Skíðaparadís Útsýnið úr brekkunum í nágrenni Bormio er einstaklega fallegt á góðum degi.
Skíðaparadís Útsýnið úr brekkunum í nágrenni Bormio er einstaklega fallegt á góðum degi. — Ljósmynd/ Hanna Friðriksdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í hjarta Valtellinahéraðs liggur bærinn Bormio í 1.225 metra hæð. Svæðið þar í kring, segir Hanna Friðriksdóttir, er ein mesta náttúruparadís Ítalíu.

Bormio stendur við rætur Passo del Stelvio, fjallvegar sem tengir saman Bormio og Trafoi í Venosta-dalnum. Leiðin er nú hluti af Stelvio-þjóðgarðinum sem nær yfir 400.000 ferkílómetra svæði. Á sumrin er starfræktur skíðaskóli í Passo di Stelvio, því þar er yfirleitt hægt að skíða allt sumarið í 2.757 m hæð.

Í Bormio og nágrannaskíðasvæðunum, S. Caterina, Valdidentro, Valdisotto, Valfurva og Livigno (tollfrítt smáríki sem er eins konar ítalskt Tíbet) er að finna brekkur við allra hæfi, en hæsti tindurinn á Bormio-svæðinu er Cima Bianca (3.012 m). Í Bormio eru reglulega haldin mikilvæg skíðamót, nú síðast World Cup í bruni karla í desember sl. Snjóbretti njóta líka sífellt meiri vinsælda og í Bormio hefur verið útbúið sérstakt svæði fyrir brettafólk. Stutt er svo að skella sér til St. Moritz (sem er í 58 km fjarlægð) vilji maður prófa svissnesku brekkurnar.

Einstök náttúrufegurð er á Bormio-svæðinu og útsýnið úr brekkum og að ekki sé nú talað um af hæstu tindum ólýsanlega fallegt á góðum degi. Valtellinabúar eru einnig einstaklega viðmótsþýtt og greiðvikið fólk.

Eftir að lyftum er lokað í eftirmiðdaginn er upplagt að skella sér í eina af heilsulindunum á svæðinu og slaka á. Sérstaklega skal þá mælt með Bagni Vecchi eða gömlu böðunum sem eru örfáa kílómetra fyrir ofan bæinn. Í Ölpunum fyrir ofan Bormio eru heitavatnsuppsprettur sem getið er í heimildum allt frá 1. öld f. Kr. og vatnið hefur löngum verið talið hafa lækningarmátt. Heimildir eru til um böð á staðnum frá tímum Rómverja og frá miðöldum og eru böðin þar enn í dag (vitanlega í endurbættri mynd). Þar sem talið er að rómversku böðin hafi verið er nú miðaldakirkja og inni í hvelfingum hennar eru tvö jarðböð. En í miðaldaheimildum segir frá munkum sem bjuggu í litlum húsum í nágrenni við kirkjuna og ráku þar eins konar heilsulind. Strax um 1300 höfðu böðin getið sér gott orð og sjálfur Leonardo da Vinci sótti böðin árið 1493. Fyrir ofan kirkjuböðin er svo útilaug frá miðöldum. Gaman er að fylgjast með baðgestum klæddum hvítum hettusloppum ganga á milli baðstaðanna og í fjarlægð mætti halda að hér væru miðaldamunkarnir á ferð. Heilmikil starfsemi er nú í kringum böðin og alls kyns gufuböð, leirböð, nuddmeðferðir o.fl. í boði. Veitingastaðir eru í böðunum (og einnig hótel) og á öðrum þeirra (Caffé) er hægt að fá vel útilátið hlaðborð (á 14 evrur eða 18 evrur, vilji maður geta gengið í borðið ótakmarkað þann daginn) og snætt á sloppnum á milli vatns- og gufubaðaheimsókna.

Pizzoccheri og djúpsteiktar eplaskífur milli ferða

Valtellina er ekki síður sælkeraparadís en náttúru- og heilsuparadís. Þaðan kemur t.a.m. hið eina sanna bresaola, sem er saltaður nautavöðvi sem látinn er hanga í marga mánuði og er svo borðaður í örþunnum sneiðum.

Mikil eplarækt er í héraðinu og meðfram þjóðveginum er víða stillt út til sölu eplum, víni og fleiri landbúnaðarafurðum. Hafi maður áhuga á að kaupa slíkt góðgæti, stöðvar maður bílinn og bóndinn kemur hlaupandi niður á veg til aðstoðar og gefur gjarnan vínsopa að smakka eða eplasafa. Sá sem sækir héraðið heim skyldi ekki láta eftirfarandi sérrétti fram hjá sér fara: steiktu ostakúlurnar malfatti, pastaréttinn pizzoccheri, hjartarsteik (brasato di cervo) með maísmjölkökunni polenta, eða djúpsteiktu eplaskífurnar frittelle di mele með vanillusósu.

Fullt er af veitingastöðum og krám í brekkunum þar sem upplagt er að fá sér hádegismat milli ferða. Matseðill héraðsins er afar freistandi og kaloríuríkur, sem er vel við hæfi þegar skíðað er og það er auðvelt að falla fyrir freistingunum sem þar bjóðast.

Í hádeginu skal þó hafa í huga að ef skíða á líka í eftirmiðdaginn þá getur það reynst erfitt ef einum bjór eða eplaskífuskammti er ofaukið! Einn eplaskífuskammtur nægir vel sem eftirréttur fyrir tvo. Frábær matseðill er t.d. á Le Chalet barnum (er að finna á miðri leið úr brekku sem liggur úr vinstri stólalyftunni í Bormio, sú sem liggur upp á tindinn Cimino 2.636 m ).

Skipulagðar rútuferðir eru frá Orio al Serio-flugvellinum í Bergamo (mánud., fimmtud. til laugard.) og Milano Malpensa flugvellinum (laugard.) til Valtellina. Einfalt er að keyra til Bormio frá Mílanó: Akið hraðveginn (Superstrada) Milano-Lecco til Colico og beygið þar út á afrein S.S. 38 sem heitir Sondrio-Bormio allt til Bormio. www.bormio.com www.livigno.eu www.santacaterina.it www.bagnidibormio.it www.parks.it/parco.nazionale.stelvio
Höf.: Hanna Friðriksdóttir