Eftir Padraig Mara padraig@hi.is !Við hverju má búast þegar maður innritar sig á nýtt hótel? Hlutlausum litum, lyktinni af hreingerningalegi og nýþvegnum þvotti. Húsgögnum sem stinga ekki í augu og eru valin eftir notagildi.

Eftir Padraig Mara

padraig@hi.is

!Við hverju má búast þegar maður innritar sig á nýtt hótel? Hlutlausum litum, lyktinni af hreingerningalegi og nýþvegnum þvotti. Húsgögnum sem stinga ekki í augu og eru valin eftir notagildi. Málverk sem uppfylla tilgang sinn með því að vekja engar tilfinningar í brjósti þeirra sem á horfa. Þetta á, að mestu leyti, við sama hvert er farið, frá Kína til Kanada og yfir til Kamerún og allt er þetta með vilja gert. Hóteliðnaðurinn ákvað það fyrir löngu að ferðalangar vildu snyrtilegan griðastað sem minnti ekki á neitt sérstakt eða nokkurn sérstakan stað. Herbergi og rúm sem gæti verið hvar sem er, gæti verið alls staðar.

Hótel Chelsea í New York, betur þekkt sem The Chelsea Hotel, sneiðir alfarið hjá þessari sótthreinsuðu tísku. Byggingin sjálf svignar undan sögulegum þunga. List, gömul jafnt sem ný, þekur alla ganga. Í herbergjunum finnur maður völundarhús af sprungum, dældum og flagnandi veggfóðri. Hótel Chelsea auglýsir sig sem „viðkomustað fyrir einstaka einstaklinga“, og óneitanlega hefur fjöldi merkilegra listamanna kallað hótelið heimili sitt í gegnum tíðina, allt frá Brendan Behan til Milos Forman, og mikið hefur verið gert úr því hvernig hótelið stuðli að listsköpun. Hvað sem það nú þýðir. Maður spyr sig, hvernig hótel (sem rukkar 150 dali fyrir nóttina), eða nokkur annar staður, geti eignað sér verk þeirra sem læðast þar um gangana.

Í augum Chandlers var Los Angeles sveipuð dulúð, of mikilfengleg og subbuleg til að geta verið af þessum heimi. Dublin var skáldagyðja Joyce og hans versti óvinur. Hann reyndi að yfirgefa hana en hún yfirgaf hann aldrei. Orhan Pamuk átti sína Istanbúl og William Kennedy valdi sér Albany, líklega vegna þess að enginn annar vildi neitt með borgina hafa. En hvað hefur hótel upp á að bjóða, sem gæti vakið skáldagáfuna? Chelsea-hótelið heldur í hefðina, innan veggja þess er að finna New York sem nú hefur, að mestu, horfið. Það var byggt í lok 19. aldar og var eitt af fyrstu fjölbýlishúsunum í borginni. Hönnun hússins er áþekk öðrum risum sem er að finna á austurströnd Bandaríkjanna, aðalinngangurinn gæti verið fenginn úr hvaða St. Aidan eða Lady of Mercy frá Gunhill Road til Hoboken. Þarna er engin herbergisþjónusta, enginn matur yfir höfuð, enginn minibar, engin MTV-áveita inn í herbergin (nokkuð sem þeir hreykja sér af í auglýsingum). Ósamstæð húsgögnin, gömul og ný, liggja óttaslegin, umkringd gifsveggjum sem svigna undan hverju málningarlaginu á fætur öðru. Lyftan æpir og bilar í sífellu og á baðherbergjunum eru sprungurnar eins og köngulóavefur á flísainnréttingunni.

Þarna má enn finna fyrir gamla, slæma andanum, frá þeim tíma þegar menn fóru á Time Square til að verða sér út um fölsuð skilríki og kynlífsþjónustu á kostakjörum, þegar menn keyptu sér heróín í austurhluta borgarinnar, ekki dýrt kaffi. Ljóðskáld, listmálarar, leikstjórar og tónlistarmenn gista enn Chelsea-hótelið þó að það sé ekki lengur nándar eins ódýrt, en nú endurspeglar það ekki lengur raunveruleikann utan veggja. Dansinn sem þar dunar er ekki dansaður lengur. Kannski er það öll þessi saga, öll þessi orð sem þarna voru rituð, allar þessar uppákomur, allir þessir söngvar og allt það blóð sem þarna var úthellt (mörg morð, mörg sjálfsmorð), kannski eru það þessir draugar sem nú veita mönnum innblástur. Kannski er það starfsfólkið, sem hefur ekki of miklar áhyggjur af því að bjóða góðan daginn eða elta fólk á röndum, og leyfa þér, andskotinn hafi það, að gera það sem þú þarft að gera. Eða kannski eru það þykku veggirnir sem halda hávaðanum úti, og leku gluggarnir sem hleypa umferðarómnum inn.