Jólaljós Jólamarkaður á Kurfurstendam í Berlín þar sem jólaljósin skína.
Jólaljós Jólamarkaður á Kurfurstendam í Berlín þar sem jólaljósin skína.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Fríðu Björnsdóttur fridavob@islandia.is Jólamarkaðirnir í Þýskalandi eru hreint ævintýri og sá sem sækir slíkan markað heim getur ekki annað en komist í sannkallað jólaskap.

Eftir Fríðu Björnsdóttur

fridavob@islandia.is

Jólamarkaðirnir í Þýskalandi eru hreint ævintýri og sá sem sækir slíkan markað heim getur ekki annað en komist í sannkallað jólaskap. Töluvert hefur verið um að fólk bregði undir sig betri fætinum þegar jólin nálgast og skreppi til Frankfurt eða Berlínar í þeim tilgangi að leita uppi skemmtilega markaði, Weihnachts Markt eða Christkindl Markt, eins og þeir eru kallaðir.

Þegar til þessara áfangastaða íslensku flugfélaganna er komið er ekkert einfaldara en að taka lest eða fara í bílaleigubíl til nærliggjandi borga eða þorpa til þess að sjá líka hvað þar er í boði, t.d. er ekki löng leið með lest frá Frankfurt til Heidelberg, hins aldagamla háskólabæjar. Heidelberg er jafnskemmtilegur bær á veturna og um jólin og hann er á sumrin þegar tré og garðar eru í sumarskrúða og þar er fallegur jólamarkaður.

Alls konar handverk í boði

Venjulega hefjast markaðirnir mánuði fyrir jól en þeir eru settir upp á öllum helstu torgum í borgum og bæjum Þýskalands. Þangað koma handverksmenn, sælgætis- og kökusalar, kertagerðarfólk, hannyrðakonur, veitingamenn og fjölmargir aðrir og setja upp tjöldin sín og bjóða gestum upp á allt það besta sem minnir á jólin og sitt hvað fleira að auki.

Aðalmarkaðurinn í Frankfurt er á Römerberg, fyrir framan gamla Ráðhúsið og hann teygir sig þaðan út í frá á alla vegu. Fátt er skemmtilegra en að rölta milli sölutjaldanna og skoða það sem þarna fæst. Mikið ber á alls konar handverki og menn koma meira að segja með útskurðarvélar og skera eða saga út listaverk sem hægt er að kaupa jafnóðum og þau eru tilbúin. Einn slíkur bauð blaðamanni að kaupa undurfagurt verk, fjárhúsið í Betlehem með jötunni, Jesúbarninu, Maríu mey og Jósep, dýrlingunum og öllum búsmala. Þessi listamaður var með ótalmargt annað og erfitt var að standast freistinguna og kaupa ekki svo mikið að hætta væri á yfirvigt í fluginu heim.

Súkkulaði og Glühwein ylja

Í nóvemberlok og í desember getur verið svolítið ónotalegt utan dyra á þessum slóðum, en jólaglöggið, Glühwein þeirra Þjóðverja, yljar fólki um hjartaræturnar og jafnvel víðar. Sama er að segja um heitt súkkulaði með rjómaslettu út á. Þjóðverjar eru hagsýnir og láta fólk borga fyrir könnuna sem súkkulaðið er drukkið úr, eina evru, minnir mig, en hún er endurgreidd þegar kannan hefur verið tæmd. Hins vegar er þetta skemmtileg leið til þess að eignast einfaldan, ódýran og um leið nytsaman grip til minningar um heimsóknina á markaðinn. Kannan er jólalega skreytt og ber merki markaðarins í Frankfurt.

Í Berlín eru margir og glæsilegir markaðir, m.a. á Potsdamer Platz. Þar eins og annars staðar er margt að sjá. Einnig eru markaðir á Kurfürstendamm, einni aðalverslunargötu borgarinnar og miklu víðar og alls staðar ríkir jólastemning. Jólatónlist er leikin og ilmurinn af jólaglöggi, piparkökum og jafnvel frábærum þýskum pylsum og öðrum bragðmiklum og ilmandi mat fyllir loftið. Þegar fólk hefur gætt sér að kræsingunum eða keypt þær til þess að taka með heim, má ekki láta undir höfuð leggjast að fara í tjöldin þar sem jólakökurnar og marsípanið eru seld. Marsípan er í hávegum haft í Þýskalandi og litlir jólalegir marsípangrísir, rúllutertur úr marsípani og ótalmargt annað spennandi er freisting sem rétt er að leyfa sér að falla fyrir.