Inga R. Bachmann skartgripahönnuður á gullsmíðaverkstæði sínu en þar er mikið að gera á aðventunni.
Inga R. Bachmann skartgripahönnuður á gullsmíðaverkstæði sínu en þar er mikið að gera á aðventunni. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenskir námsmenn reyna flestir að komast heim um jólin en þó eru alltaf einhverjir sem dveljast fjarri fjölskyldunni í fjarlægu landi. Inga R. Bachmann var fjögur ár við nám í skartgripahönnun í Barcelona á Spáni og Fríða Björnsdóttir ræddi við hana um siði og venjur þar í landi.

Fyrstu jólin dvaldist Inga í Barcelona með Eyþóri Inga Eyþórssyni, sambýlismanni sínum, sem var þar líka við nám. Hún segir Spánverja gjarnan borða saltfisk á jólunum en líklega dytti fáum það í hug hér heima.

„Þetta fyrsta ár áttum við ekki eins marga spænska vini og við eigum nú svo við fengum vinafólk okkar frá Íslandi í heimsókn. Samt reyndum við að halda upp á jólin á spænskan máta, elda spænskan mat og borða spænska nammið „turron“.

Við áttum þó eftir að kynnast jólunum enn betur síðar og gerði ég mér þá grein fyrir því að aðalhátíðin er reyndar 6. janúar, á degi vitringanna þriggja, þeirra Kaspers, Melkiors og Baltasars. Á jóladag er ekki eins mikið um hátíðahöld. Vitringarnir, eða Los Reyes, eins og þeir heita á spænsku, fara um borgina og kasta sælgæti til fólksins og það eru þeir sem koma með gjafirnar, en ekki jólasveinninn eins og hér hjá okkur.“

Engin jólatré en sérstakur trjábolur

Inga segir að yfirleitt séu Spánverjar ekki með jólatré. „Í Katalóníu er hins vegar furðulegur siður sem tengist Tio caca. Tio þýðir frændi og cacar þýðir hvorki meira né minna en að kúka, og finnst líklega mörgum heldur óskemmtilegt að tengja þetta jólunum. En bíðið við: Tio caca er trjábolur en andlit hefur verið málað á annan enda hans. Bolurinn stendur á tréfótum og yfir hann er breitt teppi og á hann er settur hattur. Þar sem Tio caca stendur í stofunni koma börnin með prik í hendi og berja hann aftur og aftur og syngja lög sem segja honum að kúka og svo þegar einhver læðist með höndina inn undir teppið kemur hann út með hverja smágjöfina af annarri. Þessu fylgir mikil kátína og gleðskapur en rétt er að nefna að stóru gjafirnar koma svo frá vitringunum á þrettándanum.

„Turron-ið“ er aðalnammið á þessum slóðum og kemur í búðir í lok nóvember og er bara borðað um jólin. Til er tvenns konar „turron“; hart með heilum möndlum og einnig mjúkt og þá er það búið til úr muldum möndlum og hnetum. Það er upprunnið í Jijona og kallast Turron de Jijona. Nú er reyndar farið að búa til turron-ís og einnig turron með t.d. smartís fyrir krakkana en þetta hefðbundna er alltaf best.“

Freyðivín er hátíðarvínið

Barcelonabúar og Katalónar yfirleitt eru mikið fyrir freyðivín að sögn Ingu og það er aðalhátíðarvínið, bæði drukkið um jól og áramót. „Misjafnt er hvað er í jólamatinn en sumar fjölskyldur borða saltfisk, „bacalao“, en aðrar kjöt. Fjölskylda vinkonu minnar borðaði saltfiskinn alltaf hráan en marineraðan. Ein jólin bað hún mig að koma með saltfisk frá Íslandi svo ég fór til fisksalans í hverfinu hérna heima og fékk saltfiskflök sem fólkið borðaði af bestu lyst og pabbinn, sem eldaði alltaf saltfiskinn á því heimili, sagði að þessi fiskur væri sá besti sem hann hefði nokkurn tímann fengið.“

Ilmurinn í loftinu í Barcelona er svo sannarlega jólalegur að sögn Ingu. Þar er mikið af reykelsi, myrru og síðast en ekki síst grilluðum kastaníuhnetum. „Þegar fer að kólna úti koma kastaníugrillararnir, oft eldri hjón, með tunnur og steikja hneturnar og fólk kaupir af þeim kramarhús full af hnetum. Þetta fólk brennir líka oft myrru við grillið og ilminn leggur um allt auk þess sem fólk er að selja myrru úti á götu. Þetta er hinn sanni jólailmur og borgin ilmar öll.

Eitt er öðruvísi á Spáni en hér. Fólk skreytir ekki mikið inni hjá sér um jólin en hins vegar eru íburðarmiklar skreytingar á stærstu götunum. Í Gracia, hverfinu þar sem ég bjó, var lítið um ljós en þar eins og víða annars staðar er marglitt pappírsskraut hengt utan á húsin sem gerir allt mjög jólalegt. Okkur fannst líka gaman og jólalegt að fara á marokkóskt kaffihús sem var þarna rétt hjá. Reyndar var þar ekkert sem minnti á jólin á okkar hefðbundna hátt, enda voru eigendurnir múslimar, en þarna var hægt að fá það sem okkur fannst vera jólate, alls konar kryddað te með kanil og öðru kryddi sem minnti okkur á jólin þótt þeir sem kaffihúsið ráku væru auðvitað ekki að framreiða þetta te í tilefni af jólunum.

Churros með súkkulaðidýfu

Svo er líka hefð að setjast inn á gamaldags kaffihús þegar fólk er úti að kaupa jólagjafir og fá sér „churros“ með súkkulaðidýfu og heitt kakó með rjóma. Þetta eru lengjur, steiktar í olíu, og með þeim er borið fram þykkt súkkulaði í bolla. Lengjunum er stungið niður í súkkulaðidýfuna og svo er drukkið súkkulaði með.“

Áramótin voru Ingu erfiðari en jólin og þá fann hún fyrir smáheimþrá, ef til vill vegna þess að þá er ekkert um flugelda eins og við eigum að venjast. „Við fórum einu sinni sem oftar á veitingastað á gamlárskvöld og þar vann ég happdrættisvinning, ferð með báti til Mallorca páskana á eftir. Þetta hljómaði vel en ferðin, sem átti ekki að taka nema þrjá tíma, tók sex og það sem verra var, það var mjög slæmt í sjóinn alla leiðina og svo reið brotsjór yfir bátinn, vélin stöðvaðist og honum hvolfdi næstum því. Við komumst þó á leiðarenda en þegar kom að heimferðinni var haft samband við okkur og sagt að báturinn væri ónýtur og við ættum að fljúga til baka. Ég hef ekki tekið þátt í happdrætti síðan!“

Turron de jijona –

mjúkt hnetunúggat

100 g afhýddar möndlur

100 g heslihnetur

2 stórar eggjahvítur

100 g hunang

100 g sykur

1 tsk. kanill

Setjið smurðan bökunarpappír innan í aflangt mót. Látið nægilega mikið af pappírnum standa upp úr öðrum megin til að hægt sé að leggja hann yfir formið í lokin. Ristið hneturnar í u.þ.b. 15 mínútur við 140ºC, þar til þær eru orðnar fallega brúnar.

Malið þær í kvörn eða myljið í mortéli eða blandara. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið saman við hneturnar í skál. Setjið hunang og sykur í pott. Hrærið vel saman og leyfið suðunni að koma upp. Setjið hnetublönduna út í og einnig kanilinn. Látið malla í tíu mínútur á miðlungsheitri plötunni og hrærið stöðugt í á meðan. Hellið blöndunni í formið og setjið pappírinn yfir hana. Skerið pappaspjald í stærð formsins og leggið yfir pappírinn. Setjið einhvern þungan hlut ofan á pappaspjaldið og látið formið standa óhreyft í tvo daga. Úr uppskriftinni koma um 300 g af turron de jijona sem er eitthvert besta og vinsælasta góðgæti á Spáni.

Churros con chocolate

matar- eða ólífuolía

1 bolli vatn

1/2 bolli smjörlíki eða smjör

1/4 tsk. salt

1 bolli hveiti

3 egg

1/4 bolli sykur

1/4 tsk. kanill

Hitið olíuna upp í rúmlega 200ºC í potti eða pönnu, ekki meiri en svo að hún sé 2,5 til 3 sm á dýpt í pottinum. Hitið vatnið, smjörlíkið og saltið að suðu í potti, hrærið hveitinu út í. Lækkið hitann og hrærið af krafti þar til deigið fer að mynda litlar kúlur. Takið þá pottinn af hellunni. Þreytið eggin og þegar eggjaþeytan er orðin mjúk bætið henni þá út í deigið í pottinum og hrærið vel í á meðan. Setjið deigið í sprautupoka með stórum stút, eins og þegar verið er að skreyta kökur. Sprautið 10 sm löngum deiglengjum út í heita olíuna. Hæfilegt er að steikja 3-4 lengjur í einu þar til þær eru orðnar fallega brúnar, um tveir mínútur á hvorri hlið. Snúið þeim einu sinni á meðan á steikingunni stendur. Leggið lengjurnar á eldhúspappír. Blandið saman sykri og kanil og veltið churros upp úr blöndunni.

Churros-súkkulaðidýfa

120 g dökkt súkkulaði, saxað

2 bollar mjólk

1 msk. kartöflumjöl

4 msk. sykur

Setjið súkkulaðið og helminginn af mjólkinni í pott, hitið og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað. Blandið kartöflumjölinu saman við afganginn af mjólkinni og hristið eða hrærið vel og hrærið því svo saman við súkkulaðið og bætið um leið sykrinum út í. Sjóðið við lágan hita. Hrærið stöðugt í pottinum þar til súkkulaðið fer að þykkna, í u.þ.b fimm mínútur. Það gæti þurft að bæta meira kartöflumjöli út í ef blandan þykknar ekki nægilega. Takið pottinn af plötunni en haldið áfram að hræra. Borið fram í bolla eða sk ál og dýfið churros í en hellið súkkulaðiblöndunni ekki yfir churros. Berið fram heitt.