef ekki hugmynd um það. Það er eitthvað sem hann einn veit. Ég hef þó á tilfinningunni að hann verði hér áfram."

Á vonandi mörg ár eftir

– Oft er sagt að bestu ár knattspyrnumanna séu frá 26 ára til þrítugs. Þá sameinist allt, kraftur, reynsla og kunnátta. Samkvæmt því ert þú á hátindinum, 28 ára gamall. Geturðu verið í fremstu röð í mörg ár til viðbótar?

"Vonandi. Annars veit ég það manna best að þessu gæti öllu verið lokið á morgun. Það þarf ekki nema eina tæklingu. En ef ég verð heppinn og sneiði hjá alvarlegum meiðslum gæti ég leikið í mörg ár í viðbót. Þetta er spurning um að hugsa vel um sig og æfa af kappi. Ég hef alltaf æft rosalega mikið, sérstaklega þegar ég er ekki að spila reglulega. Þá verð ég að æfa aukalega."

– Eru æfingarnar með svipuðu sniði hér og hjá Chelsea?

"Við æfum ekki eins mikið hérna. Ég veit ekki hvers vegna það er. Líklega er það bara menningin og veðrið. Tæknilega er þetta mjög svipað enda eru æfingar hjá liðum í hæsta gæðaflokki mjög áþekkar alls staðar í Evrópu."

– Samningurinn sem þú gerðir við Barcelona rennur út sumarið 2010. Sérðu fyrir þér á þessari stundu hvort þú verður hér allan þann tíma?

"Ég hef engin áform um annað."

– En eftir það?

"Það er ómögulegt að segja. Ef ég verð sáttur við stöðu mína hjá Barcelona þá kæmi örugglega til greina að vera áfram. Ég get bara ekki sagt til um það á þessari stundu."

– Ef þú færir frá Barcelona, yrðirðu áfram á Spáni eða færirðu annað?

"Eins og staðan er í dag gæti ég vel hugsað mér að vera áfram á Spáni. Ef ég færi héðan myndi ég fara til Englands. Ítalía hefur aldrei heillað mig. Reynslan hefur þó kennt mér að útiloka aldrei neitt í knattspyrnu."

– Faðir þinn lauk sínum ferli heima á Íslandi. Kemur þú til með að gera það líka?

"Það efa ég stórlega, a.m.k. eins og ég er stemmdur í dag. En eins og ég segi, maður útilokar aldrei neitt."