Það er alltaf gaman fyrir kylfinga að prófa nýja velli sem þeir hafa ekki leikið áður. Ekki spillir ef þeir eru skemmtilegir, hæfilega krefjandi og fallegir. Skúli Unnar Sveinsson prófaði í haust nokkra þannig í og við Halifax í Nova Scotia í Kanada og er sannfærður um að íslenskir kylfingar myndu njóta þess að prófa þá.
Ferðir íslenskra kylfinga til útlanda til þess að leika golf hafa aukist gífurlega síðustu árin. Menn hafa aðallega horft til suðurhluta Evrópu og Bandaríkjanna í þeim efnum, sérstaklega á vorin og á haustin þegar farið er að síga á síðari hluta tímabilsins hér á landi. Menn nota þessar ferðir til að lengja tímabilið í annan endann – eða báða.
Kanada er áhugaverður kostur fyrir Íslendinga sem vilja leika golf á góðum völlum, hvort heldur er að vori, hausti eða sumri. Flugleiðir fljúga þrisvar í viku til Halifax í sumar og ekki er nema rúmlega fjögurra tíma flug þangað.
Í Nova Scotia eru fjölmargir fallegir og krefjandi golfvellir og í um klukkustundar akstur frá Halifax má komast á eina tólf velli sem eru hver öðrum betri.
Á haustdögum gafst undirrituðum færi á að leika golf á svæðinu í þrjá daga og voru fjórir vellir leiknir. Að auki var einn völlur til viðbótar skoðaður, en því miður gafst ekki tími til að spila hann, sem hefði þó verið mjög áhugavert því hann liggur utan í hæð, eða stórum hól þar sem leikið er kringum hólinn. Völlurinn, sem heitir Bluenose Golf Club, stendur gegnt bænum Lunenburg en einu sléttu fletirnir á honum eru teigarnir og flatirnar. Allt annað er í miklum halla enda segja forráðamenn vallarins í gamansömum tón að ekki sé verra að vera með annan fótinn töluvert lengri til að spila hann. Útsýnið þarna uppi á hæðinni er frábært og völlurinn mjög sérstakur en bráðskemmtilegur að því er virðist. Frá Halifax og á þennan völl er um 30 mínútna akstur.
Engar kríur að angra
Glen Arbour hét fyrsti völlurinn sem leikinn var og tók aðeins nokkrar mínútur að keyra þangað frá miðbæ Halifax. Völlurinn er mjög fínn en nokkuð erfiður, sérstaklega fyrri níu holurnar og því gott að hita vel upp áður en lagt er í hann. Talsvert er af vatni á þessum velli og mikilvægt að staðsetja sig vel ef ekki á illa að fara. Þetta uppgötvaði undirritaður ekki fyrr en á síðari níu holunum og þá gekk golfið miklum mun betur en á fyrri níu sem voru vægast sagt hræðilegar. Verður að bíða betri tíma að kljást við þær aftur – en þær eru vel þess virði og kylfingar ættu ekki að láta hann fram hjá sér fara séu þeir þarna á ferð. Völlurinn er 6.120 metrar af klúbbteigum og er par 72. Margar brautir á vellinum er mjög fallegar og allar eru þær skemmtilegar.Næsta morgun var farið á Chester-völlinn en þangað tekur um 20 mínútur að keyra. Skemmtilegur völlur þar sem ekki er verra að vera með löng upphafshögg. Völlurinn er úti á tanga, nokkuð um vatn og hellingur af sjó allt í kring, ekki ósvipað og úti á Seltjarnarnesi nema engar kríur eru að angra mann. Völlurinn er í fínu standi, flatirnar góðar og ekki mikið af trjám, fyrir utan nokkur risavaxin sem spilla þó ekki fyrir leiknum. Þetta er fínn völlur þó ekki sé hann eins flottur og Glen Arbour, 5.852 metrar af klúbbteigum og par 70.
Mikil gestrisni heimamanna
Leiðin lá einnig á White Point-völlinn sem er níu holur og nokkuð skemmtilegur strandvöllur. Völlurinn er hluti af frístundabyggð við Atlantshafið. Þetta er skemmtilegur staður þar sem hægt er að fara á ströndina yfir sumartímann.Síðasti völlurinn sem leikinn var heitir Digby Pines og er skammt frá glæsilegu heilsuhóteli og mjög skemmtilegur – ekkert síðri en Glen Arbour sem áður er getið. Hann er 5.665 metra langur, par 71, mjög vel hirtur og í alla staði hinn glæsilegasti. Gistingin á Digby Pines Golf Resort and Spa er heldur ekki í lakari kantinum og maturinn til mikillar fyrirmyndar.
Menn verða fljótt varir við mikla gestrisni heimamanna þegar Kanada er sótt heim, ekki ósvipað og menn upplifa þegar þeir heimsækja Íra og Skota til að leika golf. Að auki er Halifax bæði falleg og skemmtileg svo enginn verður svikinn af því að koma þangað.