Til heiðurs leiðtoganum Rússneskir kommúnistar bera sovéska fánann og mynd af Stalín í göngu sinni að grafhvelfingu leiðtogans á Rauða torginu í Moskvu 21. desember síðastliðinn en þá voru liðin 128 ár frá fæðingu hans.
Til heiðurs leiðtoganum Rússneskir kommúnistar bera sovéska fánann og mynd af Stalín í göngu sinni að grafhvelfingu leiðtogans á Rauða torginu í Moskvu 21. desember síðastliðinn en þá voru liðin 128 ár frá fæðingu hans. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvaða skoðun hafa Rússar á Jósef Stalín sem líklega mótaði samfélag þeirra á 20. öld meira en nokkur annar? Ýmislegt bendir til þess að verið sé að endurreisa minningu Stalíns Rússlandi. Hér er sagan rifjuð upp og rýnt í viðhorf samtímans til Stalíns.

Eftir Val Gunnarsson

valurgunnars@gmail.com

Mörgum brá í brún þegar hið virta tímarit Time kaus Vladimír Pútín mann ársins 2007. Eins og tímaritið minnir þó reglulega á, sérstaklega eftir þá gagnrýni sem það fékk fyrir að velja Ayatollah Khomeini mann ársins árið 1979 (valdi þó ekki Osama bin Laden 2001) eru menn ársins ekki valdir vegna mannkosta sinna heldur vegna þeirra áhrifa sem þeir hafa haft á samtímann. Stalín var þannig tvisvar valinn maður ársins. Fyrst árið 1939, þá í skúrkshlutverkinu fyrir að semja við Hitler og gera honum kleift að ráðast á Pólland, en blaðið spáði því réttilega að Georgíumaðurinn myndi að lokum hagnast meira á stríðinu en Austurríkismaðurinn (Hitler hafði verið maður ársins árið áður). En skjótt skipast veður í lofti, og árið 1942 var Stalín aftur á forsíðu tímaritsins sem maður ársins, nú sem hetja eftir að herir hans höfðu stöðvað framrás þýska hersins við Stalíngrad. Stalín lenti ekki aftur á forsíðu Time , en nokkrum árum síðar braust kalda stríðið út og var Stalín þá aftur kominn í skúrkshlutverkið í hugum flestra Vesturlandabúa, og hefur verið æ síðan. En hvaða skoðun hafa Rússar sjálfir á þessum manni sem líklega mótaði samfélag þeirra á 20. öld meira en nokkur annar?

Sigurvegarinn mikli

Þegar Stalín lést árið 1953 var hann á hátindi valda sinna, og einn valdamesti maður sem sögur fara af. Yfirráð hans yfir Sovétríkjunum, sem voru um 1/6 hluti þurrlendis jarðar, voru nær alger. Hann hafði farið með sigur af hólmi í seinni heimsstyrjöldinni og herir hans voru nú staðsettir í hjarta Evrópu, í Varsjá og Prag og Búdapest og við ána Elbu sem skar Þýskaland og álfuna í tvennt. Í Asíu gætti áhrifa hans einnig, Maó hafði náð völdum í Kína, en hann var mikill aðdáandi Stalíns og versnaði sambúð ríkjanna mikið eftir að Stalín lést. Á Kóreuskaga höfðu bandamenn hans náð að reka bandaríska herinn aftur að 38. breiddargráðu, og stefndi þar í blóðugt jafntefli. Á aðeins 30 árum hafði honum tekist að reisa Sovétríkin úr öskustó byltingarinnar, iðnvæða þau og kjarnorkuvæða og gera að öðru mesta stórveldi heims. Því er ekki að undra að þegar Stalín var færður með viðhöfn að hlið Leníns inn í grafhýsið á Rauða torginu skyldu margir landa hans fella tár. En afrek hans voru dýrkeypt og talið er að allt að 20 milljónir manna hafi látið lífið af hans völdum.

Krústsjov hafnar Stalín

Að Stalín látnum tók við valdabarátta um hver yrði arftaki hans. Lavrenti Beria, yfirmaður öryggislögreglunnar, virtist um tíma vera með tögl og hagldir en var dæmdur fyrir landráð og tekinn af lífi af keppinautum sínum. Malenkov tók við en var steypt af stóli tveimur árum síðar og loks fór svo að Nikita Krústsjov varð aðalritari kommúnistaflokksins. Krústsjov hafði verið einn af helstu skósveinum Stalíns, hlýtt fyrirmælum hans í hreinsun og stríði án þess að hika og jafnvel látið það yfir sig ganga að leika dansandi björn í drykkjuveislum leiðtogans. En þegar hann var sjálfur kominn til valda kvað við annan tón, og á 20. flokksþingi Kommúnistaflokksins árið 1956 fór Krústsjov hörðum orðum um Stalín og persónudýrkun á honum. Fregnir af ræðunni spurðust út til Vesturlanda og höfðu mikil áhrif á kommúnistaflokka víðs vegar. Hér á Íslandi breytti Sósíalistaflokkurinn um nafn þetta sama ár og varð að Alþýðubandalagi. Flestir afneituðu Stalín, sumir leituðu til Kína að nýjum fyrirmyndum en einn og einn á stangli var áfram gallharður stalínisti til æviloka.

Í Sovétríkjunum sjálfum var talað um af-stalíníseringu, styttur af leiðtoganum voru teknar niður og lík hans flutt út úr grafhýsi Leníns. Krústsjov hrósaði jafnvel bók Solzhenitsyns, Dagur í lífi Ívan Denisovich , fyrir að afhjúpa sum af grimmdarverkum Stalíns. En árið 1964 þegar Krústsjov var settur af og Breshnév tók við völdum var öll gagnrýni á fortíð Sovétríkjanna skyndilega þögguð niður. Eftir því sem efnahagur Sovétríkjanna staðnaði varð helsta réttlætingin fyrir völdum Kommúnistaflokksins sú að hann hafði tryggt sigur í stríðinu og æ glæsilegri minnisvarðar voru reistir, svo sem sigurgarðurinn í Moskvu. Því var ekki hægt að tala illa um leiðtoga landsins á stríðsárunum án þess að varpa rýrð á kerfið allt.

Gorbatsjov opnar fyrir áhuga á Stalín

Með valdatöku Gorbatsjovs árið 1985 og glasnost-stefnunni var aftur opnað fyrir umræðu um fortíðina, og seinni hluta árs 1987 var farið að ræða um Stalínstímann í dagblöðum og sjónvarpi. Meðal umræðuefna var hvernig bændur voru þvingaðir á samyrkjubú eða til að vinna í verksmiðjum, ógnarstjórnin á 4. áratugnum, fólksflutningar, gyðingahatur og hinir gríðarlegu ósigrar fyrstu mánuði innrásar Þjóðverja árið 1941, sem voru að einhverju leyti Stalín og hreinsunum hans að kenna. Það merkilega við þessa sögulegu umræðu var hvað hún náði til stórs hluta þjóðfélagsins, hér var ekki aðeins um deilur örfárra sagnfræðinga að ræða. Blöð sem fjölluðu um Stalínstímann seldust í milljónum eintaka. Gúlag eyjaklasi Solzhenitsyns var loksins gefinn út árið 1989, og þegar blaðið Novyi mir (sem hafði verið bannað árið 1970 en endurreist 1985) hóf að birta útdrætti úr bókinni næstum tvöfaldaðist upplagið. Gríðarlegur lesþorsti greip um sig meðal þjóðarinnar, og var sagt að „það væri áhugaverðara að lesa en lifa“. En þó hélt hin opinbera söguskoðun, sem þakkaði Stalín að hafa styrkt Rússland en minntist ekki á voðaverk hans, enn velli meðal sumra.

Minningarnar spretta fram

Í fagtímaritinu Russian Politics and Law telur sagnfræðingurinn Maria Feretti upp nokkrar ástæður fyrir því hvers vegna Stalín skipaði svona stóran sess í umræðunni á síðustu árum Sovétríkjanna. Í fyrsta lagi var þetta liður í valdabaráttu innan kommúnistaflokksins á milli umbótasinna og harðlínumanna, sem kepptust um að nota söguna í pólitískum tilgangi. Í öðru lagi segir hún að þær minningar sem fólk hafði geymt með sér hafi nú loksins fengið tækifæri til að koma upp á yfirborðið. Voru þetta ekki einungis minningar þeirra sem höfðu lifað af hreinsanirnar á Stalínstímanum heldur einnig þeirra sem ólust upp undir Krústsjov og mundu eftir þeirri umræðu sem þá hafði farið af stað en síðan verið kæfð. Margar bækur voru opinberlega gefnar út sem höfðu verið skrifaðar í þíðunni en síðan bannaðar. Í millitíðinni höfðu margar þeirra þó gengið manna á milli. Feretti telur einmitt ritskoðun Breshnévs-áranna hafa leitt til þess að varðveisla minninga varð að mikilli ástríðu hjá sumum.

Sovétríkjunum afneitað

Þessari endurskoðun á Stalínstímanum lauk svo að mestu með hruni Sovétríkjanna. Athyglin beindist nú ekki lengur að Stalín, heldur að byltingunni sjálfri, en hún hafði verið yfir allan vafa hafin á tímum Sovetríkjanna undir jafnt Krústsjov og Breshnév sem Gorbatsjov. Margir fóru nú að líta á stalínismann sem rökrétt framhald af byltingunni, frekar en sem svik við hana eins og umbótasinnaðir kommúnistar vildu meina.

Farið var að vegsama keisaraveldið og átti hið nýja Rússland að vera rökrétt framhald af því. Undir lok tíunda áratugarins var komin fram ný opinber söguskoðun á þessum nótum. Áberandi dæmi um þetta dálæti Jeltsínáranna á keisaratímanum var að hinn gamli fáni keisaratímans varð að þjóðfána Rússlands og tvíhöfða örn Rómanoff-ættarinnar varð að skjaldarmerki ríkisins.

Stalín undir teppið

Litið var á Sovétríkin sem einhvers konar undantekningu sem átti lítið skylt við hið eiginlega Rússland. Menn fóru jafnvel að líta á kommúnismann sem erlent fyrirbæri og þjóðernissinnar, rétt eins og í Þýskalandi á millistríðsárunum, töluðu um hann sem sjúkdóm sem gyðingar hefðu flutt inn frá útlöndum. Byltingin varð valdarán fámenns minnihlutahóps sem rússneska þjóðin sem slík bar enga ábyrgð á heldur var einungis í hlutverki fórnarlambsins.

Á hinn bóginn var ljóst að hinar gríðarlegur hreinsanir Stalíns hefðu ekki getað átt sér stað án þess að milljónir manna hefðu tekið þátt í þeim sem gerendur, en þetta var erfitt að horfast í augu við. Eina lausnin á þessu vandamáli var að sópa voðaverkum Stalíns aftur undir teppið. Þetta átti ekki aðeins þátt í að sjálfsmat þjóðarinnar batnaði eftir því sem leið á 10. áratuginn heldur var aftur hægt að taka Stalín í sátt þegar grimmdarverkin voru gleymd. Árið 1989 litu aðeins 12% Rússa á Stalín sem „merkilegasta mann allra tíma og allra þjóða“, en tíu árum síðar var þessi tala kominn upp í 35%. Árið 1990 litu 48% hins vegar á hann sem versta manninn í rússneskri sögu, en árið 1997 var þessi tala kominn niður í 36%.

Stalín aftur á stall

Undir Pútín er keisaratímabilið enn dásamað, og ku helsta hetja Pétursborgarans Pútíns vera Pétur mikli. En einnig er litið til Sovétríkjanna sem stórveldistímabils, og Pútín telur hrun þeirra mikinn harmleik. Stalín hefur aftur verið settur á stall í skólabókunum, en þær hrósa honum sem einum mesta leiðtoga Rússlands. Í raun virðist því sem öll tímabil Rússlandssögunnar hafi verið hafin til vegs og virðingar undir Pútín, nema þá kannski helst niðurlægingartímabilin undir Jeltsín og Gorbatsjov. Í Time- viðtalinu hrósar Pútín þeim þó fyrir að hafa lagt niður kerfi sem hlaut ekki lengur stuðning fólksins, og segist ekki viss um að hann hefði haft hugrekki til að gera slíkt sjálfur. Samkvæmt því virðist sem leiðtogi Rússlands í dag hafi meiri áhuga á hagvexti en því að endurreisa Sovétríkin.

Það er meira sem Stalín og Pútín eiga sameiginlegt en starfið. Afi Pútíns var kokkur Stalíns, og eins og hann hafði áhrif á mataræði Stalíns hefur Stalín haft áhrif á hugmyndir barnabarnsins, sem ku fletta bókum úr bókasafni Stalíns í gríð og erg. Í Time- blaðinu segir Simon Montefiore, höfundur bókarinnar Young Stalin , að persónudýrkun Rússa á Pútín sé einmitt besta vörn hans gegn hugsanlegum óvinum þegar hann lætur af embætti forseta og tekur við forsætisráðherrastöðunni.

Sigrinum fagnað á ný

Á 60 ára afmæli sigursins hinn 9. maí 2005 bauð Pútín öllum helstu þjóðarleiðtogum heims í heimsókn. Flestir komu, þar á meðal Halldór Ásgrímsson, en ekki þó leiðtogar Eistlands og Litháen, sem litla ástæðu sáu til að fagna sigri Rússa. Sumir hinna vestrænu fjölmiðla fundu þó ástæðu til að gagnrýna hátíðarhöldin og fannst þau minna um of á hinar árlegu hersýningar Sovétríkjanna. Nú nýlega bárust þær fréttir frá rússneska varnarmálaráðuneytinu að frá og með næsta 9. maí mundu hersýningarnar verða endurreistar. 6.000 hermenn munu ganga yfir Rauða torgið, ásamt skriðdrekum og kjarnorkuflaugum.

Sendiherra Breta í Rússlandi, Tony Brenton, líkti Rússlandi við Sovétríkin í blaðinu Guardian eftir að leyniþjónustumenn yfirheyrðu starfsmenn ræðismannsskrifstofu Bretlands. Í sama blaði segir fræðimaðurinn Nikolay Petrov við Carnagie-miðstöðina í Moskvu: „Markmiðið er að sýna fram á að Rússland var mikilfenglegt fyrir byltinguna, var mikilfenglegt á tímum Sovétríkjanna og að það sé verið að endurreisa mikilfengleik þess nú.“

Hinn nýi Stalín?

Maria Feretti útskýrir endurreisn Stalíns í hugum Rússa með því að fólk hafi fengið nóg af hinni stöðugu gagnrýni á Rússland, sem það taldi gagnrýni á Stalín enn einn angann af. Á sama tíma vildi fólk finna eitthvað jákvætt í sögunni sem hægt væri að byggja nýja þjóðarvitund á. Eitt af því hafi verið sigurinn í seinni heimsstyrjöldinni, og er þá lögð áhersla á leiðtogahæfileika Stalíns. En einnig virðist sem það sé nú aftur ráðamönnum í Rússlandi í hag að gera veg hans sem mestan.

Rússneski sagnfræðingurinn Lev Gudkov segir: „Sigur í stríði réttlætti alræðisstefnuna í Sovétríkjunum. Eftir því sem minningarnar um kúgun Stalíns hverfa, því meira fer almenningsálitið að vera hlynnt honum. Minningarhátíðir um stríðið þjóna fyrst og fremst miðstjórnarvaldinu og kúguninni sem eftir endalok alræðisvaldsins hefur nú verið þvingað upp á menninguna og samfélagið af Pútín.“

Höfundur er sagnfræðingur og rithöfundur.