Ægir saman Þótt nútíminn hafi hafið innreið sína í Dubai eru sumir gamlir siðir í hávegum hafðir. Einn þeirra eru úlfaldakapphlaup. Í bakgrunninum má sjá Burj Dubai, sem stefnt er á að verði hæsta bygging heims gnæfa yfir önnur háhýsi.
Ægir saman Þótt nútíminn hafi hafið innreið sína í Dubai eru sumir gamlir siðir í hávegum hafðir. Einn þeirra eru úlfaldakapphlaup. Í bakgrunninum má sjá Burj Dubai, sem stefnt er á að verði hæsta bygging heims gnæfa yfir önnur háhýsi. — AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mohammed bin Rashid al Maktoum, emírinn af Dubai, hefur verið áberandi í viðskiptalífi heimsins að undanförnu. Hann heldur einnig áfram að byggja eigið ríki upp á markvissan hátt. En þeir eru til sem telja veldið byggt á sandi.

Eftir Guðmund Sverri Þór

sverrirth@mbl.is

MIKILL völlur hefur verið á emírnum af Dubai – Mohammed bin Rashid al Maktoum – á undanförnum árum og ekki hægt að segja annað en að mikið hafi borið á emírnum góða. Hann hefur nýtt olíuauð þann sem furstadæmið býr yfir til þess að byggja upp viðskiptaveldi á heimsmælikvarða og það heyrir orðið til undantekninganna að Dubai sé ekki nefnt meðal hugsanlegra kaupenda að hverju því sem er til sölu.

Öllum áhugamönnum um enska boltann er í fersku minni þegar al Maktoum hugðist kaupa knattspyrnufélagið goðsagnakennda Liverpool F.C. en lét óvænt í minni pokann fyrir tveimur bandarískum auðkýfingum – sem reyndar hafa ekki gert mikla lukku meðal aðdáenda liðsins. Þá eru afskipti hans af yfirtöku Nasdaq á kauphöllinni hér á landi og öðrum öngum OMX mörgum kunn.

Heimurinn og pálmarnir

Engum ætti að dyljast að í Dubai eru menn stórhuga. Þar er nú unnið að því að byggja stærsta flugvöll heims og ekki má gleyma Burj Al-Arab, hæsta hóteli heims og eina sjö stjörnu hótelinu norðan Suðurpólsins. Ekki má heldur gleyma eyjunum manngerðu.

Knattspyrnuhetjan David Beckham mun vera meðal þeirra sem keypt hafa sér hús á Palm Jumeirah – sem er eins og pálmatré í laginu og er stærsta manngerða eyja heims. Enn sem komið er. Emírinn hefur nefnilega enn stórbrotnari áætlanir. Brátt lýkur framkvæmdum við Heiminn (The World); 300 eyja klasa úti fyrir strönd Dubai sem á að vera nákvæm eftirlíking af plánetunni sem við búum á. Enn ku vera hægt að festa sér eyju og er verðið almennt sagt vera á bilinu 15-50 milljónir dala – fyrir 2 þúsund fermetra sandlóð og byggingarétt.

Þá lýkur brátt byggingu tveggja „pálmaeyja“ til viðbótar og verður Palm Deira sú stærsta. Þeir sem í framtíðinni fljúga yfir Dubai ættu að horfa vel því „blöðunum“ á Palm Deira verður stillt upp þannig að úr þrjú þúsund metra hæð verður hægt að lesa ljóð eftir emírinn, sem sagður er vera hagorður á við bónda úr Skagafirði.

Íkarus Mið-Austurlanda?

Auður al Maktoum byggist á olíufundi sem gerður var dag einn í júní 1957 en eins og fram kom í Viðskiptablaði Morgunblaðsins hinn 4. janúar 2007 („Sjeikinn sem gengur aldrei einn“) reynir al Maktoum með uppbyggingunni á Dubai að gera draum föður síns að veruleika, þ.e. að velsældin í Dubai muni ekki hverfa með olíunni. Eins og fram kemur hér í upphafi er engum blöðum um það að fletta að honum hefur a.m.k. tekist að vekja athygli á furstadæminu við Persaflóa en því fer fjarri að allir hafi trú á því að uppgangurinn í Dubai sé varanlegur.

Þeir eru nefnilega til sem telja drauminn byggðan á sandi og hafa jafnvel kallað emírinn og furstadæmið hans „Íkarus Mið-Austurlanda.“ Þar með vísa þeir til drengsins gríska sem smíðaði sér vængi úr vaxi og flaug. Hann flaug hins vegar of nærri sólinni, vaxið bráðnaði og Íkarus féll til jarðar þar sem hans beið bráður bani.

Það er ef til vill of sterkt til orða tekið að ætla að Dubai bíði bráður bani en eins og þeir sem ekki horfa til furstadæmisins með glampa í augunum hafa bent á er vel hugsanlegt að draumur sá er Mohammed bin Rashid al Maktoum vinnur sleitulaust að geti orðið að engu. Jafnskyndilega og auðurinn kom sumarið 1957.

Ferðamennska og viðskipti

Eins og áður segir gera al Maktoum og hans menn sér fullkomlega grein fyrir því að olíulindirnar gætu klárast einhvern tímann þegar fram líða stundir. Það er því mikilvægt að búa til nýjar tekjulindir, sem þurfa helst að vera jafnríkar og olíulindirnar en Sameinuðu arabísku furstadæmin ráða í dag um 10% af olíuforða heimins. Afskiptin af kaupum Nasdaq á OMX eru liður í því. al Maktoum dreymir um að Dubai verði ein af fjármálamiðstöðvum heimsins.

Annað markmið er að gera furstadæmið að ferðamannaparadís sem á sér engan líka. Væntanlega eru það þó ekki bjórsvolgrandi enskir miðstéttarmenn, eða almennir íslenskir sólardýrkendur, sem lokka á til Dubai. Það eru kaupsýslumenn, íþróttamenn og stjörnur skemmtanaiðnaðarins sem eiga að eiga sér athvarf við Persaflóa. Til marks um það eru eyjarnar dýru og sjö stjörnu hótelið auk þess sem finna má fimmtíu fimm stjörnu hótel í furstadæminu – sem reiknað er með að verði 300 talsins innan nokkurra ára. Ekki má svo gleyma að vilji menn bregða sér á skíði er það vel mögulegt í Dubai. Hér á norðurslóðum leggjum við mikla áherslu á að reisa knattspyrnuhús þannig að hægt sé að sparka tuðru að vetrarlagi en í Dubai stendur stærsta skiðahús í heimi.

Í þriðja lagi leggja emírinn og menn hans mikla áherslu á að gera Dubai að miðstöð verslunar. Verið er að byggja tvær verslunarmiðstöðvar í höfuðborginni og þótt það hljómi ótrúlega er markmiðið að þær verði báðar stærsta verslunarmiðstöð heims. Önnur verður sú stærsta neðanjarðar.

Ekki verður dregið í efa að al Maktoum hefur að stórum hluta tekist ætlunarverk sitt því á síðasta ári munu 62,5% tekna hins opinbera hafa komið frá annarri starfsemi en olíuvinnslu. Og miðað við lýsinguna hér að ofan mætti ætla að ekki væri ástæða til þess að óttast að þegar olíuna þverri muni draga úr lífsgæðum í veldi emírsins. Eins og áður segir eru þó engu að síður til úrtölumenn.

Tískusveiflur

Miklu fé hefur verið varið í að gera Dubai aðlaðandi fyrir ríka ferðamenn en ein þeirra spurninga sem efasemdarmenn spyrja sig er einfaldlega: Hvað gerist ef ferðamannastraumurinn lætur á sér standa? Enn sem komið er hefur það svo sem ekki gerst en það er ekkert sem tryggir að Dubai verði efst á lista ferðamanna um alla framtíð.

Sérstaklega áhættusamt gæti reynst að treysta á að fræga og ríka fólkið flykkist til Persaflóa eins og flugur að ljósi. Það hefur nefnilega sýnt sig að fræga fólkið getur verið alveg jafn hverfult og við hin, jafnvel hverfulla. Það fylgir tískustraumum og tískan breytist oft mjög ört.

Dag einn gæti Paris Hilton – eða einhverjum öðrum sem leggur fína fólkinu línurnar – dottið í hug að það sé gaman að djamma á Svalbarða og þá er er spurning hvort botninn muni ekki detta úr ferðamannaþjónustu Dubai.

Það er því mikilvægt að emírnum takist að nýta hnattvæðinguna sér í vil – laða erlend fyrirtæki til Dubai, t.d. fjármálafyrirtæki, og byggja þar upp miðstöð verslunar og viðskipta. Það er sem sé mikilvægt að eggin séu lögð í fleiri en eina körfu, nokkuð sem flest bendir til þess að al Maktoum hafi gert sér grein fyrir. En þá spyrja efasemdamennirnir hvað gerist ef ferill hnattvæðingarinnar breytist. Og hvað gerist ef óveðrinu á fjármálamörkuðum heimsins slotar ekki í bráð og allt fer á versta veg, með tilheyrandi kreppu líkt og á fjórða áratugnum þegar kreppan mikla lék marga grátt. Þá er ekki líklegt að fyrirtæki, sem væntanlega munu leggja mikla áherslu á hagræðingu og sparnað muni hafa uppbyggingu starfsemi í Dubai – sem eflaust er ekki ódýr – ofarlega á forgangslistanum.

Ótti við hryðjuverk

Að lokum má nefna að þótt emírinn og þegnar hans beri sig vel hefur verið sagt að þeir óttist fátt meira en hryðjuverk. Emírinn hefur ekki farið dult með aðdáun sína á Bandaríkjunum og er hann almennt sagður tryggasti vinur þeirra við Persaflóa. Til dæmis má nefna að bandríski flotinn hefur haft greiðan aðgang að höfnum í Dubai og allri þeirri þjónustu sem þar er boðið upp á. Það er því alls ekki hægt að útiloka að hryðjuverkamenn beini sjónum sínum að Dubai og verði ríkið fyrir árásum hryðjuverkamanna má telja fullvíst að Evrópubúar sem þar búa og starfa í dag myndu íhuga það vandlega að flytja sig um set.

Hver þróunin verður mun aðeins framtíðin leiða í ljós og sennilega munu draumar þeir sem emírinn af Dubai hefur að leiðarljósi flestir rætast. En það á víst aldrei að segja aldrei.

Í hnotskurn
» Nú eru enn á ný uppi vangaveltur um hvort al Maktoum sé hugsanlega að reyna að eignast knattspyrnufélagið Liverpool. Nýjustu fregnir herma að hann hafi fengið aðgang að bókum félagsins en eigendur þess neita þó staðfastlega að sala sé framundan.
» Ekki er nóg með að emírinn telji Bandaríkin til vinaþjóða sinna. Í þeim flokki má einnig finna Íran.
» Mohammed bin Rashid al Maktoum er fæddur 22. júlí 1949. Hann tók formlega við völdum af bróður sínum í ársbyrjun 2006 en hafði í raun farið með völdin í Dubai í heilan áratug.
» Árið 2006 kom út bók eftir al Maktoum þar sem hann lýsir draumnum og heimspekinni að baki góðærinu í Dubai.