LES MAROLLES, eitt af elstu hverfum Brusselborgar, er góður viðkomustaður fyrir þá sem hafa gaman af fornmunum. Hverfið, sem á sögu sem nær allt aftur til miðalda, var sannkölluð vin fyrir listamenn og handverksfólk á 18. og 19. öld. Í dag minna þröng og stundum hrörleg stræti á borð við Rue des Orfvères og Rue des Romoneurs á forna handverkstíma.
Á flóamarkaðinum í nágrenni Place du Jeu de Balle má finna allt frá fornum matprjónum til íburðarmikilla kertastjaka frá tímum Loðvíks 15 og evrópskt áhugafólk um forngripi gerir sér reglulega ferðir á markaðinn í þeirri von að finna þar óvæntan happafeng. Í sýningarsölum Haute Antiques 207, við Rue Haute, má finna hægindastóla og naumhyggjuleg skandinavísk húsgögn á verði sem New York Times segir stundum einungis fjórðung af því sem þekkist í London og New York.
Í verslun franska innanhússhönnuðarins Muriel Bardinet, Dune við 234 Rue Haute, má svo virða fyrir sér sérstætt samansafn 18. aldar ítalskra húsgagna, taílenskra trúargripa og viktoríanskra mjaltastóla. Verðið er allt frá 73 þúsundum upp í litlar 1,7 milljónir króna.
Í nágrenni Place du Grand Sablon er svo um helgar að finna antíkmuna- og fornbókamarkað með öllu hærra verðlagi en einkennir flóamarkaðinn við Place du Jeu de Balle.