Framboð Verð á húsum hefur fallið.
Framboð Verð á húsum hefur fallið. — Reuters
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is HÚSNÆÐISVERÐ á Flórída hefur hríðlækkað undanfarin tvö ár eftir að hafa stigið hratt árin þar á undan.

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is HÚSNÆÐISVERÐ á Flórída hefur hríðlækkað undanfarin tvö ár eftir að hafa stigið hratt árin þar á undan. Líkt og víða annars staðar er lækkunin mjög mismunandi eftir svæðum en dæmi eru um að verð hafi fallið um allt 30% frá hámarksverði. Það er því ekki að furða þótt fjölmiðlar á Flórída og raunar víðar um Bandaríkin tali um að fasteignabólan á Flórída hafi sprungið.

Engar opinberar tölur eru til um hversu margir Íslendingar eiga hús á Flórída en að mati Þóris Gröndals, ræðismanns Íslands í ríkinu, eru þeir á bilinu 300-500 en gætu þess vegna verið töluvert fleiri.

Að mati hans og Andreu Björgvinsdóttur, sem starfar fyrir Flórída fasteignir í Orlando, má gera ráð fyrir að um 100 Íslendingar hafi keypt sér hús á Flórída frá ársbyrjun árið 2005 en það var á því ári sem blaðran var þanin til hins ýtrasta – þangað til hún sprakk, eins og blöðrum hættir til að gera.

Minni lækkun í Ventura

Þéttasta Íslendingabyggðin á Flórída er í hverfi sem heitir Ventura en Þórir telur að um 100 íslenskar fjölskyldur eigi þar hús.

Andrea segir að þar sem Ventura sé ekki svokallað leiguhverfi, en í slíkum hverfum er leyfilegt að leigja öll hús í skammtímaleigu, hafi verðfallið þar verið minna en víðast hvar annars staðar, líklega um 10-12%. Annað sé upp á teningnum í leiguhverfum en þar sé nú hægt að fá hús sem eru falboðin á 400.000 dollara á 300.000 dollara eða á 19,3 milljónir króna í stað 25,7 milljóna. „Það er hægt að gera rosalega góð kaup núna, það er hægt að bjóða svo langt niður. En það á við um þau hverfi þar sem eru eingöngu túristar,“ segir Andrea.

Þeir sem keyptu á meðan fasteignabólan var í hámarki og þurfa af einhverjum ástæðum að selja eignirnar aftur hafa augljóslega tapað verulegum fjárhæðum. Aðspurð segist Andrea ekki þekkja dæmi um að Íslendingur hafi keypt á toppnum en síðan þurft að selja með tapi. Í leiguhverfunum sé annað upp á teningnum, sérstaklega meðal þeirra sem litu á fasteignir sem fjárfestingu og keyptu e.t.v. fimm til átta hús og íbúðir. Andrea telur að betri tímar séu framundan á fasteignamarkaði, a.m.k. séu bandarískir fasteignasalar almennt á því að tíðin batni eftir því sem nær dregur forsetakosningum. „Þetta er mjög gott tækifæri til að fjárfesta í góðum hverfum,“ segir hún.

Hafi Íslendingar hug á að kaupa eignir á Flórída er ljóst að þeir ættu að kynna sér málið vel. Það gæti t.a.m. verið óráð að kaupa hús í Cape Coral á suðvesturhluta Flórída. Þar eru nú 19.000 einbýlishús og íbúðir til sölu. Tæplega 500 seldust í nóvember. Með þessu áframhaldi mun taka þrjú ár að vinna á sölulistanum.

Í hnotskurn
» Líklegt er að um 300-500 Íslendingar eigi íbúðir og hús á Flórída en þeir gætu verið fleiri.
» Um 100 Íslendingar hafa keypt sér hús á Flórída frá árinu 2005 en þá náði fasteignaverð nýjum og áður óþekktum hæðum.
» Síðan þá hefur verðið fallið mikið, mismikið þó.