Garndræsan, www.yarnharlot.ca „Prjónakonur og -karlar hafa breitt úr sér á netinu síðustu ár. Fólk sem prjónar veit vel að það gildir það sama um prjónaskap og mörg önnur áhugamál, þeim sem ekki til þekkja finnst hann vera hreinasta tímasóun og jafnvel frekar gamaldags.“
Garndræsan, www.yarnharlot.ca „Prjónakonur og -karlar hafa breitt úr sér á netinu síðustu ár. Fólk sem prjónar veit vel að það gildir það sama um prjónaskap og mörg önnur áhugamál, þeim sem ekki til þekkja finnst hann vera hreinasta tímasóun og jafnvel frekar gamaldags.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Önnu Kristínu Jónsdóttur anna.kristin.jonsdottir@gmail.com Stephanie Pearl-McPhee er frekar grannvaxin kona á miðjum aldri. Ég hef aldrei hitt hana en veit samt ýmislegt um þessa konu.

Eftir Önnu Kristínu Jónsdóttur

anna.kristin.jonsdottir@gmail.com

Stephanie Pearl-McPhee er frekar grannvaxin kona á miðjum aldri. Ég hef aldrei hitt hana en veit samt ýmislegt um þessa konu. Ég hef séð af henni myndir, þetta er lítil kona með gleraugu og frekar strítt og hrokkið hár. Hún býr í Toronto með manni sínum og dætrum og fæst þar við skriftir og hannyrðir. Pearl-McPhee er ein af þeim mýgrút af fólki sem býður alla velkomna til sín í netheimum. Heimboðið er reyndar sérstaklega ætlað þeim sem eru jafn helteknir af hannyrðum, prjónlesi og spuna og hún. Pearl-McPhee er nefnilega spunakerling í orðsins fyllstu merkingu. Hún vekur líklega sjaldan athygli fyrir klæðaburð sinn, það er helst að einhver taki eftir því að hún sé með fallegt sjal, í vel prjónaðri peysu, ja eða í alveg sérstaklega flottum sokkum. Í fjögur ár hefur hún bloggað um hannyrðir og heimilislífið í Toronto og þó að hún sé ekki mikil fyrir mann að sjá er hún stórstjarna í heimi innvígðra. Hún er nefnilega óskoraður leiðtogi, drottning og gyðja þeirra sem fást við þræði og ull. Á hverjum degi heimsækja þúsundir bloggið hennar og fjöldinn skilur eftir athugasemdir. Hún hefur safnað mörg hundruð þúsund dölum til að styrkja Lækna án landamæra og í fyrra stóð hún fyrir prjónaólympíuleikum. Fjögur þúsund þátttakendur kepptust við að prjóna heila flík á sextán dögum á meðan vetrarólympíuleikarnir fóru fram í Torino.

Prjónakonur og -karlar hafa breitt úr sér á netinu síðustu ár. Fólk sem prjónar veit vel að það gildir það sama um prjónaskap og mörg önnur áhugamál, þeim sem ekki til þekkja finnst hann vera hreinasta tímasóun og jafnvel frekar gamaldags. Eiginlega er alltaf fljótlegra, auðveldara og ódýrara að kaupa sér sokka, peysu, trefil, sjal, húfu eða teppi svo fátt eitt sé nefnt af því sem hægt er að prjóna. Þetta sjá þeir sem prjóna alveg eins vel og aðrir. Prjónaskapur getur heltekið mann. Það er gaman að velja garn, finna uppskrift og fitja upp. Vissulega er líka gaman að fella af þegar verki er lokið en víst er það upphafið, fitin sem flestum prjónafíklum þykir sælust.

Þegar búið er að fitja upp kemur það ósjaldan fyrir að fólk lendir í endemis flækjum, veit ekki alveg hvernig á að prjóna hæl, ganga frá ermi, taka úr, auka út og svo framvegis. Netið býður einmitt upp á ótal möguleika til að leita ráða og aðstoðar ef fólk er strand. Ekki má gleyma montþættinum, það er hægur vandi að smella mynd af meistaraverkinu þegar búið er að fella af, setja inn á netið og sjá til hvort ekki finnst fleirum en manni sjálfum, þetta alveg einstaklega vel prjónað.

Íbúar í prjónasamfélaginu á netinu eru einmitt alveg afskaplega rausnarlegir á hól og uppörvandi athugasemdir. Þar virðist alltaf vera einhvern að finna sem er á því að handbragðið á peysunni sé alveg frábært, hællinn sniðuglega til fundinn og garn og litur vel við hæfi. Á netinu má líka finna samfélög og skiptimarkaði. Hægt að auglýsa t.d. eftir murðuðu garni í grábláum tón. Viðkomandi vantar bara eina dokku svo hægt sé að klára seinni ermina á peysu sem var fitjað upp á fyrir fimm árum. Því miður er hætt að framleiða garnið, það var keypt svona sjö árum fyrr. Við svona og álíka spurningum er oft hægt að sjá jákvæð svör. Og ekki má gleyma ítarlegum leiðbeiningum um það hvernig má lita garn með Kool-aid svaladrykkjardufti. Þetta dýrindis duft fæst í ótal bragðtegundum og ákaflega skræpulegum litum sem eru líklega huggulegri á garni en í görnum.

Í heimi netprjónsins líkt og víðar í bloggheimum velta menn fyrir sér nafngiftum og yfirskriftum. Prjónandi bloggarar eru afskaplega veikir fyrir yfirskriftum sem minna á orðaforða í prjónaskap, þar er snúið, brugðið og undið.

Það er eiginlega synd að Pearl-McPhee skuli ekki blogga á íslensku. Hún bloggar undir yfirskriftinni www.yarnharlot.ca, garndræsan. Pearl-McPhee hefur gefið út nokkrar bækur þar sem hún tvinnar saman leiðbeiningar um prjónaskap, gamansögur og uppskriftir. Á blogginu segir hún oft frá samkomum þar sem hún talar og fólk flykkist að. Frásagnirnar eru oft skreyttar myndum af ferðasokknum í höndum fólks sem hún hittir á ferðalögunum. Ferðasokkurinn er sá sokkur sem er á prjónunum hjá henni hverju sinni.

Þessar myndir af ferðasokknum hafa orðið fleirum innblástur og nú í vikunni mátti sjá bandaríska stjórnmálamanninn Barack Obama halda á sokk fyrir ákafan prjónabloggara. Stringactivity.blogspot.com stóðst ekki mátið og bað frambjóðandann að sitja fyrir með sokk á fundi í Illinois. Obama brást vel við og hélt sokknum á loft. Þótt myndin hafi ekki tekist neitt sérstaklega vel endar sokkurinn kannski í Hvíta húsinu og þegar hefur á annað hundrað prjónabloggara dáðst að tilburðum ljósmyndarans.