Eftir Ólaf Guðstein Kristjánsson
olafurgudsteinn@googlemail.com
Berlín yfir sumartímann á það til að verða ansi heit. Borgin er þó ríkulega búin öldurhúsum og öðrum stöðum þar sem kæla má sig niður með kaupum á svalameðölum. Þótt það sé góðra gjalda vert þá kann marga að langa til þess að skella sér í vatn og kæla sig þannig niður ...
Það verður að segjast eins og er að sundlaugar Berlínarborgar eru oft á tíðum ekkert til að hrópa húrra fyrir. Þar af leiðandi kann að virka hjákátlegt fyrir Íslending frá miklu og góðu sundlaugalandi að skella sér í berlínska laug. Við því er þó lausn. Lausnin felst í að fara á stað sem er einstakur eða þá að prófa eitt af strandböðum borgarinnar.
Stökkpallar og keppnislaug
Hvað það fyrra varðar á Sommerbad Olympiastadion eða Ólympíusundlaugin vel við. Sú ætti að þjóna þeim tvíþætta tilgangi að sjá eitthvað merkilegt sem og að kæla sig niður. Þessi sundlaug var auðvitað keppnislaug hinna frægu Ólympíuleika í Berlín 1936 og er staðsett við hliðina á Ólympíuleikvanginum sjálfum. Einkenni þessara bygginga er mikilfengleiki, enda átti allt að vera innblásið "Wagnerískum" anda í verðandi Germaníu Adolfs Hitlers. Þess utan er að finna þar stökkpalla eða dýfingarpalla (alveg upp í 10 metra) sem gaman er að stökkva af. Þess má svo einnig geta að hægt er að borga sig inn á Ólympíuleikvanginn til að berja hann augum.
Nokkur strandböð
Strandböð borgarinnar eru þó nokkur og finna má þau víðsvegar um borgina, enda er talið að meira vatn sé að finna í Berlín en í Feneyjum. Þekktasta strandbaðið er þó líkast til við Wannsee í hverfinu Steglitz-Zehlendorf (Strandbad Wannsee). Það strandbað fagnar 100 ára afmæli sínu í ár. Í Wannsee strandbaðinu er allt til alls að finna; strandblaksvelli, körfuboltavelli, bátaleigu og afgirta strönd fyrir Adamsklæðaunnendur.Hvort tveggja, strandbaðið og Ólympíulaugin er vel heimsóknarinnar virði og manni ætti alltént að auðnast að kæla sig þar niður.