Við fjölskyldan leigðum okkur hús í Palm Springs á dögunum. Sá bær er kannski þekktastur fyrir að hafa verið leikvangur Hollywoodstjarnanna hér á árum áður.
Frá 1930 og fram til 1970 áttu margir frægir einstaklingar hús í Palm Springs: Elvis Presley, Bob Hope, Howard Huges, Lucille Ball og Greta Garbo, svo einhverjir séu nefndir.
Palm Springs er sannkölluð vin í eyðimörkinni því þegar þangað er ekið birtist bærinn allt í einu iðgrænn í annars eyðilegum sandinum – pálmatré og fallegir garðar hvert sem litið er.
Bærinn er um 110 mílur austur af Los Angeles, nánar tiltekið í Cochella-dalnum. Allt um kring standa fallegir fjallgarðar og hið tignarlega fjall San Jacinto trónir þar fremst meðal jafningja.
Í dag er Palm Springs hálfgerð sumarleyfisborg allt árið um kring enda veðurfarið með eindæmum gott.
Við áttum þarna frábæra daga í steikjandi hita og sólskini. Á þessum árstíma er hitinn reyndar óbærilegur yfir hádaginn en þá var fjölskyldan dugleg við að leggja sig, föndra og lesa í loftkældu húsinu.
Miðdóttirin, sem hefur að undanförnu notað áhersluforskeytið ,,hval" við öll möguleg tækifæri, lýsti veðurfarinu ágætlega: ,,Mamma, það er hvalheitt úti!"
Og þegar pabbi hennar gleymdi sér í sólinni sagði hún við hann: ,,Pabbi, þú ert orðinn hvalrauður!"
Hún varð líka ,,hvalreið" í ferðinni en það er nú önnur saga.
Á heimleiðinni urðum við fyrir því óhappi að það hvellsprakk hjá okkur. Dekkið bókstaflega tættist í sundur og voru því góð ráð dýr.
Úti fyrir 46 stiga hiti og við stödd á miðri hraðbraut. Ungbarnið varð æft af bræði og eldri dæturnar orðnar alveg ,,hvalpirraðar".
Við náðum að koma okkur út í vegkant í æðandi umferðinni og bóndinn og tengdapabbi stukku út til að skipta um dekk.
Bíllinn var að vonum drekkhlaðinn enda sjö manna fjölskylda á ferð og þegar skottið var opnað hrundi farangurinn niður. Bleyjupakki, töskur og barnavagn. Æ, þið kannist við þetta.
Epli nokkurt, sem af einhverjum ástæðum varðaði farangursstæðuna, rúllaði út á miðja akrein og minnstu munaði að afi yrði fyrir vöruflutningabíl.
Þegar hér var komið sögu starði tengdamamma í gaupnir sér skelfingu lostin.
Það gekk nú heldur brösuglega að skipta um dekk því varadekkið reyndist vera ,,aumingi" eins og tengdapabbi tók til orða og því ljóst að við yrðum að komast á verkstæði til að fá almennilegt dekk.
Ég hef alltaf haft karlmenn grunaða um að hafa lúmskt gaman af því að skipta um dekk og ákvað því að gera örstutta samanburðarrannsókn.
Ég spurði þá hvort væri nú skemmtilegra að skipta um dekk í 10 stiga frosti eða ríflega fjörutíu stiga hita og þeir svöruðu báðir að bragði heldur stuttaralega: ,,Betra í frosti."
Þeir feðgar bogruðu þarna við bílinn góða stund og það bogaði af þeim svitinn.
Til að svala þorstanum greip afi vatnsflösku aftan úr bílnum og tók sér vænan gúlsopa.
Hann var nú fljótur að spýta því út úr sér því það reyndist vera hinn dísæti líkjör Amaretto. Amaretto nota ég stundum í feiknagóðan eftirrétt sem ég laga þegar vel liggur á mér.
Við hröktumst áfram á ,,aumingjanum" á bílaverkstæði í nálægum smábæ.
Bærinn heitir Redlands og máttum við dúsa þar í einn og hálfan tíma meðan nýju dekki var komið undir kaggann. Redlands virtist vera hálfgerður draugabær, kannski sökum þess að það var miður dagur og flestir kannski innandyra vegna kæfandi hitans.
Við plöntuðum okkur niður á skyndibitastað því ekki var öðru til að dreifa og sátum þar heldur fýld.
Starfsstúlkan sem afgreiddi þar virtist ekki hafa séð nokkurn mann í fleiri daga og varð hálfhvumsa að vera búin að fá viðskiptavini. Það leið því töluverður tími frá því að við komum inn og þar til að hún kom og sinnti okkur.
Innan skamms sátu allir þegjandi og borðuðu hamborgara.
Rúmum klukkutíma síðar var bíllinn loks tilbúinn og við lögðum í hann að nýju.
Skapið var nú að skána í mannskapnum enda allir mettir og fegnir að vera lausir úr smábæjarprísundinni.
Af óvæntum drykkjuskap afa er það helst að segja að honum varð nú ekki meint af.
Hann mátti þó sitja undir því að vera kallaður Afi Amaretto það sem eftir lifði ferðarinnar sem og þola háðsglósur um það hvort runnið væri af honum.
Við bentum honum ennfremur á að meðferðarstofnun Betty Ford væri ekki langt undan ef hann vildi leita sér hjálpar við nýtilkominni drykkjusýki sinni.
Það kemur ekki annað til greina en að eftirrétturinn góði mun hér eftir heita ,,Afi Amaretto" og verður hægt að sækja uppskriftina á blogginu mínu innan tíðar.
Gleðilegt sumar!
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir