Þingvellir "Fyrstu fréttir voru loðnar því fullyrt var að fella þyrfti trén því svo væri mælt um í heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Vakti þetta reiði manna því það vekur iðulega upp reiði ef einhver stofnun út í heimi dirfist að segja Íslendingum til," segir Gunnar Hersveinn Þessi mynd er tekin frá Valhöll þar sem grenitré skyggja nú orðið á Þingvallabæinn.
Þingvellir "Fyrstu fréttir voru loðnar því fullyrt var að fella þyrfti trén því svo væri mælt um í heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Vakti þetta reiði manna því það vekur iðulega upp reiði ef einhver stofnun út í heimi dirfist að segja Íslendingum til," segir Gunnar Hersveinn Þessi mynd er tekin frá Valhöll þar sem grenitré skyggja nú orðið á Þingvallabæinn. — Ljósmynd/ Gísli Sigurðsson
Eftir Gunnar Hersvein gunnars@hi.is "Mér hefur stundum dottið í hug, að frekar ætti að nota orðið barrtrjáatíð en gúrkutíð um efnistök fjölmiðlamanna í fréttaleysi," skrifaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á heimasíðu sína 17. júlí.

Eftir Gunnar Hersvein

gunnars@hi.is

"Mér hefur stundum dottið í hug, að frekar ætti að nota orðið barrtrjáatíð en gúrkutíð um efnistök fjölmiðlamanna í fréttaleysi," skrifaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á heimasíðu sína 17. júlí. Tilefnið var umfjöllun í fjölmiðlum um að fella ætti öll barrtré innan þinghelgi Þingvalla. Ég var nýkominn heim eftir ferðalag um fjalllendið norðan Madrídar á Spáni en þau fjöll einkennast af háum (barr)trjám.

Ég kom of seint inn í umræðuna og þurfti að rekja mig til baka. Fyrstu fréttir voru loðnar því fullyrt var að fella þyrfti trén því svo væri mælt um í heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Vakti þetta reiði manna því það vekur iðulega reiði ef einhver stofnun úti í heimi dirfist að segja Íslendingum til. Viðbrögð landans eru oft algjörlega á skjön við tilmælin. Þekkt dæmi um slík viðbrögð eru hvalveiðar Íslendinga 2006. Engin stofnun, engin þjóð, engin samtök máttu skora á stjórnvöld að hefja ekki hvalveiðar. Eina svarið var að hefja þær óvænt og umsvifalaust með markmiði sem ekki sér fyrir endann á.

Nokkuð ljóst var af viðbrögðum og umræðum að ef barrtrén ætti að fella vegna tilmæla í heimsminjaskrá SÞ þá mætti alls ekki fella þau. Þá skoðun bar hæst í leiðara Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu 16. júlí: "Nú er byrjað að höggva sum þessara trjáa. Hugsanlega fá einhver þeirra að standa. Þetta er gert í skiptum fyrir stimpil frá Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Sá stimpill gerir ekki meira úr Þingvöllum en þeir eru."

Umræðan um barrtrén á Þingvöllum er reyndar ekki ný af nálinni, jafnvel 50 ára gömul. Í Morgunblaðin 25. júlí 1957 leggst t.d. forseti Alþjóðlega náttúruráðsins gegn barrtrjám á Þingvöllum. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri sagði aftur á móti í Morgunblaðinu 26.10. '83 frá samtali sínu við mann á Þingvöllum sem var að dásama skjólið sem barrtrén veittu. Hákon sagði honum að nú færi "að sneiðast um skjólið á Þingvöllum, þar sem hópur manna væri tilbúinn að reiða axir að rótum þeirra. Trén tilheyrðu ekki íslenskri náttúru og yrðu því að víkja að dómi náttúruverndarmanna. Maðurinn rak upp stór augu, hváði og spurði svo hvers konar fólk það væri, sem vildi ræna aðra skjóli og hlýju. Ef þetta fólk gerði alvöru úr hótun sinni, þá skyldi hann safna að sér liði til að mæta slíkum..."

Síðar í þessari viku virtist hins vegar sem heimsminjaskrá UNESCO setti þetta alls ekki sem skilyrði fyrir veru Þingvalla á skránni heldur sjálf Þingvallanefnd. Haft var eftir Guðrúnu Kristinsdóttur yfirlandverði í Fréttablaðinu að þetta væri gert í samráði við Skógrækt ríkisins, m.a. til að koma í veg fyrir að barrtrén eyðilegðu fornminjar.

Hjörleifur Guttormsson bætir þó við fréttina í Fréttablaðinu með því að segja: "Hins vegar er ákvörðunin um að grisja og fjarlægja aðfluttar trjátegundir hluti af þeim kvöðum sem innsiglaðar voru með inntöku Þingvalla á heimsminjaskrána árið 2004. Jafnframt var ítrekað það sem áður lá fyrir að furulundurinn frá árinu 1903 yrði varðveittur sem sögulegt minnismerki um upphafsár skógræktar hérlendis." (18.7. '07.)

Það eru með öðrum orðum ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli – því Hjörleifur segir að felling trjánna sé kvöð sem felist í inntöku Þingvalla á þessa frægu skrá. Hann virðist aftur á móti alveg sáttur við þá kvöð ólíkt Þorsteini. Að grisja er þó allt annað en að gjörfella!

Ef til vill er burthvarf barrtrjáa frá Þingvöllum eins konar samkomulag milli Þingvallanefndar og menningarmálanefndar SÞ? Hver veit? Umsóknin um Þingvelli á heimsminjaskrá UNESCO var lögð fram 2003 og Þingvellir komust á skrána 2004. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður sagði þá að viðurkenningin væri mikilvægur grunnur fyrir menningartengda ferðaþjónustu á landinu. Þingvellir komust ef til vill á þessa umtöluðu skrá fremur af menningarlegum ástæðum en náttúrulegum? Í framhaldi af umsókninni til UNESCO samþykkti Þingvallanefnd hinn 2. júní 2004 stefnumörkun næstu 20 ára fyrir þjóðgarðinn og einnig verkefnaáætlun þar sem m.a. er gert ráð fyrir grisjun. Sama ár tóku ný lög um þjóðgarðinn gildi.

Mér finnst barrtrjáatíðin í fjölmiðlum lærdómsrík. Flórufasismi hét leiðari Þorsteins Pálssonar en umræðan vekur einnig spurningar um tvennt: Hvers vegna hópar manna bregðist ókvæða við ábendingum, tilmælum og fyrirmælum sem koma utan úr heimi? Og hvers vegna er ekki bara hægt að finna lausn og sátt í þessu máli? Nefna má að Skógræktin gerði skoðanakönnun á viðhorfi almennings til barrtrjáa á Þingvöllum og niðurstaðan var að einungis 5% vildu barrtrén burt.

Umsóknin um Þingvelli á heimsminjaskrá: http://www.thingvellir.is/media/skjol/Tingvellir_umsokn.pdf