Draumurinn orðinn að veruleika Meirihlutaeigendurnir Agnar Sverrisson matreiðslumaður og Xavier Rousset þjónn sem standa vaktina alla daga.
Draumurinn orðinn að veruleika Meirihlutaeigendurnir Agnar Sverrisson matreiðslumaður og Xavier Rousset þjónn sem standa vaktina alla daga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fay Maschler veitingahúsarýnir hjá Evening Standard var yfir sig hrifin af skagfirska lambakjötinu þegar hún heimsótti nýja veitingahúsið Texture í London en að því standa m.a. nokkrir Íslendingar. Guðbjörg R. Guðmundsdóttir sló á þráðinn til Óskars Finnssonar.

Það var mjög ánægjuleg byrjun fyrir okkur sem stöndum að Texture að fá umsögn Fay Maschler með þessum hætti því hún er aðal veitingahúsarýnirinn í London og leggur línurnar ef svo má að orði komast," segir Óskar Finnsson sem er einn þeirra eldhuga sem að nýja veitingastaðnum standa. Fay fór lofsamlegum orðum um veitingahúsið almennt í dómi sínum í Evening Standard og bar sérstaklega lof á íslenska bragðmikla lambakjötið úr Skagafirðinum.

"Hún endaði greinina sína á því að segjast vera búin að panta aftur borð hjá okkur svo við getum ekki annað en verið ánægðir. Við verðum líka að tryggja okkur skagfirska lambakjötið áfram, það er engin spurning."

Agnar Sverrisson, matreiðslumaður og Xavier Rousset vínþjónn, stærstu eigendur staðarins, höfðu unnið saman í nokkur ár á Le Manoir í Oxford. Fyrir tveimur árum vaknaði sú hugmynd hjá þeim að opna veitingastað. Þeir hófu þegar undirbúning og breskir og íslenskir fjárfestar komu inn í verkefnið með þeim félögum þegar á leið, m.a. Óskar Finnsson sem rætt er hér við.

Agnar er snillingur í eldhúsinu

"Ég stóðst ekki mátið þegar Agnar bauð mér að vera með en þeir voru þá einungis komnir með breska fjárfesta og vantaði fleiri." Óskar hafði samband við nokkra íslenska félaga sína sem eru miklir mataráhugamenn sem bættust í hópinn.

"Við sáum strax að þetta var mjög spennandi, Agnar er snillingur í eldhúsi og Xavier kann allt um vín og þjónustu. Ég kem svo inn sem veitingamaður og er meira í að skoða heildarmyndina og lesa í tölur. Texture á aðeins að vera fyrsta verkefnið okkar og við lítum á þetta sem fyrsta skrefið að einhverju meiru."

Þorskur og kannski humar

– Hvernig staður er Texture?

"Þetta er frekar lítill veitingastaður en fyrsta flokks. Hann rúmar 56 gesti og 30 bargesti.

Við erum með hágæða matreiðslu á evrópska vísu, notum lítið af smjöri og rjóma og maturinn verður léttur í maga. Við notum sjávarfang að heiman þegar hægt er og á matseðlinum verða fimm forréttir, fimm aðalréttir og fimm eftirréttir svo og tveir einstakir sjö rétta bragðlaukamatseðlar. Íslenskt lambakjöt er á boðstólum eins og áður kom fram en líka grísakjöt "sukling pig," dúfur og kjúklingar "black leg chicken" svo og íslenskur þorskur svo dæmi séu tekin. Verið er að skoða þessa dagana hvort grundvöllur er fyrir íslenskan humar og jafnvel skyr."

Til marks um hversu vel allt var undirbúið á Texture voru allir rétt irnir á matseðlinum prufukeyrðir daglega í þrjár vikur áður en opnað var formlega.

Yfir 90 tegundir af kampavíni

Þess má geta að staðurinn státar af mesta kampavínsúrvali í London en á boðstólum eru yfir 90 tegundir.

Sömuleiðis er meira úrval af rauðvíni og hvítvíni en almennt tíðkast og á vínlistanum eru allt í allt yfir 300 tegundir af víni. Kampavín er að sögn Óskars mjög vinsæll drykkur í Englandi núna og reyndar í heiminum og með yfir 90 tegundir á seðlinum ætti staðurinn að geta sinnt þörfum sinna viðskiptavina.

Óskar bendir að lokum á að Xavier sem er sérfræðingur í þjónustu og víni vilji ekki að fólk þurfi að klæða sig á sérstakan hátt.

"Fólk í dag vill klæðast þægilegum fötum og ekki endilega alltaf jakkafötum. Við ætlum að hafa það í huga."

Staðurinn er engu að síður í mjög virðulegu húsnæði, það er hátt til lofts og öll umgjörð klassísk en af slappað umhverfi. Þórhildur Rafnsdóttir, hönnuður, unnusta Agnars, hannaði staðinn og ber öllum saman um það að henni hafi tekist mjög vel til.

– Hvernig tókst annars að koma upp veitingahúsi í London?

"Þetta gekk en er afskaplega ólíkt því sem við þekkjum á Íslandi þar sem allir þekkja alla í litlu landi. Allt er miklu þyngra í vöfum og svifaseinna. Það er ekki hægt að hringja og láta redda hlutunum þegar röng borðplata kemur eða pöntun á glerplötum klikkar.

Þá fer fólk aftast í röðina og bíður í nokkrar vikur eftir leiðréttingu.

Þetta hefur oft reynt á þolrif okkar Íslendinganna en allt hafist."

Óskar segir að móttökurnar séu vonum framar. Frá því staðurinn var opnaður formlega 6. september hefur verið fullbókað öll kvöld og svo til fullt í hádeginu. Agnar stendur vaktina frá morgni til kvölds og gengur úr skugga um að fram í veitingasal fari enginn matardiskur nema hann sé fullkominn.

– Hvað kostar svo þriggja rétta máltíð á Texture?

Um 45 pund eða sem samsvarar um 5.800 krónum og sjö rétta sælkeraseðill er á 59 pund sem eru um 7.600 kr." Í hádeginu bjóðum við svo upp á seðil með smáréttum þar sem hver réttur kostar 8,5 pund eða um þúsund krónur.

Draumur okkar í mörg ár

– En hvað kemur til að Óskar sem áður rak Argentínu steikhús er fluttur búferlum til Englands?

"Árið 1989 vorum við á leið til Lúxemborgar, okkur langaði að prófa að búa í öðru landi. Svo byrjuðum við með Argentínu ásamt núverandi eigendum staðarins, Kristjáni Þór Sigfússyni og Ágústu Magnúsdóttur og þá lá þessi draumur niðri um skeið. Hann varð hinsvegar sífellt háværari og eitt kvöldið þegar við María, konan mín, vorum að horfa á sjónvarpið tókum við ákvörðun um að selja Argentínu steikhús, selja húsið og flytja til Guildford, sem er klukkutíma suður af London. Það var mátulega langt frá Íslandi og enska tungumálið sem við vildum læra vel.

Okkur hefur liðið frábærlega í þessi ár sem við höfum búið hérna, börnin blómstra og ég er að vasast í ýmsu bæði hér úti og heima á Íslandi sem þýðir að við skreppum oft til Íslands."

– Eitthvað spennandi á Íslandi sem þú ert með í kortunum?

"Já, það má segja það. Ég kem að Turninum ásamt Sigurði Gíslasyni, landsliðskokki og fleiri mataráhugamönnum í Kópavogi þar sem við stefnum í desember á að opna flottasta veislusal á Íslandi sem rúmar allt að 280 manns í sæti og verður með ótrúlega mögnuðu útsýni af 20. hæð."

Veitingahúsið Texture 34 Portman Square, W1 H 7BYLondon Sími 0044 020 7224 0028 Veffang: www.texture-restaurant.co.uk