Græn borg Túristar njóta lífsins í almenningsgörðum Boston sem eru sérlega friðsælir og er yndislegt að komast í sveitasælu í miðri stórborginni.
Græn borg Túristar njóta lífsins í almenningsgörðum Boston sem eru sérlega friðsælir og er yndislegt að komast í sveitasælu í miðri stórborginni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tré í borg vekja athygli manns í lendingu í Boston sem er óvenjulegt í stórborg. Skrítnara er þó að Sigurbjörg Arnarsdóttir og Þuríður Magnúsína Björnsdóttir hafi á vordögum þurft að sverja af sér huldukyn í líflegri og hlýlegri borginni.

Búa álfar virkilega á Íslandi?" spyr stórvaxin sölukona hjá Armani-snyrtivörudeildinni í Saks Fifth Avenue. "Ég var að horfa á heimildaþátt sem sagði frá furðulegum álfum í stórfenglegum klettum." Stór augun leita sönnunar hjá tveimur ferðafélögum frá Íslandi, sem myndu tæplega teljast til álfa en gætu alveg eins átt heima í WNBA-körfuboltadeildinni, um leið og hún fer fimum höndum um andlit annars þeirra. "Jú, amma mín sá einu sinni huldufólk," viðurkennir hinn ferðafélaginn í stríðnisskapi, segjandi aðeins hálfan sannleikann. Augu snyrtidömunnar verða enn stærri. Boston-búinn vill næst vita hvort frónskum bregði nokkuð við að sjá svartan hörundslit – sem er jafn álfaleg spurning og sú fyrri – og mótmælir þeirri áráttu fólks að vilja vera einhver annar en maður er (sem hún verður vitni að í starfi sínu): "Ég get ekki breytt mínum stóra svarta rassi!" Hláturinn glymur í snyrtisalnum. Hún harðneitar af þessum sökum að selja Íslendingum dekkri andlitsfarða en hvítasta tóninn í litaseríunni þegar við álpumst til að biðja um slíkt í tilefni sumarsins.

Já, Armani skal það vera í Bandaríkjunum, inn á milli alls hins, í landi úrvals og fjölbreytni. Nú þegar heim er komið þarf maður ekki annað en að líta á risastóran Extra-tyggjópakkann keyptan í 7Eleven á Tremont-götu til að komast aftur til Boston. Í Bandaríkjunum er allt stórt og margt umfram: maturinn, bílarnir, fólkið... m.a.s. orðin virðast of mörg: "How are you?/ Did you find everything?/All set?" Orðin skella á íslensku fólki sem er uppálagt að vera oftast þumbaralegt og verður munurinn líklegast hvað augljósastur á veitingastöðum; í bandarískri borg gleymist maður ekki úti í horni, frekar að maður fái "of mikla" þjónustu.

Rólega spennandi

Margir eru reyndar þeirrar skoðunar að öll þessi bandarísku orð séu innihaldslaust óþarfa mas (til hvers að kalla úr hótelmóttökunni í margra metra fjarlægð hvernig maður hafi það þegar augljóst er að innkaupapokarnir eru að sliga mann?!). Á hinn bóginn er það einkennandi fyrir Boston að lífið virðist rólegra en t.d. í nágrannaborginni New York þar sem allt kraumar af hraða. Boston hefur líka verið lýst sem "evrópskri" í anda og má segja að hún sameini kostina vestan hafs og austan. Þessi gamla hafnarborg sem var stofnuð árið 1630 er mikil menntaborg sem státar af hinum eina sanna Harvard-háskóla ásamt MIT-háskóla og iðar af lífi og sál: Græn svæði, frekar lágar heimilislegar byggingar ásamt fáum háhýsum viðskiptanna og fólk sem virðist í raun gefa sér tíma til að tjá öll þessi orð – og líka bíða eftir svari við spurningunum. Svo merkilega sem það hljómar má finna þennan hlýleika jafnvel í miðri verslunargötu, t.a.m. á hinu skemmtilega Newbury-stræti sem er eins konar samblanda af hinu notalega Striki í Kaupmannahöfn og spennandi Fimmta breiðstræti í New York.

Í stuttu máli sagt sló Boston algerlega í gegn hjá þeim ferðalangnum sem ekki hafði heimsótt borgina fyrr á meðan hinn endurnýjaði góð kynni af henni. Veðrið var indælt að mestu, glampandi sól og 25–30 stiga hiti, og ekki ónýtt að njóta geislanna á meðan maður skáskaut sér á milli á húsa; búða, kaffihúsa, veitingastaða, safna...

Einna eftirminnilegast er sérstætt safn konu sem fæddist á 19. öld en hún safnaði listaverkum af greinilegu ríkidæmi, raðaði þeim upp eins og henni þóknaðist á heimili sínu, sem í rauninni er lítil höll í kringum skrúðgarð, og opnaði það svo almenningi fyrir öld. Safnið nefndi hún Isabella Stewart Gardner Museum og er hrein skemmtun að heimsækja. Og ef þú ert ekki hrifinn af söfnum ættirðu samt að kíkja á þetta safn! Ostakökuverksmiðjan, The Cheesecake Factory, var heimsótt tvisvar því aðrar eins tertur er varla hægt að hugsa sér; þvílíkt lostæti. Nokkrum skrefum frá miðbænum gat maður svo horfið inn í fallega almenningsgarða meðfram Beacon-stræti, þar sem Cheers-bar samnefndra sjónvarpsþátta er til húsa. Möguleikarnir eru hreinlega endalausir til skemmtunar og afþreyingar.

Já, mann langar aftur til Boston, lands stórra hugmynda til "álfalegra" hluta.

Dollarinn er lágur...

Í LANDI óhófs er vel réttlætanlegt að versla í óhófi, enda ekkert óhóf í verðlaginu í Boston.

Út fórum við, tvær íslenskar konur, með þann útreikning í huga að við myndum græða rúmar tíu þúsund krónur í magninnkaupum á sjampóbrúsum í Aveda-búðinni, litlu minna en við borguðum í flugvallarskatta, fyrir utan að við komumst út á flugpunktum. Hmmm...

Nú kemur stræti eitt til sögunnar, Newbury Street, sem er verslunargata af bestu gerð. Þar blandast saman skemmtilegar sérverslanir, kaffihús, heimsþekktir tískuhönnuðir eru þarna með sérverslanir ásamt klassískum bandarískum merkjum eins og Gap og Banana Republic.

Þegar gengið er eftir götunni eru margar litlar búðir sem eru bæði í kjöllurum og uppi á fyrstu hæð húsanna þannig að maður þarf að vera vel vakandi til að missa ekki af einhverju spennandi.

www.harvard.edu www.gardnermuseum.org www.1154lill.com www.cambridgesidegalleria.com www.faneuilhallmarketplace.com www.wagamama.com www.thecheesecakefactory.com

Höf.: Sigurbjörg Arnarsdóttir, Þuríður Magnúsína Björnsdóttir