Heimsókn danskra hjóna til Skúfeyjar í Færeyjum varð þess valdandi að Elisabeth og Tummas Frank Joensen hófu ferðaþjónustu í húsi sínu, Á flötinni. Starfsemin fer vaxandi enda að aukast að ferðafólk sæki þessa friðsælu og að mörgu leyti dæmigerðu færeysku eyju heim. Helgi Bjarnason brá sér í heimsókn.
Skúfey er lítil eyja, vestan við Sandey. Þar eru þrjátíu íbúar og allir í þorpinu við höfnina, þar sem húsin standa þétt saman, eins og gjarnan er í Færeyjum.
Skildu eftir peninga
Dönsku hjónin sem heimsóttu Skúfey fyrir sjö árum ætluðu samdægurs til baka en voru ekki með brottfarartíma ferjunnar betur en svo á hreinu að þau misstu af ferðinni. Þau báðu Tummas um leyfi til að sofa í bátaskýli hans niður við sjóinn en þar sem það var ekki hægt bauð hann þeim gistingu í íbúðarhúsinu. Tummas segir að Dönunum hafi liðið svo vel að þeir hafi bætt annarri nótt við. Þegar hjónin síðan fóru var Tummas farinn til vinnu og þegar þau spurðu Elisabeth hvað gistingin og annar viðurgjörningur kostaði vildi hún enga greiðslu taka. Þau skildu þá eftir fjárhæð á borðinu sem Tummas og Elisabeth notuðu til að kaupa góða kaffivél sem enn stendur á eldhúsbekknum.Þetta varð til þess að þau fóru að bjóða ferðafólki þjónustu, meðal annars gistingu og veitingar. Miðstöðin er í stofunni í húsi þeirra, þar sem spjall við húsráðendur í notalegu umhverfi er stór hluti af upplifuninni.
Bæði hafa hjónin tengsl við Ísland og taka því sérstaklega vel á móti Íslendingum. Elisabeth er af íslenskum ættum. Afi hennar, Pétur Friðrik Mikkelsen, kom sex ára frá Fáskrúðsfirði til Suðureyjar. Tummas var aftur á móti sjómaður á Hópsnesi frá Grindavík í nokkur ár, fyrir rúmum þrjátíu árum og var einnig oft að veiðum á færeyskum bátum við Íslandsstrendur. Það kemur blik í augu hans þegar hann minnist Jens Óskarssonar skipstjóra og skipsfélaganna enda gekk vel hjá þeim.
Tummas hefur í mörg ár unnið á ferjunni sem siglir á milli Sandeyjar og Straumeyjar. Hann notar vaktafríin til að þjóna ferðafólkinu og sinna sveitarstjórnarmálum.
Áhugi á sögunni
Ferðafólki fjölgar í eyjunni á meðan íbúunum fækkar. Í Skúfey eru eftir um 30 íbúar, mest fullorðið fólk sem lifir af sjálfsþurftarbúskap samkvæmt færeyskri hefð. Tummas segir að um 6000 ferðamenn hafi sótt eyjuna heim á síðasta ári.Ferðafólkið hefur að hans sögn mesta ánægju af því að fylgjast með daglegu lífi og störfum fólksins í þorpinu. Einnig ganga margir út á fuglabjörgin á norður- og suðurhluta eyjarinnar. Tummas segir fólkið hafi einnig mikinn áhuga á sögunni og hann þurfi því að hafa Færeyingasögu á takteinum. Aðalsöguhetja hennar, Sigmundur Brestisson, sem kristnaði Færeyjar árið 1000 er talinn grafinn í kirkjugarðinum í Skúfey, þar er að minnsta kosti Sigmundarsteinn til minningar um hann. Sigmundur bjó í Skúfey en synti til Suðureyjar þegar Þrándur í Götu sótti að honum en var drepinn og síðan myrtur þegar hann komast á land í Suðurey, eins og sagt er frá í sögunni, vegna gullhringsins sem hann bar.