Eftir Davíð Loga Sigurðsson
david@mbl.is
SAMVINNUNEFND miðhálendisins hefur kynnt tillögur um breytingar á svæðisskipulagi miðhálendisins í Skaftafellsþjóðgarði við Lakagíga og aðliggjandi svæði. Gert er ráð fyrir því að komið verði á hringakstri um svæðið, þannig að ferðamenn geti farið upp vestan Kirkjubæjarklausturs við Hunkubakka og komið niður úr Lakagígum framhjá Miklafelli, austan Kirkjubæjarklausturs.
Tillögur nefndarinnar voru kynntar á opnum fundi á Kirkjubæjarklaustri á mánudag. Óskar Bergsson, formaður nefndarinnar, segir að tillögurnar byggist á óskum Skaftárhrepps og stjórn Skaftafellsþjóðgarðs en með þeim sé stefnt að bættu aðgengi að Lakagígum, auk þess sem stuðlað verði að verndun náttúru og umhverfis.
Þrjátíu þúsund ferðamenn fara um þetta svæði ár hvert og að sögn Óskars spá ferðaþjónustuaðilar á svæðinu því að innan tíu ára verði ferðamannastraumurinn orðinn 100.000 á ári.
Óskar segir að náttúran liggi undir skemmdum vegna þess að ekki sé hugsað fyrir því hvernig sífellt vaxandi umferð um svæðið sé stýrt. Annaðhvort verði því að bregðast við túrismanum eða hreinlega loka hálendinu.
Uppbygging ferðaþjónustunnar fari fram niðri í byggð
Tillögurnar gera ráð fyrir því að aðgengi ferðamanna verði aukið með betri vegum, merktum gönguleiðum, áningarstöðum og upplýsingamiðlun sem leiði af sér að auðveldara verður að stjórna því hvert fólki er beint á svæðinu. Gerir tillagan ráð fyrir nýju skálasvæði á Galta og upplýsingamiðstöð með móttöku og snyrtiaðstöðu. Núverandi skálasvæði í Blágili verði hins vegar breytt í fjallasel, þar á að verða aðstaða landvarða og tjaldsvæði.Þá verður gönguleið sem þverar Skaftá færð frá kláfi sunnan við Sveinstind suður fyrir Uxatinda með göngubrú sem tengist betur gönguleiðum vestan Skaftár. Þannig er meiningin að færa gönguleiðina frá viðkvæmu svæði við Kamba.
Loks verður komið á hringakstri í gegnum svæðið, þannig að menn geti komið upp vestan Kirkjubæjarklausturs, við Hunkubakka, og niður austan bæjarins, Miklafellsveg svonefndan, en hann færist upp um einn flokk og verður fjallvegur, auk þess sem lega hans breytist.
Miklafellsvegur tengist inn á Lakaveg við Galta en núverandi vegarslóði sem liggur upp á öxl Blængs, um þröng og torfarin gil sem eru að hluta til innan friðlýsingar á Lakagígum, verður lagður af. Er nýjum hluta fjallvegarins ætlað að liggja um jökulgarð á tiltölulega sléttu landi.
Leiðin frá Kirkjubæjarklaustri og upp að Laka er um 50 km löng og segir Óskar að það sé stutt vegalengd miðað við víddir hálendisins. "Þannig að það er gert ráð fyrir því að öll uppbygging ferðaþjónustunnar, í sambandi við gistinætur og allan massatúrisma, fari fram niðri í byggð en reynt verði að haga samgöngum þannig að hægt sé að koma fólki tiltölulega greiðlega þarna upp eftir."