Frankfurtarmessan "Á göngunum og í básunum minnir fólkið á syndandi heilafrumur þar sem það geysist áfram í svarbláum jakkafötum til samráða um hvaða sæðisfruma sé vænlegust til að synda áfram að egginu og springa út sem metsöluhöfundur," segir greinarhöfundur sem er rithöfundur og sótti Bókamessuna í Frankfurt sem slíkur.
Frankfurtarmessan "Á göngunum og í básunum minnir fólkið á syndandi heilafrumur þar sem það geysist áfram í svarbláum jakkafötum til samráða um hvaða sæðisfruma sé vænlegust til að synda áfram að egginu og springa út sem metsöluhöfundur," segir greinarhöfundur sem er rithöfundur og sótti Bókamessuna í Frankfurt sem slíkur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókamessan í Frankfurt er ekki staðurinn til að njóta bóka heldur kaupa þær og selja. Er mikilvægt fyrir Íslendinga að hljóta þann sess að vera gestaþjóð árið 2011? spyr greinarhöfundur um leið og hún lýsir upplifun rithöfunda af bókamessunni.

Eftir Auði Jónsdóttur

audur@jonsdottir.com

Er bókamessan í Frankfurt ekki eins og gamla Heimilissýningin?" spyr Hermann Stefánsson rithöfundur þar sem við sitjum fjórir kollegar á katalónskum matsölustað og skeggræðum möguleikann á að Ísland verði gestaþjóð á bókamessunni árið 2011. Hann hnippir í mig sem fór á síðustu bókamessuna ásamt hinum tveimur rithöfundunum, Óttari M. Norðfjörð og Þórarni Leifssyni.

Til Frankfurt fórum við viðbúin vonbrigðum og því kom bókamessan þægilega á óvart. Í stað þess að minnast viðvarana um að höfundar lyppuðust niður þarna og útgefendum þætti vera þeirra álíka óþægileg og mannpaddan Gregor þótti í húsi fjölskyldu sinnar, þá hristum við fljótlega af okkur sjokkið við að mæta hundruðum þúsunda útgefenda og umboðsmanna. Um stund fann ég þó til samkenndar með stráknum sem faldi sig á nornaþingi í sögunni Nornirnar eftir Roald Dahl – en sem betur fer breyttumst við ekki í mýs eins og hann heldur þræddum hnarreist gangana.

Kannski er nær lagi að líkja bókamessunni við tískuhátíð en heimilissýningu því þar eru augsýnilega trend í gangi sem útgefendur skima eftir eins og gráðug hjarðdýr: Hvar er heitasta spennusagan í ár? Hvar er nýi Potterinn? Hvaða stjarna gaf út safaríkustu ævisöguna?

Þó er tískulíkingin heldur mikil einföldun því þarna má einnig finna útgefendur sem lifa á því að brjóta lögmálin fyrir utan alla þá farsælu forleggjara sem daðra jafnt við hjarðlífi og fagurkerafýsn.

Svo nú byrja ég að svara Hermanni: Auðvitað er bókamessan í Frankfurt á sinn hátt heimilissýning, enda takmark útgefenda að koma sem flestum bókum inn á sem flest heimili – rétt eins og húsgagnaframleiðendur reyna að selja allt frá Lazyboy-stólum að egginu hans Arne Jakobsen. Á móti kemur að bækur eru líkari fólki en stólar – skapaðar úr hugmyndum, fræðum, draumum, vonum, gagnrýni, tilfinningum, hugsjónum og leik – og því ógjörningur að afgreiða á nóinu þennan undarlega stað, einna líkastan flugvelli, þar sem árlega er vílað og dílað með það sem hæst skal bera í bóka- og heimsumræðunni. Í rauninni er bókamessan frekar heili alþjóðasamfélagsins en heimilissýning.

Í innviðum heilans

Téður alþjóðaheili minnir um margt á atriði úr kvikmyndinni All you wanted to know about sex eftir Woody Allen þar sem sýnd er starfsemi í stjórnstöð heilans til að undirbúa óþekktan náunga undir kynmök. Þarna eru veggirnir hvítir. Óendanlega langir gangar með beinum rúllustigum liggja á milli gígantískra álma sem hafa að geyma mismunandi lönd, málsvæði og heimsálfur í líki bása. Á göngunum og í básunum minnir fólkið á syndandi heilafrumur þar sem það geysist áfram í svarbláum jakkafötum til samráðs um hvaða sæðisfruma sé vænlegust til að synda áfram að egginu og springa út sem metsöluhöfundur. Hins vegar þóttumst við fljótlega uppgötva að þrátt fyrir vísindaskáldsögulegar umbúðirnar væru líflegheit í mannlegum samskiptum vænlegust til vinnings, líkt og á öðrum markaðstorgum.

Þannig fór Óttar M. Norðfjörð ekki erindisleysu með bókina sína, Hnífur Abrahams . "Að fara til Frankfurt var í senn það besta og versta sem ég hef gert á rithöfundarferlinum," segir hann. "Stundum er betra að skrifa bara í litla kjallaranum heima á Íslandi, óafvitandi af samkeppninni úti í heimi. Á hinn bóginn hafði ég lúmskt gaman af að tala um bækur í þrjá daga, ekki út frá fagurfræðilegu gildi heldur fjölda prentaðra eintaka, blaðsíðutali og umfjöllunarefni í hnotskurn, enda er þetta ekki staðurinn til að njóta bóka. Kannski er óðs manns æði að fara til Frankfurt í von um að selja óútkomna bók. En það er samt möguleiki, það er á hreinu. Maður þarf bara að þora að gera sig að fífli, enda ætlunin jú að pranga bókinni sinni upp á aðra. Þannig samskipti eru til grundvallar á hátíðinni – að selja og kaupa. Ég bjóst ekki við neinu, enda svartsýnn að eðlisfari. En í lokin voru þrjú forlög í Skandinavíu mjög áhugasöm um bókina; í þessum töluðu orðum eru þau með hana í frekari lestri. Þá fékk ég mjög góð viðbrögð frá finnsku forlagi og öðru þýsku – og heyri vonandi frá þeim síðar. Mér gekk því betur en ég þorði að vona, nokkuð sem sýnir að rithöfundur getur vel fengið eitthvað út úr því að mæta á messuna."

Í sama streng tekur Þórarinn Leifsson sem kom barnabókinni sinni, Leyndarmálið hans pabba , til frekari skoðunar hjá forlögum í Bandaríkjunum, Kanada og Skandinavíu með því að svífa á forleggjara og bjóða þeim laglegan bækling. Nokkuð sem er stór þáttur í bókamessunni: Að fá erlenda forleggjara til að kynna sér sem flestar bækur.

Samhugur og undirbúningsvinna

Kynningargildið fyrir gestaþjóð felst að stórum hluta í athyglinni sem hún hlýtur inni á sjálfri messunni. Á svæði Katalóníu, sem var gestaþjóðin í ár, voru stöðugir blaðamannafundir, þrátt fyrir að innbyrðis væringar fyrir messuna hafi skaðað getuna til að nýta hlutverkið til fullnustu. Við rithöfundarnir fjórir erum svo hungraðir í upplýsingar um þetta að við gleymum matnum þegar ég fiska farsíma upp úr kvenveskinu og hringi í Hólmfríði Matthíasdóttur, útgáfustjóra Máls og menningar, sem starfaði lengi hjá forlaginu RBA í Barcelona og hefur mikla reynslu af erlendri réttindasölu.

Hún uppfræðir okkur fúslega og segir eindrægni mikilvæga í þessu samhengi: "Ef Ísland verður gestaþjóð ættum við að sameinast öll sem að þessu komum – rithöfundar, ráðamenn, útgefendur og aðrir – um að nýta okkur þetta tækifæri eftir bestu getu til að koma bókmenntum okkar og menningu á framfæri. Katalóníumenn flöskuðu á því að láta innanríkisdeilur sínar varpa skugga á hátíðina þegar þeir fóru að þrasa um hvort spænskumælandi rithöfundar Katalóníu ættu að vera með eður ei; við getum lært af þeirra mistökum og sýnt samhug í undirbúningi og allri þátttöku í þessari kynningu," segir hún.

Næst er bjallað í Halldór Guðmundsson í öðrum farsíma svo ég hef þau Hólmfríði hvort í sínu eyranu. Halldór hefur oftsinnis farið á bókamessuna, bæði sem útgefandi og rithöfundur, og segir árangurinn velta mikið á undirbúningnum: "Þetta má ekki bara snúast um viðburði á messunni sjálfri, heldur um góðan aðdraganda þar sem mikil áhersla er lögð á þýðingar og útgáfur, því það eru bækurnar sem blífa. Jafnframt er þetta einstakt tækifæri til kynningar á íslenskum listum, ekki síst sjónlistum og tónlist, með margvíslegum viðburðum áður en á sýninguna er komið og auðvitað í sýningarhöllinni sjálfri."

Halldór bendir á að góð samvinna útgefenda, höfunda, þýðenda og áhugasamra erlendra útgefenda sé lykillinn að góðum árangri: "Reynslan hefur sýnt að það er hægt að gera þetta bæði vel og illa. Katalóníumönnum tókst til dæmis ekki alveg nógu vel upp í ár, af ýmsum ástæðum. Í mínum huga eru Hollendingar, sem voru heiðursgestir fyrir röskum áratug, góð fyrirmynd – því framganga þeirra varð til þess að koma af stað öflugri þýðingabylgju þar sem hollenskir höfundar og bókmenntir frá Niðurlöndum eignuðust góða útgefendur víða um heim."

Menningarútrás

Kynningin sem gestaþjóðin fær hlýtur að vera fengur fyrir þjóðir sem hafa fámennt málsvæði að kynna, líkt og Ísland og Katalónía. Hólmfríður tekur undir það: "Sýningin í Frankfurt var sérstaklega mikilvæg fyrir Katalóníubúa sem liður í viðleitni þeirra til að koma Katalóníu á kortið og sérstakri menningu hennar sem hefur aldalanga sögu, bókmenntahefð og eigið mál. Þeir vildu aðskilja Katalóníu frá Spáni í huga almennings. Segja má að það hafi tekist. Katalónskar bókmenntir hafa fengið sérstaka kynningu í bókabúðum um allt Þýskaland og búið var að þýða á sjötta tug katalónskra bóka áður en bókasýningin hófst. Eins hafa nokkur þýsk forlög gefið út eigin bækur um bókmenntir, sögu og menningu Katalóníu."

En hvaða gildi hefur gestaþjóðarhlutverkið almennt?

"Það er ómetanleg kynning fyrir menningu viðkomandi lands, ekki einungis í Þýskalandi heldur á alþjóðlegum vettvangi," segir Hólmfríður. "Tíu þúsund blaðamenn sækja sýninguna og fjallað er um hana á menningarsíðum allra helstu fjölmiðla heims. Íslendingar fengju með þessu einstakt tækifæri til að kynna sig sem skapandi og kraftmikla menningarþjóð; þjóð sem þrátt fyrir smæð hefur af ýmsu að miðla.

Svo ber að hafa í huga að Þýskaland er mikilvægt fyrir útrás íslenskra bókmennta. Það er bæði erfitt og dýrt að koma íslenskum bókmenntum á framfæri erlendis. Fáir lesa tungumálið og flestir hugsa sig tvisvar um áður en þeir festa kaup á útgáfurétti á óþekktum höfundi frá Íslandi. Þjóðverjar hafa hins vegar sýnt íslenskum bókmenntum töluverðan áhuga, enda hafa þeir íslensku höfundar sem út hafa komið í Þýskalandi flestir náð viðurkenningu og vinsældum þarlendis. Og ekki má gleyma að þýsk útgáfa hefur svo opnað þeim leið inn á aðra markaði og önnur málsvæði." Hólmfríður undirstrikar að verði Ísland í brennidepli á bókamessunni muni það auðvelda mikið kynningu á íslenskum bókmenntum: "Í stað tveggja bása af sex þúsund á sýningunni myndum við fá stórt sýningarsvæði einungis fyrir okkur og aðgang að tengslaneti kaupstefnunnar, auk þess að njóta kynningarmáttar þeirra. Við fáum þannig nægt rými til að sýna talsvert meiri breidd í bókaútgáfu en fram að þessu – og munum ná til fjölda nýrra erlendra útgefenda."

Sjálfstraustið skiptir máli

Að sögn Halldórs hafa Íslendingar lengi sótt bókamessuna. Í upphafi sjöunda áratugarins komu þar til dæmis bæði Baldvin Tryggvason frá Almenna bókafélaginu og Kristinn E. Andrésson frá Máli og menningu. Gunnar Dungal, sem lengi var með Pennann, á þó líklega met núlifandi Íslendinga eftir að hafa sótt messuna í fjörutíu ár. Að auki koma á messuna höfundar, bóksalar, prentarar og aðrir sem fást við bókagerð.

En hvernig kom það til tals að Ísland yrði gestaþjóð?

"Ríkisstjórn Íslands ákvað í byrjun september að sækjast eftir því að Ísland yrði heiðursgestur árið 2011," segir Halldór. "Stjórnendur messunnar hafa ekki afgreitt þessa umsókn, en ég held að líkurnar á jákvæðu svari séu fremur góðar; það skýrist væntanlega síðar á árinu. Í mínum huga væri þetta frábært tækifæri fyrir íslenskar bókmenntir og menningu yfirleitt sem er um að gera að nýta sem best. Auðvitað er bókamessan í Frankfurt markaðstorg, en ég get nú varla hugsað mér miklu þarfari sölumennsku en að koma íslenskum bókmenntum á framfæri við heiminn. Þetta konsept, heiðursgestur á messunni, gefur færi á öflugri kynningu bæði gagnvart hinum þýskumælandi markaði, sem nær til 100 milljóna manna, en líka út fyrir hann: Sýnendur á bókamessunni eru yfir 7.000 talsins og frá meira en 120 löndum.

Allt frá árinu 1995 hefur áhugi á norrænum bókmenntum aukist mjög á messunni og fjölmargir af þeim hundruðum útgáfusamninga sem gerðir hafa verið fyrir hönd íslenskra höfunda síðasta áratuginn eiga rætur að rekja til starfs sem þar er unnið. Ef orðið verður við umsókn okkar verðum við jafnframt fyrst Norðurlandaþjóða til að skipa þennan sess, og fer vel á því. Ég held líka að messan sé áhugasöm um að fá fámenna þjóð með sterka bókmenntahefð eftir þær stórþjóðir sem framundan eru, en það eru Tyrkland, Kína og Argentína."

Þannig að litla Ísland á upp á dekk í Frankfurt?

"Þegar bókmenntir eiga í hlut eru hvorki til stórþjóðir né smáþjóðir. Sjálfstraustið skiptir mestu bæði fyrir höfunda og þýðendur," segir Halldór. "Ég minni á hin sígildu orð Thors Vilhjálmssonar þegar hann var spurður hversu margir byggju eiginlega í Reykjavík: Svona um það bil jafnmargir og í Flórens á tímum Dantes. Við eigum alls kostar á messunni ef þetta er viðhorfið."

Skál fyrir Thor!

Fleyg orð Thors falla svo vel í kramið hjá okkur rithöfundunum að við flýtum okkur að kveðja Halldór og Hólmfríði til að skála fyrir honum. Við erum sammála þeim um að öll dýrin í skóginum þurfi að vera vinir ef Íslendingar hreppa hnossið; rithöfundar, útgefendur, þýðendur, bókagerðarmenn, ráðamenn og allir aðrir sem láta sér annt um íslenska menningu. Svo tökum við aftur til matar okkar og skröfum um að íslenskir útgefendur beri mikla ábyrgð fyrir hönd rithöfunda meðan þeir skima eftir metsölubókum í Frankfurt, enda fæstir íslensku höfundanna með umboðsmann á sínum snærum eins og margir erlendir kollegar þeirra.

Í þessum dúr blaðra ég: "Já, vonandi kynna útgefendur fleiri bækur af þrótti en þær sem má fljótfærnislega stimpla söluvænlegri en aðrar eftir misnákvæmum mælistikum, þá aðallega spennusögur, bækur sem geta orðið bíómyndir og bækur eftir höfunda sem þegar er búið að eyrnamerkja með alþjóðlegum viðurkenningum. Þessar commercial-bækur – eins og íslenskur forlagssölumaður nefndi þær á messunni í tilraun til að telja mér trú um að nýjasta bókin mín ætti best heima á Borðeyri í kommersíalskorti sínum."

Og nokkurn veginn svona hljómar niðurstaða okkar yfir matarborðinu (Hermann er þó á báðum áttum): Sjálfsagt er að leggja mikla áherslu á að selja krimma út í heim og njóta um leið góðs af alþjóðaathyglinni sem stórgóðir íslenskir krimmahöfundar hafa hlotið undanfarin ár. Þó hlýtur að vera hagur okkar allra að leggja líka ríka rækt við að selja fjölbreytt úrval bóka sem ljá þjóðinni margslungið bókmenntaorðspor, jafnvel þótt útgefendur séu misjafnlega stórhuga í erlendum sölumálum. Loks er mikilvægt að ráðamenn hjálpi til við að skjóta á loft fjölmörgum þýðingum sem sýna flóruna í íslenskum bókmenntum. Að öðrum kosti eigum við best heima á gamaldags heimilissýningu – já eða í tímaritadeild í dönsku magasíni – þrátt fyrir alla monníana eftir hina útrásina.

Höfundur er rithöfundur.