Bestur Veitingastaður sjónvarpskokksins Gordon Ramseys við Royal Hospital Road í London er sá eini þar í borg sem skartar þremur Michelin stjörnum, þrír slíkir staðir eru hins vegar í New York og tíu í París.
Bestur Veitingastaður sjónvarpskokksins Gordon Ramseys við Royal Hospital Road í London er sá eini þar í borg sem skartar þremur Michelin stjörnum, þrír slíkir staðir eru hins vegar í New York og tíu í París.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steingrím Sigurgeirsson sts@mbl.

Eftir Steingrím Sigurgeirsson

sts@mbl.is

Nýjasta útgáfa rauða Michelin-veitingavísisins fyrir Bretland og Írland, sem kom út um miðja viku, þykir nokkurt áfall fyrir orðstír Lundúna sem einnar af helstu matarhöfuðborgum heimsins, að mati breskra fjölmiðla.

Enginn nýr veitingastaður bættist í flokk tveggja og þriggja stjörnu staða og breska höfuðborgin státar því áfram einungis af einum þriggja stjörnu stað, veitingastað Gordon Ramseys á Royal Hospital Road. Til samanburðar eru þrír slíkir staðir í New York, tíu í París og fimm í Tókýó. Hlutföllin eru svipuð þegar kemur að tveggja stjörnu stöðum en það eru veitingahúsin Petrus, Pied á Terre, The Capital Restaurant, Le Gavroche og The Square.

Þetta þykir verulegt áfall því þótt skiptar skoðanir séu um viðmið Michelin eru þau sá staðall sem breskir veitingamenn leggja hvað mest upp úr. Ekkert þykir gefa eins mikla upphefð í veitingaheiminum og að geta státað af einni og helst fleiri Michelin-stjörnum.

Margir misstu stjörnu

Það eru þó bjartir punktar í þessu öllu. Lundúnabúar geta áfram verið stoltir af „etnískum“ veitingahúsum sínum en fimmta indverska veitingahúsið, Quilon, hlaut stjörnu að þessu sinni. Quilon sérhæfir sig í matargerð héraðanna Kerala, Goa og Karnataka.

Á heildina litið bættust fimmtán nýjar stjörnur við, þar af fimm í London þar sem veitingahúsin La Trompette, Rhodes W1, Quilon, Hibiscus og Wild Honey hlutu stjörnu. Á heildina fækkaði hins vegar stjörnum á Bretlandseyjum um eina þar sem fjölmargir staðir misstu stjörnu á móti nýju stjörnunum.

Gleðin er líka væntanlega tregablandin hjá Hibiscus en veitingamaðurinn Claude Bosi sem rak staðinn í Ludlow þar til hann flutti hann til London fyrir þremur mánuðum státaði áður af tveimur stjörnum. Hann segir í fjölmiðlum að þetta séu vissulega vonbrigði en hafa beri hugfast að Hibiscus í London opnaði einungis tveimur vikum áður en Michelin fór í prentun. Hann getur líka huggað sig við að hann er skilgreindur sem „rísandi stjarna“ og þar með gefin ádráttur um að stjarna númer tvö sé skammt undan.

Bosi, sem lengi var skjólstæðingur franska meistarakokksins Alain Ducasse, er talinn vera ein bjartasta von breska veitingahúsalífsins ásamt sjónvarpskokknum Gary Rhodes á Rhodes W1 en veitingastaðir þeirra beggja eru í Mayfair.

Fyrst minnst er á Ducasse, sem rekur veitingahús víða um heim er státa af samtals fimmtán Michelin-stjörnum, má geta þess að hann tók á dögunum við rekstri veitingastaðarins Jules Verne í Eiffel-turninum í París. Hafði hann þar betur í samkeppni við Joel Robuchon, ekki minna nafn í matarheiminum, sem einnig sóttist eftir því að taka að sér rekstur Jules Verne.