Blóðrautt sólarlag Hanna sá mörg falleg sólsetur í Afríkuferðinni, meðal annars þar sem hún var í bátsferð með ferðafélögum sínum á landamærum Namibíu og Angólu.
Blóðrautt sólarlag Hanna sá mörg falleg sólsetur í Afríkuferðinni, meðal annars þar sem hún var í bátsferð með ferðafélögum sínum á landamærum Namibíu og Angólu. — Ljósmynd/Hanna Borg Jónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margt ungt fólk dreymir um að ferðast á framandi slóðir og jafnvel að vinna sjálfboðavinnu í fátækum ríkjum heims. Halldóra Traustadóttir hitti Hönnu Borg Jónsdóttur, 22 ára lögfræðinema, sem lét drauminn rætast.

Hanna Borg fór til Suður-Afríku í byrjun september til að vinna á munaðarleysingjaheimili. Þetta var þó ekki í fyrsta sinn að hún lagði land undir fót í sjálfboðavinnu því hún hafði áður farið til Frakklands í sama tilgangi, þá á vegum Stúdentaferða Exit og lá því beinast við að hafa samband við fyrirtækið aftur. Ferðaskrifstofan er í samvinnu við staði víðsvegar í heiminum þangað sem hægt er að fara og vinna í sjálfboðavinnu. Að lokinni nokkurra vikna vinnu gefst sjálfboðaliðunum síðan kostur á að að ferðast um á safaríjeppum í litlum hópi með fararstjóra.

Afríka heillar

„Ég hafði áhuga á að fara til Afríku og Höfðaborg í Suður-Afríku var eini staðurinn sem boðið var upp á,“ útskýrir Hanna. Á heimilinu þar sem hún starfaði voru 43 börn á aldrinum 0 til 5 ára. Hanna hafði umsjón með hópi barna á aldrinum tveggja til þriggja ára en tveir sjálfboðaliðar störfuðu í hverjum hópi. „Flest börnin sem bjuggu á heimilinu voru munaðarlaus. Það var mikil upplifun fyrir þau að fara í dagsferð með okkur út fyrir veggi heimilisins einn daginn. Flest þeirra voru að uppgötva að heimurinn væri stærri en bara heimilið.“

Lífið í Höfðaborg var frekar einangrað því mikið var búið að vara Hönnu við öllum þeim hættum sem þar væri að finna enda er glæpatíðni í Suður-Afríku með því hæsta sem gerist í heiminum.

„Eftir á að hyggja hefði ég getað notið borgarinnar betur ef ég hefði ekki verið sífellt að hugsa um það að passa mig. Það kom ekkert fyrir mig allan þann tíma sem ég var í Afríku og eiginlega skondið að segja frá því að sama dag og ég kom heim til Íslands var ég rænd,“ segir Hanna og kímir.

Eftir átta vikna vinnu á heimilinu fór Hanna í þriggja vikna ferðalag með hópi ungs fólks á vegum ferðaskrifstofunnar Nomad og ferðuðust þau á stórum jeppa frá Suður-Afríku til Namibíu, Bótsvana og Simbabve.

Namibía í uppáhaldi

„Ég var hrifnust af Namibíu,“ segir hún dreymin. „Alls staðar þar sem við komum var ótrúlega fallegt og öðruvísi en við eigum að venjast í Evrópu. Eyðimörkin og sandöldurnar voru einstakar. Þar prófaði ég fallhlífarstökk og get ekki beðið eftir því að komast aftur í síkt. Öll aðstaða við tjaldstæði þar sem við gistum var mjög góð. Í Namibíu fórum við einnig og heimsóttum Himbana sem er nokkuð frumstæð hirðingjaþjóð og fórum í Etosha-þjóðgarðinn þar sem getur að líta öll dýr merkurinnar.“ Hún segir að dýrin hafi staðið upp úr í huga ferðafélaga sinna, en hvað hana sjálfa varðar var það upplifunin sjálf, náttúran og fólkið.

„Mér fannst líka ótrúlega skemmtilegt þegar við vorum í Bótsvana á svæði sem heiti Okavagno Delta, sem er eins konar vatna- eða síkjasvæði. Þar skildum við bílinn eftir í þrjá daga og fórum á báti um vötnin, m.a. á eintrjáningum. Áður fyrr voru þessir bátar búnir til úr sausage tree-viðnum en vegna skorts á þeirri viðartegund hafa menn nú tekið í notkun míkrófíberefni við gerð bátanna,“ útskýrir Hanna.

„Við enduðum síðan við Viktoríu-fossa í Simbabve. Alla ferðina var búið að byggja upp ákveðna spennu í kringum þann stað og fararstjórinn sagði oft „við gerum þetta bara þegar við komum að Viktoríufossum“, en vonbrigðin urðu mikil þegar við loksins komum þangað. Það var eiginlega bara hræðilegt ástand í Simbabve; ekkert fékkst til neins og það sem þó var til sölu kostaði margar milljónir Simbabvedollara. Fólk var mjög ágengt í sölu varnings og óskaði t.d. eftir fötunum sem við vorum í og þess háttar sem greiðslu en vildi enga peninga þar sem verðbólgan át þá jafnóðum.“

Hamingjan felst í að vera – ekki eiga

En hvað er það helsta sem stendur upp úr eftir svona reynslu?

„Ég lærði einna mest um sjálfa mig enda fór ég ein út. Þar fyrir utan kemst maður að því að við þurfum ekki eins mikið og við höldum. Það var ótrúlegt hvað fólkið þarna úti var nægjusamt, brosmilt og glatt. Lífið þarna er heldur ekki eins hræðilegt og margir halda.“

Hanna telur að þessi reynsla eigi eftir að nýtast henni í framtíðinni því hugurinn stendur til náms í mannréttindum, jafnvel í þágu barna. Hún segist ekki myndu hika við að grípa tækifærið aftur ef aðstæður byðu upp á að fara aftur út í heim og vinna í þágu bágstaddra barna.

Höf.: Halldóra Traustadóttir