Horft á mannlífið Yfir hlýrri mánuðina situr fólk gjarnan úti á veröndum kaffihúsanna og virðir fyrir sér mannlífið um leið og það slakar á.
Horft á mannlífið Yfir hlýrri mánuðina situr fólk gjarnan úti á veröndum kaffihúsanna og virðir fyrir sér mannlífið um leið og það slakar á. — Ljósmynd/ Hanna
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ítalíu er lystaukahefðin „aperitivo“ samgróin menningunni.

Á Ítalíu er lystaukahefðin „aperitivo“ samgróin menningunni. Hér er í raun um að ræða hið klassíska eftirmiðdagssnarl almennings, „merenda“, og smáréttirnir sem hér um ræðir eiga rætur að rekja til ítalsks götumatar sem Hanna Friðriksdóttir segir að sé eins fjölbreyttur og héruð landsins eru mörg.

Í Piemonte hefur löngum ríkt sterk lystaukahefð, en fyrir fáeinum áratugum myndaðist svo ákveðin tíska í kringum aperitivo-hefðina í Mílanó. Lystaukastundin hefur því fest sig í sessi sem viðbót við þau tækifæri sem fólk notar til að koma saman yfir mat og drykk, en slíkar samverustundir eru einkennandi fyrir „il buon vivere italiano“, eða hina góðu ítölsku lifnaðarhætti. Fólk hittist á bar eftir vinnu og slakar á spennu dagsins yfir léttáfengum drykk (ekki er óalgengt að menn fái sér aperitivo 2-3 sinnum í viku).

Yfir hlýrri mánuðina, þ.e. frá vori fram eftir hausti, situr fólk úti á veröndum kaffihúsanna og virðir mannlífið fyrir sér í leiðinni. En athugið að vínið er aldrei drukkið eitt og sér og staðirnir bjóða ætíð upp á ýmsa smárétti með fordrykknum sem eru semsagt innifaldir í verði drykkjarins á hinum svolkallaða aperitivo-tíma eða u.þ.b. frá kl. 18-20 (verð á aperitivo er yfirleitt á bilinu 4-10 evrur). Um er að ræða allt frá litlum pítsum, snittum og ólífum til veglegra pasta- og hrísgrjónasalata.

Órjúfanlegur hluti fordrykkjarins

Þegar rætt er um ákjósanlegustu staðina fyrir fordrykkjarserimóníuna, l'aperitivo, eru þeir hæst á blaði sem bjóða girnilegasta úrvalið af léttum réttum og „stuzzichini“ eða pinnamat.

Á þessu gæða gestir sér svo með vínglasinu, sem oftar en ekki er þurrt freyðivín eða freyðivínskokteilar (t.d. Mimosa eða Bellini), vermút, hvítvínsglas, Campari soda eða hinir vinsælu óáfengu aperitivo-drykkir eins og Crodino og San Bitter.

Á Ítalíu er nánast litið á það sem guðlast að drekka vín á fastandi maga enda líta Ítalir á vín sem órjúfanlegan hluta af máltíðinni og að sama skapi er maturinn órjúfanlegur hluti fordrykkjarins. Orðið aperitivo kemur úr latínu og merkir opna (í þessu samhengi er átt við það sem opnar magann) og hér er vísað til lystaukandi léttáfengs drykkjar.

Matar- og drykkjarmenning Ítala einkennist – ef svo má taka til orðs – af heimilislegri fágun. Þeir eru ekki uppfullir af endalausum siðareglum og serímóníum eins og nágrannar þeirra Frakkar, heldur er eðalhráefni í mat sem drykk borið fram og látið njóta sín á fágaðan máta og þess svo neytt að sama skapi á fínlegan og hófsaman hátt. Mikið er lagt upp úr því að snittum og öðrum réttum sé raðað fallega á barborðin svo augun verði nú örugglega svöng á undan maganum.

Fyrir augu og maga

Ítölsk matarorð eru svo ein og sér þekkt fyrir að fanga einstaklega vel eðli hvers hráefnis og réttar. E.t.v. er þetta komið til vegna hinnar miklu matarástar Ítala. Tökum sem dæmin orðin „stuzzichini“ (pinnamatur) og „vino frizzante“ (freyðandi vín). Tilfinningin við það eitt að bera fram orðið „stuzzichino“ er ekki ósvipuð því og væri maður að narta í hnetu eða ólífu og svo er einhver sjarmerandi léttleiki yfir orðinu og við það að bera fram „vino frizzante“ sér maður fyrir sér fjörugar loftbólur í kampavínsglasi sem nýbúið er að hella í köldu freyðivíni. Það er einhver sjarmerandi léttleiki yfir orðinu og það sama á við um ítalska bari, sem eru allt í senn: kaffibarir, óhefðbundnir veitingastaðir, félagsmiðstöðvar, vín- og smáréttabarir.

Algengast er að Ítalir innbyrði lystaukapakkann sinn og kaffið við barinn „al banco“, en það er ódýrara og þannig er maður líka í betra talsambandi við barþjónana og aðra viðskiptavini. Íslenska þýðingin á orðinu, lystauki, nær fyrirbærinu mun betur en fordrykkur, því það er nákvæmlega það sem aperitivo er ætlað að vera – lystauki.

Barahefð Ítala (og þar með lystaukahefðin) veitir líka félagsþörfinni útrás í smáskömmtum, en algengt er að menn fari einnig á barinn á morgnana í morgunkaffi, í hádeginu og fái sér léttan hádegisverð, t.d. grillað brauð eða salat og margir koma við í eftirmiðdaginn fyrir „caffè di lavoro“ (vinnukaffibolla) og spjalla þá í leiðinni við vini og kunningja. Félags- og drykkjarþörfum Ítala er því vel fullnægt í smáskömmtum yfir daginn og víndrykkjan er semsagt aldrei ein á báti, heldur alltaf tengd mat. Það skapast því seint þörf fyrir Ítali „að detta í það“ um helgar og fara á „trúnó“, því þeir eru meira og minna á trúnaðarskeiðinu (mismiklu) allan daginn: við barþjóninn, við bakarísafgreiðslukonuna, skósmiðinn, kunningjana á barnum o.s.frv.

Tveir klassískir lystaukar

Bellini-kokteill

Giuseppe Cipriani á Harry's Bar í Feneyjum fann þennan vinsæla kokteil upp árið 1948. Í stað kampavíns má vel nota prosecco eða gott þurrt freyðivín og í hallæri má nota góðan tilbúinn ferskjusafa.

7 cl kampavín

3 cl ferskjumauk

Afhýðið ferskju (best ef ferskjukjötið er hvítt) og maukið í matvinnsluvél ásamt dálitlu af muldum ís og dreitli af kampavíni. Hellið kampavíni í hátt glas og ferskjumaukinu saman við. Berið fram.

Buck's Fizz

Svipaður kokteill er Mímósa eða Buck's Fizz. Þar er nýkreistum síuðum appelsínusafa hellt í glas (4 cl á móti 6 af víni) og fyllt upp með kampavíni eða þurru freyðivíni.

Aperol Spritz

6 cl Prosecco

4 cl Aperol

skvetta af sódavatni

ísmolar

appelsínusneið

Setjið ísmola og appelsínusneið í vermútglas. Hellið Prosecco út í, þar næst sódavatni og Aperol í lokin.

Lystaukandi staðir

Nokkrir ákjósanlegir barir í Mílanó fyrir lystaukaserímóníuna, l'aperitivo

Gin Rosa, Galleria San Babila 4/B, www.gin-rosa.it

Straf-barinn, Via San Raffaele 3, www.straf.it

Bar Basso, Via Plinio 39, www.barbasso.com

Cova, Via Montenapoleone 8, www.pasticceriacova.it

Victoria Café, Via Clerici 1 (til hliðar við Scalaóperuhúsið)

Bar Bianco, Parco Sempione, www.barbianco.com (sérstaklega á sumrin)

Sheraton Diana Majestic, Viale Piave 42, www.starwoodhotels.com

Il Noon, Via Boccaccia 4, www.noonmilano.com

Executive Lounge, Via A. Di Tocqueville 3, www.executivelounge.it

Caffè Malafemmena, Via Monte Grappa 9

Visavis á Grand Visconti Palace-hótelinu, Via Isonzo 14, www.grandviscontipalace.com

5. hæð Rinascente-verslunarmiðstöðvarinnar í Corso Vittorio Emanuele (við Dómkirkjutorgið)