Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur
annaei@mbl.is
Ítölsku Dólómítarnir eru vinsælt skíðasvæði yfir vetrartímann og þessa dagana blasa þessi tignarlegu fjöll líklega við mörgum ferðalanginum innrömmuð af snævi þöktum skíðabrekkum.
Aðrir kjósa hins vegar brekkurnar auðar og loftslagið hlýrra enda eru Dólómítarnir ekki síður vinsæll viðkomustaður fjallagarpa. Strax í byrjun 19. aldar léku þeir raunar stórt hlutverk í einhverjum fyrstu könnunar- og klifurferðum í Alpana, og lögðu þannig grunninn að núverandi vinsældum svæðisins sem ferðamannastaðar. Dagsetning á dagatali er þó langt í frá trygging fyrir auðri jörð er upp í fjöllin er komið. Þannig upplifðum við snjókomu, haglél, regn og þrumuveður í bland við sumarlegra veðurfar þegar ég var þar á ferð með ÍT-ferðum í lok júní á síðasta ári.
Klingjandi kúabjöllur
Það er þó ekki bara veðrið sem er fjölbreytilegt á þessu svæði því að landslagið býr ekki yfir minni margbreytileika. Sem dæmi má nefna að að þessu sinni var lagt af stað í steikjandi hita úr grónu umhverfi Welschnofen og haldið sem leið lá eftir vel merktum göngustígum upp í hrikalega fegurð hins berangurslega umhverfis Rosengarten-fjallagarðsins og þar minnti nístandi kuldi á köflum óþyrmilega á hæðina, sem þó var ekki nema tæpir 2.600 metrar.Bleikar brekkur, þaktar alparósarunnum sem steyptust niður í Duron-dalinn virtust svo tilheyra enn öðrum heimi, ekki síður en grónar brekkur í nágrenni Plattkofel- og Langkofel-fjallanna þar sem klingjandi kúabjöllur voru oft það eina sem truflaði kyrrðina. Það var líka ekki laust við að sagan af svissnesku stúlkunni henni Heiðu kæmi upp í hugann á þessum slóðum – bjálkahús, kúabjöllur og grasi vaxnar hlíðar setja enda ekki í síður svip sinn á ítölsku Alpana en þá svissnesku. Sveitirnar eru raunar mun germanskari ásýndar en ítalskar og þarf e.t.v. ekki að koma á óvart þar sem Suður-Týról, sem Dólómítarnir eru að hluta til staðsettir í, tilheyrði Austurríki til ársins 1918 og þýskan því útbreidd tunga.
Þríréttað á hverjum degi
Gönguferð um Dólómítana mun líklega aldrei kalla fram samskonar „útilegustemningu“ og ferðir um hálendi Íslands geta gert. Mun fleira göngufólk verður til að mynda á vegi ferðalanga og því ekki beint hægt að tala um að vera aleinn í óbyggðum. Vel merkt og þéttriðið net göngustíga felur sömuleiðis í sér að öllu minni hætta er á að göngugarpurinn villist af leið og gisti- og veitingaskála er að finna það víða að óþarfi er að burðast með tjald og vistir aðrar en föt til skiptanna.Það er heldur ekki amalegt að geta gætt sér á heitri máltíð þegar áð er í hádeginu, svalað þorstanum síðdegis með ísköldum radler (blöndu af bjór og límonaði) eftir góða göngu og gætt sér síðan á þríréttuðum kvöldverði í skála fyrir svefninn. Nei, það er víst nokkuð öruggt að slíka þjónustu er ekki að finna uppi á Fimmvörðuhálsi.
Staðsetning fjarri byggðu bóli virðist meira að segja hafa lítil áhrif á þá þjónustu sem í boði er. Vistir eru þannig fluttar með þyrlu upp í Antermoia-skálann, í nágrenni Andtermoia-vatns, og í enn öðrum tilfellum er notast við kláf – flutningsleiðirnar virðast hins vegar hafa hverfandi áhrif á verðlagið.
Voldugir skálarnir, sem í sumum tilfellum eru komnir vel til ára sinna, eru líka skemmtilegir heim að sækja. Er við vorum þar á ferð fagnaði Grasleiten-skálinn til að mynda 120 ára afmæli og þó að honum væri vissulega vel við haldið bar hann aldurinn engu að síður með sér. Gistiaðstaðan minnti þannig nokkuð á baðstofur íslenskra torfbæja og rýmið fyrir einkalíf var af álíka skornum skammti.
Þeir sem búast við dásemdum ítalska eldhússins uppi í fjöllunum gætu sömuleiðis orðið fyrir nokkrum vonbrigðum. „Knödel“ eða kartöflubollur og svínakjöt er nefnilega öllu algengari fæða – og verður að viðurkennast að á þriðja degi getur hún orðið nokkuð leiðigjörn. Ekki skyldi hins vegar alhæfa í þeim efnum frekar en öðrum og má þannig nefna að í Plattkofel-skálanum í nágrenni við Plattkofel-tindinn reyndust kokkarnir færir um að vekja á sér matarást jafnvel vandfýsnustu gesta.
Fjölbreytt úrval göngustíga
Gönguleiðirnar, ekki gisti- og veitingastaðir, eru hins vegar ástæða Dólómítaheimsóknar flestra sem þangað koma og fjölbreytt úrval göngustíga felur í sér að það er alls ekki nauðsynlegt að vera í neinu ofurformi til að ferðast þar um.Þeir sem vilja ganga þar styttri slóða geta t.d. komi sér fyrir í einum skála og notið þess að kanna gönguleiðirnar í kring á meðan þeir sem að kjósa meiri átök og vilja ná yfir stærra svæði ættu ekki heldur að lenda í neinum vandræðum með að finna leiðir við hæfi.
Með göngukort í hendi ætti síðan flestum að vera leiðin fær, en fyrir þá sem kjósa fjölmennari félagsskap er fjöldi ferða í boði með íslenskum ferðaskrifstofum sem og erlendum og vissulega er þægilegt að njóta leiðsagnar á framandi slóðum og þurfa ekki að hafa áhyggjur af að leita uppi gistingu sjálfur.
Það verður líka að segjast að tilfinningin við að standa á toppi tinds á borð við Roterd Spitze er alveg einstök. Djúpir dalir og háir fjallgarðar blasa þar við allt um kring og ekki laust við að fiðrings gæti í maganum þegar horft er niður snarbrattar hlíðar sem eiga endimörk sín hundruðum metra neðar og vita að maður hefur lagt annað eins að baki og það er ekki svo lítið afrek fyrir flest okkar.