Undarlegar hugrenningar eiga til að koma upp í huga okkar þegar við heyrum talað um Eystrasaltslöndin, kannski sér í lagi Litháen. Fríða Björnsdóttir greip því tækifærið þegar hún átti leið til þessa ágæta lands og heimsótti og tók tali tvær ungar litháskar stúlkur sem eru stoltar af landi og þjóð og dreymir ekki um að flytjast til Íslands!
Hugmyndin að heimsókninni kviknaði þegar Solveiga Urboniene, sem búið hefur á Íslandi í sex ár, skrifaði grein í Morgunblaðið. Hún talaði um fordómana gagnvart Litháum og sagði: Ég er frá Litháen. Já, Litháen! Landinu þaðan sem eiturlyfin koma, landinu þaðan sem þjófarnir koma, landinu sem hefur slæm meðmæli frá Íslandi. Ég stel ekki og ég sel ekki eiturlyf en samt verð ég að hlusta á fordóma um mig, landa mína og landið mitt. Af hverju?
Frænka Solveigu heimsótt
Listakonan Sonata Orde er frænka Solveigu og býr í Ukmerge. Þangað heimsótti ég hana fyrir tilstilli Solveigu og vinkonan, Jurgita Putiene almannatengill, sem býr og starfar í Vilníus, ók mér. Jurgita og Sonata vissu ástæðuna fyrir heimsókninni og þeim var síður en svo skemmt enda báðar stoltar af landi og þjóð. Þær taka undir orð Solveigu sem segir: Ég get ekki borið ábyrgð á öllum.Ukmerge er 30.000 manna bær klukkutíma akstur frá Vilníus. Jurgita fræddi mig á leiðinni um land og þjóð. Ég spurði hver væru laun kennara í Litháen og hún sagði að grunnskólakennari fengi sem svarar 52.000 kr. á mánuði en háskólakennari helmingi meira, um 104.000 kr. „Hins vegar getur þurft að greiða málara tvöföld háskólakennaralaun. Þeir eru orðnir svo fáir hér, flestir fluttir til annarra landa. Þeir sem eftir eru setja upp himinháar upphæðir fyrir vinnu sína. Fjöldi fólks með góða menntun er flutt úr landi, fólk sem við þurfum á að halda hér heima.“
Aðspurð um húsnæðismálin sagðist hún hafa keypt u.þ.b. 50 fm íbúð fyrir þremur árum á 2,6 milljónir. Hún hefði nú þrefaldast í verði. Mikið hefði verið byggt í Vilnius að undanförnu en nýjustu byggingarnar væru margar hverjar illa byggðar. „Það er því betra að kaupa eldra húsnæði en alveg nýtt.“
Listakonan í Ukmerge
Sonata býr á efstu hæð í fimm hæða blokk með manni sínum Saulius, sem er framkvæmdastjóri bifreiðaverkstæðis, og syninum Saidis. Ekki er mikið í stigauppganginn borið, steinsteyptir stigar án dúks eða teppa. Íbúðin hennar Sonötu er svo sannarlega falleg og stenst fyllilega samanburð við íslensk heimili og ber merki þess að þarna býr listakona.Uppdekkað borð beið gesta með ríkulegu góðgæti, tertu og diskum hlöðnum snittum. Ekki var við annað komandi en að rauðvíni væri hellt í glös og síðan var borið fram kaffi. Við ræðum veitingarnar og heyrum að terta kallast torta í Litháen. Sonata segir okkur að hún kunni eitt íslenskt orð, kaka, en það hefur hún lært af frændfólki sínu sem býr á Íslandi.
Þær Jurgita og Sonata eru 28 ára gamlar og hafa verið vinkonur frá barnæsku og vinskapurinn haldist þótt Jurgita sé flutt til Vilnius. Sonata og fjölskyldan er tiltölulega nýflutt; íbúðin er þrjú svefnherbergi, stofa og eldhús út frá henni. Eldhúsinnréttingin er falleg og gaseldavélin og ofninn úr burstuðu stáli. Sonata hefur látið útbúa sérstakar höldur á fjórar skúffur, í formi gaffals, hnífs, matskeiðar og teskeiðar. Þetta er góð hugmynd sem gagnast vel því maðurinn hennar, eins og flestir karlmenn, veit aldrei hvar á að láta eða finna hnífapörin. Nú er engin leið að villast á skúffum.
Afinn var listamaður
Allt frá barnæsku ólst Sonata upp í návist listaverka. Afi hennar var mikill listamaður og amman hafði mjög gaman af blómum og bjó margt fallegt til úr þeim. Sjálf fór Sonata að mála strax á unga aldri. Nú málar hún verk sem hún byggir að hluta til á litháskum hefðum og jafnvel þjóðsögum. Hún er líka mikil textílkona og sýnir okkur textílmyndverk og mottur og stóra trefla sem hún er að prjóna. Að auki hefur hún gert mikið af því að hanna töskur og svo aukahluti, nælur, sem gaman er að nota í jakkann, á trefilinn, í húfuna eða jafnvel á skóna. Jurgita segir að þessar nælur séu svo eftirsóttar að Sonata hafi ekki undan að búa þær til. Þær eru úr silki og skreyttar með náttúrusteinum, perlum og Swarovski-steinum.Sonurinn Saidis er sjö ára, nýbyrjaður í fyrsta bekk í barnaskólanum. Hann sýnir okkur stoltur hvítu rottuna sem hann fékk nýverið í afmælisgjöf. Þegar hrollur fer um gestina eru þær stöllur fljótar að sannfæra okkur um að þetta sé ekki venjuleg rotta, heldur tilraunarotta, hvít með rauð augu. Halinn er samt hárlaus og hrollvekjandi í meira lagi! Saidis sýnir líka herbergið sitt, stórt, bjart og búið góðum húsgögnum. Svefnherbergi foreldranna er athyglisvert því þar má sjá list Sonötu. Hún hefur málað trjágrein á einn vegginn. Hún er svo lifandi að erfitt er að greina hvort hún sé raunveruleg eða bara málverk. Á blöðunum eru steinar sem glitra eins og daggardropar þegar halógenljósgeislarnir falla á tréð á kvöldin. Á rúminu er bútasaumssilkiteppi og á veggnum er tauklædd plata. Sonata segist vera að hugsa um að mála mynd á plötuna.
Á síðasta ári fór Sonata til Friedberg í Þýskalandi og sýndi þar verk eftir sig. Hún er með verk til sölu í galleríum bæði í Vilnius og Ukmerge og hefur haldið sýningar og langar til að gera það árlega. Nú ráðgerir hún jafnvel að koma til Íslands næsta sumar svo hver veit nema við eigum eftir að sjá eitthvað eftir hana hér. Enn sem komið er vinnur hún heima en dreymir um að eignast vinnustofu. Kosturinn við að vinna heima er að maðurinn hennar, hennar besti dómari, fylgist með því sem hún gerir. „Ég hlusta stundum á hvað hann segir og fer eftir því en ég er heldur ekkert sérlega ánægð með dóma hans, svona alltaf,“ segir Sonata hlæjandi