Eftir Örn Þórisson
ornthor@mbl.is
Margir Íslendingar kannast við siglingar á skurðum á Englandi og víðar um Evrópu. Fólk er almennt sammála um að slíkar bátsferðir séu ákaflega afslappandi og þægilegar um leið og þær fullnægja sjómannseðli margra án þess að vera of krefjandi.
Í júní sl. fórum við til Skotlands, tvenn hjón, til að láta draum um rólegt og afslappað sumarfrí rætast og um leið upplifa örlitla sjómennsku. Flogið var til Glasgow, bíll leigður og keyrt ákaflega fagra en hægfarna leið norður til Inverness, höfuðstaðar Norður-Skotlands.
Caledonian-skurðurinn liggur frá Norðursjó þvert til Atlantshafs um 100 kílómetra leið sem er að hluta handgerður en að mestu leyti er farið um vötn. Hann var fyrst opnaður 1822 í þeim tilgangi að stytta leið sjófarenda og tryggja öryggi þeirra betur.
Haldið til Fort William
Bátaleigan Caley Cruisers leigði okkur bátinn, sem rúmaði vel tvenn hjón og gæti vel tekið fleiri, sérstaklega börn. Bátaleigan gerir engar kröfur um siglingaréttindi, en það skaðar ekki að útnefna góðan sjómann í skipstjórastarfið, því vissulega er það lúmskt erfitt að stýra myndarlegum bát í örugga höfn.Vistir fyrir ferðalagið voru keyptar í Tesco og báturinn gerður klár. Rétt er að geta þess að bátarnir eru vel útbúnir hvort sem það eru svefnplássin eða eldunaraðstaðan. Varla verður þó komist hjá því að nýta sér fyrirmyndar hreinlætisaðstöðu British Waterways sem eru alls staðar meðfram skipaskurðinum og í höfnum, því vatnsklósett og sturtur um borð duga ekki daglega.
Uppúr hádegi á laugardegi að loknum kynningarfundi, lögðum við af stað ásamt fimm öðrum bátum út skurðinn suður frá Inverness, út á Loch Ness-vatnið. Ferðinni var heitið alla leið niður að Fort William, um 100 kílómetra leið sem m.a. liggur um Loch Ness.
Öldugangur frekar en bægslin í Nessie
Loch Ness er um 40 kílómetra langt vatn (það stærsta á Bretlandseyjum) sem heimsfrægt er fyrir skrímslið Nessie sem ku búa í vatninu. Af og til heyrast sögur af fólki sem sér eða myndar skrímslið og víst er að vatnið hentar ákaflega vel fyrir skrímsli, enda dimmt og djúpt. Bátverjar mega þó frekar búast við öldugangi af völdum vindsins sem leggur gjarnan eftir vatninu en bægslagangi frá Nessie.Fyrstu nóttina var áð í Drummnadrochid, litlu þorpi þar sem notalegir veitingastaðir freistuðu ferðalanga meir en vistirnar úr Tesco. Frá þorpinu er stutt til kastalans, Urquhart, sem allir ferðalangar verða að skoða, en þar er skemmtilegt safn. Í höfnunum hittir maður aðra bátsverja en sumir hafa farið mörgum sinnum í ferðalag á bátum.
Eitt það skemmtilegasta að upplifa í svona bátaferðalagi er að fara í gegnum skipaskurðina, eða lokurnar. Ein sú mesta sem er á vegi manns niður eftir er í Fort Augustus en þar eru 5 lokur og ferðalagið í gegnum þær tekur um klukkustund. Á meðan á því stendur verða bátsverjar að vera samtaka og draga bátinn í gegn þar sem ekki er hægt að láta vélarnar ganga í gegnum skurðinn.
Fort Augustus er annars vinalegur bær með skemmtilegum krám og veitingastöðum að hætti Skota, þar sem viðmótið og léttleiki gestgjafanna ber matargerðina auðveldlega ofurliði. Miðað við þægilegan ferðahraða þá er líklegt að fólk stoppi á niðurleið og heimleið í þessum bæ.
Endastaðurinn í ferðalaginu er Fort William. Lengra verður ekki farið á þessum bátum en skútur og vélbátar geta farið þaðan niður að sjó í skipastiga. Í Fort William er tilvalið að birgja sig upp af vistum og skoða sig um, jafnvel heimsækja viskíverksmiðjuna Ben Nevis, sem er einn af mörgum framleiðendum af þessum eðaldrykk sem er lítt þekktur utan heimalandsins enda duglegastur að framleiða undirstöðuvökvann í blandaðan skota fyrir aðra s.s. Chivas Regal. Það sem verksmiðjuna skortir í gestrisni bætir hún upp í framleiðslunni sem stenst kröfur hörðustu sérfræðinga.
Gott svæði fyrir gönguferðir
Við Fort William eru rætur stærsta fjalls á Bretlandseyjum, Ben Nevis. Allt í kringum það eru ákjósanleg svæði til gönguferða og léttrar fjallgöngu.Það tekur u.þ.b. 3 daga á þægilegri ferð að ná til Fort William, og þannig má ferðast fram og aftur Caledonian-skurðinn til Inverness á einni viku. Leigusalinn er nákvæmur og óskar þess að leigjendur skili bátunum að morgni laugardags og borgar sig að virða þau tilmæli í einu og öllu. Allir bátsverjar voru sammála um að ferðin hefði liðið ótrúlega hratt og hugsuðu til annarra samferðamanna sem voru að fara í sína þriðju ferð, já nú skiljum við í hverju leyndardómurinn er falinn. Þegar er hafinn undirbúningur í huganum að annarri ferð, kannski Frakkland næst?