Grasagarðurinn í Gautaborg er augnayndi fyrir gesti og gangandi. Göngutúr í fallegri náttúru nærir sál og líkama, það finna þeir sem reyna. Skærir haustlitirnir eru nú á undanhaldi og laufin sem hrunin eru af háum trjánum óteljandi. Það kemur ekki á óvart að Grasagarðurinn skuli notaður til að efla heilsu og auka ró í sinni fólks sem hefur upplifað mikla streitu og jafnvel kulnun í starfi.
Mikilvægi náttúrunnar fyrir heilsu og lífsgæði hefur verið vísindalega sannað af sænskum fræðimanni, Ingemar Norling, sem rannsakaði sambandið á milli náttúru, heilsu og lífsstíls á löngum ferli. Á grundvelli rannsókna hans hefur nú verið opnuð endurhæfing í Grasagarðinum fyrir starfsmenn hins opinbera í Gautaborg og nágrenni, fyrst og fremst starfsmenn Sahlgrenska sjúkrahússins. Auk þeirra sem hafa greinst með kulnunareinkenni, koma hópar starfsmanna í fyrirbyggjandi skyni, sem og stjórnendur, til að fá fræðslu um einkenni streitu og heilsueflandi aðgerðir.
Upphaf Grænu endurhæfingarinnar, eins og verkefnið kallast, má rekja til ársins 2000 þegar líffræðidoktorinn Eva-Lena Larsson var ráðin af Grasagarðinum í fræðilegt verkefni um tengsl náttúru og heilsu. Fjórum árum síðar bauðst henni að flytja kenningarnar yfir í raunveruleikann og setja af stað tilraunaverkefni. Hún lét ekki segja sér það tvisvar og setti saman teymi sem enn vinnur við verkefnið.
„Rannsóknir Ingemars voru góður grunnur og verkefnið lofar mjög góðu,“ segir hún.
Sálgreinir, garðyrkjumeistari, sjúkraþjálfari, iðjuþjálfi og líffræðingur mynda teymið sem annast endurhæfinguna. „Við vinnum mjög vel saman og það er ekki svo að hver og einn sjái bara um sinn geira. Líffræðingurinn og garðyrkjumeistarinn hafa mikinn áhuga á fólki og sjúkraþjálfarinn, sálgreinirinn og iðjuþjálfinn hafa mikinn áhuga á náttúru og útivist. Það er forsenda þess að samvinna af þessu tagi gangi upp,“ segir líffræðingurinn Eva-Lena.
Flestir aftur út á vinnumarkaðinn
Skógur umlykur lítið hús í útjaðri Grasagarðsins þar sem starfsemin fer fram og í næsta nágrenni eru frístundagarðar fyrir almenning. Hóparnir mæta á hverjum degi. Fyrir hádegi er dagskrá fyrir þá sem eru í veikindaleyfi vegna streitu og kulnunar í starfi og eftir hádegi mætir hópur starfsmanna Sahlgrenska sjúkrahússins sem skilgreindur hefur verið í áhættu og fær fyrirbyggjandi fræðslu.Aðeins fáir geta tekið þátt í verkefninu í einu því hver hópur fólks með einkenni streitu og kulnunar er að hámarki átta manns. Endurhæfingartíminn er þrír mánuðir með mögulegri framlengingu í sex mánuði en seinni þrír mánuðirnir fara í að finna þátttakendunum stað á vinnumarkaðnum að nýju eða í námi, að sögn Evu-Lenu. Verkefnið hefur skilað góðum árangri því af 25 manns sem hafa farið í gegnum það, hafa allir nema einn farið aftur út á vinnumarkaðinn eða í nám. Og þá er vert að hafa í huga að þetta fólk átti að meðaltali að baki fjögurra ára fjarveru frá vinnu sökum streitu og kulnunar í starfi, áður en það byrjaði í Grænni endurhæfingu.
Alls starfa um 50 þúsund manns hjá hinu opinbera í Gautaborg og nágrenni og þar af eru starfsmenn Sahlgrenska sjúkrahússins um 17 þúsund.
„Vinnutengd streita er algeng meðal sjúkrahússtarfsmanna, meðal annars vegna vaktavinnu, mikils vinnuálags, undirmönnunar og þar að auki utanaðkomandi þátta sem geta aukið álagið enn frekar eins og veikinda barna eða foreldra,“ segir Eva-Lena. Hún leggur áherslu á að vinnutengd streita heilbrigðisstarfsmanna eigi ekki síst rætur að rekja til skipulagsbreytinga sem hafa verið daglegt brauð á mörgum sjúkrahúsum í anda hagræðingar síðustu hátt í tveggja áratuga.
Kenningarnar um samband náttúru og streituþols ganga m.a. út á að útiveru fylgir alltaf hreyfing, að sögn Evu-Lenu. „Það eru meiri líkur á að hreyfing verði reglubundin ef áhugamálið krefst útivistar. Áhugamálið getur til dæmis verið hundur, garðyrkja eða veiði. Útiveran og þar með hreyfingin leggur grunninn að heilbrigðara lífi. Þreyta, verkir, erfiðleikar við einbeitingu, þunglyndi og fleiri streitueinkenni minnka þegar við hreyfum okkur reglubundið.
Á þessu byggir verkefnið Græn endurhæfing. Á dagskránni eru gönguferðir og garðyrkja, auk þess samtöl, afslöppun, æfingar og myndmál. Venjulegur dagur hjá hópnum sem er í veikindaleyfi vegna kulnunar í starfi hefst kl. 9 með mjúkri lendingu í kaffi.
„Margir eiga fullt í fangi með að koma sér á staðinn. Þeir hafa kannski verið veikir heima lengi og eru komnir út úr allri rútínu. Þá er mikilvægt að lendingin sé mjúk. Við sitjum og spjöllum smástund áður en eitthvað skipulagt hefst í garðinum sem tengist hverri árstíð,“ segir Eva-Lena.
Sálgreining í gróðurhúsi
Er viðtalið fór fram var búið að vera að vinna í haustverkunum; taka upp matjurtir, raka lauf og búa garðinn undir veturinn. Síðan tekur við að höggva í eldiviðinn eða flétta lítil grindverk svo dæmi séu tekin. Aðrar árstíðir eiga önnur verk s.s. að reyta arfa eða sá fræjum. En þurfa þátttakendurnir ekki að hafa brennandi áhuga á garðrækt?„Ekki endilega. Margir fá áhuga í leiðinni en flestir hafa hann að einhverju marki. En það er nauðsynlegt að þátttakendurnir vilji vera úti til að verkefnið virki.“
Hver og einn getur stjórnað því hvað hann eða hún vill gera. Sumir vilja taka ærlega til hendinni með því að endurskipuleggja beð eða höggva í vænan viðarstafla. Aðrir vilja flétta lág grindverk eða reyta arfa á afmörkuðu svæði. Allir geta fengið verkefni við hæfi og garðurinn er skipulagður þannig að vinnustöður séu þægilegar. Maður þarf t.d. ekki að bogra yfir öllum beðum heldur er hægt að sitja á steinkanti eða standa á næstu flöt fyrir neðan.
Eftir góða stund í garðinum kennir sjúkraþjálfarinn afslöppunartækni eða fræðir og ræðir um svefn í hópnum. Þátttakendurnir fá einnig einstaklingsviðtöl við sálgreini og þar kemur gróðurhúsið í garðinum sterkt inn. Lítið borð með tveimur stólum innan um gúrkur og paprikur í litlu sætu gróðurhúsi getur verið ágætis vettvangur til að létta á hjarta sínu.
„Svo notum við líka myndmál þannig að þátttakendur mála eða teikna með því markmiði að skilja sjálfa sig betur en þurfa ekki endilega að útskýra fyrir öðrum,“ segir Eva-Lena.
Grasagarðurinn sjálfur er svo notaður til gönguferða. „Þá reynum við að opna augu þátttakendanna fyrir því að náttúran er ekki bara grænt teppi eða einhver tré. Við skoðum náttúruna nánar og lærum eitthvað nýtt. Hér getur fólk upplifað samhengi manns og náttúru með nýjum hætti og það hefur góð áhrif.“