Á baki Greinarhöfundur ásamt Hörpu Jóhannsdóttur básúnuleikara á fíl á Bali. Á hinum fílnum eru Bergrún Snæbjörnsdóttir hornleikari og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir básúnuleikari.
Á baki Greinarhöfundur ásamt Hörpu Jóhannsdóttur básúnuleikara á fíl á Bali. Á hinum fílnum eru Bergrún Snæbjörnsdóttir hornleikari og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir básúnuleikari.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mánudagur 4. febrúar Við erum nú stödd á eyjunni Balí í Indónesíu. Við komum hingað í gær eftir rúmlega þriggja tíma flug frá Ástralíu, en þar höfum við verið í þrjár vikur, nú síðast í Perth.

Mánudagur 4. febrúar

Við erum nú stödd á eyjunni Balí í Indónesíu. Við komum hingað í gær eftir rúmlega þriggja tíma flug frá Ástralíu, en þar höfum við verið í þrjár vikur, nú síðast í Perth.

Ástralía er á suðurhveli jarðar og þar er sumar þegar vetur er á Íslandi. Ég hef aðeins fylgst með fréttum frá fósturjörðinni og get ekki annað sagt en að ég sé feginn að losna við endalaust óveðrið.

Á Balí er veðrið frábært, um þrjátíu stiga hiti þegar heitast er í kringum hádegið. Balí er svo gott sem á miðbaug jarðar og á hádegi er sólin nánast beint fyrir ofan mann. Þá er best að halda sig innandyra.

Við erum í fríi núna, næstu tónleikar verða í Jakarta eftir viku. Með réttu hefðum við átt að fara til Íslands, en það er dýrara að fara heim og fljúga svo út aftur. Í staðinn erum við því á yndislegu hóteli á ströndinni og það verður gott að slaka aðeins á eftir strangt tónleikaferðalag.

Talandi um peninga: Ég skipti um hundrað og fimmtíu pundum á flugvellinum í Balí í kvöld og varð milljónamæringur á svipstundu, fékk rúmlega þrjár milljónir af rúpíum! Ein króna er um 1.500 rúpíur.

Þriðjudagur 5. febrúar

Í kvöld var leiksýning á einum af matsölustöðunum á hótelinu. Undir sýningunni spilaði hljómsveit á ýmis indónesísk hljóðfæri, þar sem gamelan var mest áberandi. Gamelan er ásláttarhljóðfæri sem gefur frá sér nokkurs konar bjölluhljóm.

Tónlistin sem leikin var hafði dáleiðandi áhrif, enda alltaf í sömu tóntegund og aðeins fimm nótur greinanlegar. Hún var samt aldrei leiðinleg og leiksýningin, einskonar dans sem ég kann því miður ekki að nefna, var kostuleg.

Miðvikudagur 6. febrúar

Í dag fór ég ásamt velflestum úr brasssveit Bjarkar að skoða musteri. Musterið er helgað guðinum Shiva, en hann er einn af heilagri þrenningu hindúa. Hinir guðirnir eru Brahma og Vishnu, sá fyrrnefndi táknar sköpunina eða fæðinguna, en Vishnu táknar lífið. Vishnu viðheldur lífinu og verndar það, en Shiva eyðir því. Eyðing er samt ekki alltaf neikvæð; Shiva mun vera guð jóganna, sem þrá að eyða blekkingunni er kemur í veg fyrir að þeir skynji heiminn eins og hann er í raun og veru. Shiva hjálpar þeim að gera það.

Ferðin í musterið tók um einn og hálfan tíma og gafst gott færi á að sjá Balí aðeins betur en úr hótelglugganum. Við stoppuðum á leiðinni og fengum okkur að borða á matsölustað nálægt hrísgrjónaakri. Mér er sagt að í hverri hrísgrjónaplöntu séu um fimmtíu grjón. Hvað ætli séu mörg grjón á venjulegum matardiski?

Þegar við komum að musterinu sá ég fullt af litlum, gráum öpum spígsporandi út um allt. Ég hafði heyrt af því að aparnir á Balí geti verið illkvittnir og séu sérstaklega vondir við fólk með gleraugu. Ég hélt því dauðahaldi í gleraugun mín. En aparnir voru voða góðir og létu mig alveg í friði. Ein úr hópnum var samt ekki eins heppin, því lítill api reyndi að borða sjalið hennar, sem var grænt og leit girnilega út.

Föstudagur 8. febrúar

Eftir mikinn letidag í gær ákvað ég að gerast aftur túristi og fór á fílsbak með nánast öllum úr brasssveitinni. Það var einhvers staðar úti í frumskóginum, sem var í talsverðri fjarlægð frá hótelinu.

Að vera á fílsbaki er sérstök upplifun, maður hossast gríðarlega og var ekki laust við að ég yrði hálfsmeykur í fyrstu, enda lofthræddur og fíll ekkert smádýr. Við Harpa Jóhannsdóttir básúnuleikari, sem var sessunautur minn, héldum dauðahaldi hvort í annað fyrstu mínúturnar. En við jöfnuðum okkur fljótt.

Sunnudagur 10. febrúar

Síðustu tvo daga hef ég bara slakað á og það er gott að liggja í leti á hótelinu og á ströndinni við hliðina. Best að safna kröftum fyrir tónleikaferðalagið, sem hefst aftur á morgun. Meira um það síðar.

Höfundur leikur á píanó, selestu, orgel og önnur hljómborðshljóðfæri í hljómsveit Bjarkar Guðmundsdóttur.

Jónas Sen (senjonas@gmail.com)