Tugendhat villan Eitt glæsilegasta hús módernismans, skapað af Mies van der Rohe.
Tugendhat villan Eitt glæsilegasta hús módernismans, skapað af Mies van der Rohe.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Umfang og saga Tugendhat-hússins verður að teljast eitt mesta drama nútímabyggingarlistasögu Mið-Evrópu. Hér fer samantekt á sögu helstu táknmyndar módernismans eftir meistara Mies.

Eftir Ingvar Jón Bates-Gíslason

igracekick@gmail.com

Ávallt er vafasamt að draga upp einfaldar útlínur hinna miklu umbrotatíma nútímabyggingarlistar Evrópu, sérílagi Þýskalands og þýska málsvæðinu sem var hinn eiginlegi stóri vígvöllur módernismans.

Á engan er samt hallað þó nafn Þjóðverjans Mies van der Rohe sé dregið fram sem eins áhrifaríkasta einstaka arkitekts tuttugustu aldarinnar. Ferill hans var óvenjuglæstur og heilsteyptur, fyrst innan Evrópu og seinna í Norður-Ameríku í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari. Sérílagi hafa byggingar upphafsáranna yfir sér áru frumleikans og er ein þeirra villa Tugendhat í Brno.

Brno millistríðsáranna

Brno varð önnur stærsta borg Tékkóslóvakíu árið 1918 og mótuðust millistríðsárin af einu allsherjaruppvaxtarskeiði þar sem borgin bauð upp á forskot fyrir hina kraumandi athafnaþrá millistéttarinnar, enda staðsett á langstærsta iðnaðarsvæði fyrrum ungversk-austurríska keisaradæmisins. Þar að auki var mannauðurinn sérlega margslunginn og samanrekinn því auk Tékka sem voru raunar í minnihluta, talaði vel yfir helmingur borgarbúa þýsku sem fyrsta tungumál. Að endingu mannaði fyrirferðamikill minnihluti gyðinga allar meiriháttar stöður einkageirans í samfélaginu og voru í meira lagi athafnasamir. Þessu er auðvitað öllu þveröfugt farið í dag. Borgarstjórnin var í senn framfarasinnuð, kappsfull og opin fyrir hinum nýja stíl fúnksjónalismans. Þannig leystu allar aðstæður uppsafnaða spennu úr læðingi í ótrúlegri athafnagleði sem borgin ber enn greinileg merki um í dag.

Upphaf

Fritz Tugendhat og Grete Löw-Beer fengu að gjöf rúmlega sex þúsund fermetra lóð í miðborginni við brúðkaup þeirra frá foreldrum brúðarinnar en hinn mikli auður þeirra byggðist á textíliðnaði. Leiðir þeirra hjóna og Mies lágu saman árið 1928 gegnum sameiginlegan vin í Berlín, listsögufræðinginn og safnarann Eduard Fuchs, sem hafði frá árinu 1911 búið í Pearles-villunni svonefndri hannaðri af Mies en þá var hann undir sterkum áhrifum nýklassíkur. Við þennan fyrsta fund hafði byggingin einmitt verið útvíkkuð til muna eftir nýmóðins teikningu, einnig eftir Mies. Byggingin höfðaði mjög til hjónanna. Grete hafði einnig að eigin sögn hrifist af blokkarbyggingu hans frá Weissenhof híbýla og nýlendusýningunni frá árinu 1927 svo án vafa skynjaði hún að Mies var boðinn á grynningum þessara miklu umbrotatíma.

Svo fór að þau hjónin tóku hönnun eigin híbýlis úr höndum sjálfs Arnost Wiesners sem þá hafði umboðið og var yfirburðararkitekt í Brno og fólu Mies, en auk þess að biðja um teikningu veittu þau honum óheft listrænt leyfi til athafna á opinn reikning þeirra.

Útkoman er án efa ein magnaðasta bygging vestrænnar byggingarlistasögu; sannkölluð táknmynd og samnefnari alls þess sem koma skyldi innan ramma fúnksjónalismans í byggingarlist og fleytti jafnframt Mies fram úr hópi jafningja sinna og samlanda eins og Gropius og Bruno Taut.

Samkvæmt munnlegum heimildum safnstýrunnar, Ivetu Cerna*, stóð Mies á sjálfri lóðinni og hugleiddi fyrstu drætti hússins þegar honum barst skeyti þess efnis að honum hafi verið falinn hönnun þýska sýningarskálans fyrir heimsýninguna í Barcelona árið 1929. Sú bygging, líkt og sýningarskáli Le Corbusiers frá Parísar-sýningunni árið 1925, gekk fram af allflestum sökum hins nýja tóns er var sleginn, sem kvað á um endurmat á upplagi og hlutverki bygginga í nútímanum. Saga bæði Barcelona-skálans og Túngandhat-híbýlisins er því samtvinnuð og notaði Mies skálann sem tilraunarfyrirmynd, ekki síst hvað varðar krosssúlurnar sem voru alger nýjung og því viss áhætta. Framvinda Tugendhat-verkefnisins dróst þess vegna.

Einkenni

Fyrst og fremst vildi Mies ná fram samsuðu formfræði og notagildis og það vandlega útfærðu til hins ýtrasta. Einnig kom þar fram samsuða hins ytra og innra sem gekk seinna sem rauður þráður gegnum höfundarferil hans í svokölluðu "curtainwall" – skipan sem þýðir að samfelldar gluggahliðar bygginga hans líða umhverfis í nöktum einfaldleika sínum með burðarvirkið aðskilið (þ.e. dregið inn frá jaðrinum) en á sama hátt einfalt og taktfast spunnið úr stálsúlum. Þarna var Mies greinilega að styðjast við persónufærða útfærslu á fimm punkta kerfi kollega síns Corbusiers sem þá var splunkunýtt.

Eftir að hafa heimsótt helstu híbýli hönnuð af þessum tveimur yfirburða húsameisturum 20. aldarinnar, skynjar maður hversu nærvera Mies er allt önnur en Le Corbusiers. Hin kalda nekt sem umlykur allt verk Mies þolir nefnilega enga uppgerð eða áreynslu. Skilyrðislaus undirgefni arkitektsins Mies gagnvart verki eins og Tugendhat-húsinu skín í geng. Það er skoðun mín að verk Mies séu laus við það sem ég freistast til að kalla "rúnk ´n´ role" sem stundum blundar baka til í annars smart híbýlum teiknuðum af Le Corbusier.

Lóð og umhverfi

Mies fleygaði sjálfan byggingarmassann, 1.211 fm að grunnfleti, í stall efst á hlíðartopp Svartaakurs (Cerna pole) með fögru útsýni yfir miðborgina í suður. Hér er margt frábrugðið því sem menn eiga að venjast frá hvunndagshíbýlum, því hér er hefðbundnu upplagi hinnar klassísku villu frá tímum Pallaudio snúið á höfuð á stásslegan hátt. Tveir láréttir byggingarhlutar blasa við frá götu; bílageymsla með áfastri þjónustuíbúð húsvarðar/bílstjóra suðvestantil en anddyri auk salernis, svefnherbergja fjölskyldu og fóstru suðaustantil. Þessi rými snúa baki í götuna en tróna annars í makindum ofan á þaki eða öllu heldur dekki sjálfrar byggingarinnar því þetta er í raun ein risavaxin verönd. Þaðan birtist heildarásjóna byggingarinnar og umhverfisins í öllu sínu veldi sem fagurmótað klif er stallast niður á við í garðinn líkt og flúðir með miðborg Brno og Spilberg kastala í baksýn.

Híbýlin

Sá er stígur inn í anddyrið alsett ítölsku travertine á gólfi og palisander viðarpanel á veggjum, les sig þaðan niður einfaldan og þröngan tröppugang er tekur 180 gráðu beygju án áningar niður á aðra hæð sem er jafnframt aðalhæð hússins. Óvíða finnst jafnglæsilega stílfærð innganga; hálf tilfallandi ef ekki hikandi við fyrstu sýn og einhvern veginn út úr kortinu fyrir aðra eins glæsibyggingu því andstætt t.d. Villa Savoie Le Corbusiers hefja tröppurnar sig niður á við, án fyrirheita að því virðist, úr horni anddyrisins en allt stílfært í þaula auðvitað því rýmið og útsýnið sem opinberast niðri er engu líkt.

Við fyrstu sýn blasir við risavaxin stofa, sem við nánari athugun er deilt niður í bóka-, íveruherbergi og borðstofu. Hér á þessu 223 fermetra aðalsviði villunnar spila einungis tvö skilrúm aðalhlutverkið með einföldum og skýrum hætti. Annað að öllu úr onyx frá Marokkó (kvarsi, sem er annars nær eingöngu notað í skartgripi) er verður hálfgegnsætt og nánast glóir gegnt suðursólinni. Hitt skilrúmið stingur í stúf við allan léttleikann; dökkur hálfhringlaga veggur úr zebrano eða sebravið frá hitabeltinu sem að hálfu umlykur kringlótt 6 manna fjölskylduborðstofuborð sem má útvíkka í áföngum út frá miðju líkt og gárur á vatni svo allt að 24 gestir komist að.

Annars flæða rýmin svo til óhindrað saman um leið og þau keppast um að freista manns; bókaskotið með hillur og þiljur úr masakar-íbenholti ýtir undir tómstundaiðju heimilisfólks, tónlistariðkun og lesgrúsk. Eða stássstofan þar sem hala má með öllu niður í kjallara, tvær af fjórum framrúðunum og faðma umheiminn, en ef það gefur um of í, má draga fyrir silki og flauelsgluggatjöld. Öll þessi heild dafnar undir taktföstu slagi krosssúlnanna, afskermaðra í sanseruðu stáli er speglar, og stækkar ef eitthvað er, umhverfið.

Hér er ekkert naglfast uppfært af tilviljun. Húsgögnin voru öll hönnuð af Mies, auðvitað í yfirstærð, þ.e.a.s. áberandi breið svo ekki kæmist upp um hin voldugu hlutföll aðalhæðarinnar. Garðskálinn, að efni til nær eingöngu úr gleri, rammar inn framandi plöntur úr öllum heimshornum þ.á m. brönugras (orkideur) og lótusblóm enda uppáhalds íverustaður húsmóðurinnar. Auk þess að vera fagur rammi utan um gróður, dregur hann fram arkitektónískan lið, þ.e. ísíar sem garður milli granna um leið og hann dregur úr verstu sólargeislunum er smjúga inn frá suðsuðaustri.

Garðþrepin voldugu

Hér er komið að einum af þeim þáttum er skilja Tugnedhat-húsið frá þeim byggingum sem flokka má undir kollsteypur funksjónalismans; Tugendhat-húsið er þrátt fyrir allar sínar nýmóðins öfgar töluvert klassískt að upplagi þegar betur er að gáð. Mies leggur nefnilega út af garðþrepunum, sem með viðhöfn og mætti, tekur þann sem gengur úr stofu niður í garðinn í u-beygju og kallar fram stílfærð, ef ekki leikræn tilþrif söguhetjunnar er gengur um gangane. Þess háttar dramatík eða sveifla er nefnilega jafnnauðsynleg og þögnin í tónverki eða komman í bókmenntum, því hún jafnframt bætir í og dregur úr spennu. Þrátt fyrir ósamhverfu byggingarinnar endurvekja garðþrepin volduga angan af hinu eina sanna klassíska grunnmótífi, samhverfu og stigskipun rýmanna er hefur legið óslitinn frá örófi klassískur; gegnum edurreisn, barrokk og loks nýklassík, ekki síst Schinkel. Hér liggja ekki steinsteypurampar út og suður.

Einnig er teikningin verulega íhaldssöm ef ekki kaþólsk að því leyti að húsinu er stranglega kynja- og stéttarskipt að hætti þýskra stórburgeisa (bourgeoisie) frá því fyrir aldamótin 1900. Hjónin deildu ekki sameiginlegu svefnherbergi heldur sváfu sér og þjónustufólk fékk vesturhlutann með öllu undir eigin þarfir og skylduverk. Jafnvel eigin næturgestir máttu dvelja með öllu afsíðis, því Tugendhat-hjónin reistu stóreflis gestavillu í fúnkisstíl í félagi við vinahjón sín í "Masaryk" einbýlishúsahverfinu, u.þ.b. þrjá kílómetra í burtu.

Það er sama hvar borið er niður; allt er varðar gerð og upplag Tugendhat-hússins er úr tengslum við hvunndagsleikann árið 1928. þannig var flogið sérstaklega með tonn af múrsteinum Brno frá Hollandi, á tímum þegar flugferðir mannfólks töldust til forréttinda. Byggingin var sérútbúin risavöxnu loftræstikerfi löngu áður en þau urðu stöðluð og sjálfsögð meðal stórbygginga. Tugendhat-húsið kostaði einnig á sínum tíma 6 miljónir tékkneskar kórónur á sama tíma og lúxusvilla bankastjórans í sömu götu kostaði einungis 200 þúsund kórónur.

Eftirmáli

Í aðdraganda seinna stríðs, árið 1938, flúði Tugendhat-fjölskyldan til Caracas í Venezuela og reisti sér seinna minni útgáfu af upprunalega húsinu. Þýska leynilögreglan SS tók sér ból í húsinu eftir yfirtöku

á Tékkóslóvakíu í mars 1939. Rússneskir hermenn, eins og sú þjóð virðist oft vera furðulega samsett af hámenningu og ósiðmenningu, riðu inn í villuna við lok seinna stríðs á hestbaki og tóku hinn fagra hálfhringlaga borðkrók fyrir eldstæði og kveiktu bál. Skeifulaga hófaspörk mátti finna upp um alla veggi. Eftir hildarleikinn voru hin sérhönnuðu viðar- og stálhúsgögn Mies annaðhvort horfin með öllu eða höggvin í spað sem eldsmatur. Seinna fór þar fram ballettkennsla og á 6. áratugnum hýsti villan endurhæfingarmiðstöð fyrir fötluð börn. Hinum voldugu stofurúðum var deilt niður í smærri reiti með listum og silíkoni svo úr varð einn risavaxin "franskur" gluggi. Loks varð villan að VIP bústað ríkisstjórnarinnar og hýsti m.a. Andropov og Gorbatsjov. Í tímans rás bentu sérfræðingar á þessa dæmalausu misnotkun og vildu fara í viðgerðir en eftir að Normaliseringin svokallaða hafði tekið við Vorinu í Prag árið 1968 lágu öll plön niðri enda þjóðin í þunglyndi.

Endurnýjun Tugendhat

Húsið hefur allt frá árinu 1963 verið friðað og var nú síðast árið 2001 bætt á heimsminjaskrá UNESCO. Í maí 2004 fór fram rannsókn þýskra vísindamanna á upprunalegri áferð útveggjanna. Beitt var sömu ultra-sound tækni (Strati Graphy) og þeirri við greiningu á lofmálverki Michelangelos í Sixtínsku Kapellunni í Róm. Niðurstöður urðu óvæntar því að veggir hússins voru upprunalega ekki hvítir eins og talið var, heldur í lit lindakalks (travertine).

Endursköpun hússins er nákvæmnisaðgerð af óvenjumiklu umfangi þar sem hver fersentimetri fær sérmeðferð, líkt og um viðgerð málverks eða lágmyndar væri að ræða. Raunar er stórmál og margfalt dýrara að endurgera byggingar módernismans en t.d. meðalkirkju frá barroktímanum. Ástæðan eru hin fjölbreyttu og flóknu deili sem þarf bókstaflega að endurteikna og sérsmíða. Valið hefur verið fjölmennt teymi sérfræðinga er mun takast á við þessa flóknu aðgerð og ekki er laust við að beyg leggi að mönnum því hér er um að ræða einn allsherjar uppskurð eins og í þoturekstri þar sem sérhverjum stöðluðum hlut er skipt út eftir ákveðinn flugtíma, nema hér liggja hlutir ekki á lager. Onyx-vegginn sérstaklega þorir enginn að snerta, hvað þá færa úr stað. Hússtýran Iveta tjáði mér sumarið 2004 að Tugendhat-húsið, sem kom þá óvenjuilla undan vetri, þyldi enga frekari bið á allsherjarendurnýjun. Þungi jarðvegsins ofan frá er endanlega að sliga bygginguna og hótar ryðja henni um koll.

Nú í janúar þegar her forvarða átti að hefja störf, lögðu erfingjar Tugendhat-hjónanna skyndilega fram kröfu um full yfirráð á eigninni í krafti nýrra laga frá 27. desember síðastliðnum sem kveða á um skil á eignum er tilheyrðu fórnarlömbum helfararinnar. Löngu tímabærri endurnýjun var slegið undir eins á frest um ókomin ár. Enginn efast um rétt erfingjanna, sem hafa að sögn ráðið hina hæfustu lögfræðinga. Erfingjarnir hafa samt greinilega skipt um skoðun því þeir höfðu fram til þessa ekki viljað endurheimta húsið og töldu málin alltént í góðum farvegi. Brnoborg hefur nú afhent allt forræði til tékkneska ríkisins sem þegar stendur í ströngu vegna óteljandi kastala og halla sem fyrrum eigendur, oftast aðalsættir, sækjast eftir. Málaflækur fyrir dómstólum gætu tekið allt að sjö ár og má gott heita ef Tugendhat-húsið stendur upprétt að þeim tíma liðnum. Málið er allt hið neyðarlegasta fyrir Brnoborg sem hefur lagt út 11 milljónir tékkneskar kóróna í rannsóknir og skýrsluvinnu án þess að hafa haft fullt lagalegt umboð.

Af framangreindu að ráða, er saga Tungendhat-hússins ekki öll, en eftir allt sem á undan er gengið hefur það fleiri en níu líf.

*Iveta Cerna er bæði arkitekt og listasögufræðingur sem hefur stýrt Tugendhat-safninu frá árinu 2002. Hún stýrði jafnframt teymi sérfræðinga er vann að endurnýjun byggingarinnar.

Aðrar heimildir: Ýmsir upplýsingapésar gefnir út af Listasafni Brnoborgar og "Mies in Berlin".

Höfundur er arkitekt í Prag og vinnur að doktorsritgerð um byggingarlist Arnošt Wisners í Brno á millistríðsárunum.