Þjóðgarðurinn í Skaftafelli var stofnaður 15. september 1967 og var þjóðgarðslandið þá um 500 km
Árið 2004 var hann enn stækkaður og er nú er orðinn 4.807 km
Skaftafellsþjóðgarður þekur nú um 2/3 hluta Vatnajökuls. Þjóðgarðurinn skiptist í þrjú ólík svæði: Lakagíga, Skaftafell ásamt efsta hluta Skeiðarársands og um 58% af jökulhettu Vatnajökuls ásamt skriðjöklum.
Þjóðgarðsvörður, ásamt þremur heilsársstarfsmönnum, sér um rekstur þjóðgarðsins í umboði Umhverfisstofnunar sem fer með stjórn hans. Landverðir starfa í þjóðgarðinum yfir sumarmánuðina ásamt öðru starfsfólki. Hlutverk starfsmanna er að taka á móti gestum og veita upplýsingar og fræðslu um þjóðgarðinn og fylgja eftir umgengnisreglum.
Gestir eru hvattir til að leita upplýsinga og fræðslu hjá starfsfólki þjóðgarðsins.
Þjóðgarðar eru samkvæmt náttúruverndarlögum friðlýst svæði í ríkiseign, sem sérstæð eru um landslag, gróðurfar eða dýralíf, eða þá að á þeim hvíli söguleg helgi, þannig að ástæða sé til að varðveita þau með náttúrufari sínu. Almenningur hefur aðgang að þjóðgörðum eftir tilteknum reglum. Til að tryggja að tilgangi friðlýsingar verði náð gilda ákveðnar reglur um umgengni á friðlýstum svæðum.
Í Skaftafelli er að finna afar fjölbreyttar gönguleiðir sem eru við allra hæfi. Unnið er að því að bæta aðgengi að skriðjöklum í jaðri þjóðgarðsins með stikuðum gönguleiðum og merktum vegslóðum.