Á toppnum Mikið er um að vera á Snæfellsjökli og umferðin eykst þegar líður á vorið. Boðið er upp á útsýnis- og skíðaferðir og snjósleðaferðir.
Á toppnum Mikið er um að vera á Snæfellsjökli og umferðin eykst þegar líður á vorið. Boðið er upp á útsýnis- og skíðaferðir og snjósleðaferðir.
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is Snæfellsnes | Nýir eigendur ferðaþjónustufyrirtækisins Snjófells á Arnarstapa hafa verið að endurnýja tækjakost fyrirtækisins vegna ferða á Snæfellsjökul og endurbæta aðstöðuna á Arnarstapa.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

Snæfellsnes | Nýir eigendur ferðaþjónustufyrirtækisins Snjófells á Arnarstapa hafa verið að endurnýja tækjakost fyrirtækisins vegna ferða á Snæfellsjökul og endurbæta aðstöðuna á Arnarstapa. Auk hefðbundinna snjósleðaferða leggja þeir áherslu á útsýnis- og skíðaferðir á jökulinn.

„Við höfum tekið í notkun 14 nýja snjósleða og tekið allt í gegn,“ segir Hjalti Sverrisson, markaðsstjóri Snjófells og Arnarstapa. Sverrir Hermannsson og Björgvin Þorsteinsson keyptu Snjófell í félagi við Rúnar Má Jóhannesson framkvæmdastjóra fyrirtækisins og Hjalta. Sverrir og Björgvin reka fjölda hótela, meðal annars Hótel Ólafsvík og Hótel Stykkishólm.

Snjófell er með snjótroðara-, snjósleða- og jeppaferðir á Snæfellsjökul og rekur veitingastaðinn Arnarstapa ásamt gistiheimili og tjaldsvæði þar.

„Við getum tekið stærri hópa en áður. Mikil aukning er á útsýnisferðum á jökulinn og skíða- og snjóbrettaferðum. Útsýnið þaðan er einstakt og það er ótrúleg upplifun að skíða niður,“ segir Hjalti. Einnig hefur verið aukin áhersla á hópferðir og hvataferðir fyrirtækja. Fyrirtækið annast alla þjónustu, í samvinnu við hótelin í Ólafsvík eða Stykkishólmi ef það hentar hópunum.

Mörg tækifæri

Ferðaþjónustan á Snæfellsjökli hófst í febrúar og hefur Snjófell tekið á móti mörgum hópum það sem af er ári. Viðskiptin aukast með betra veðri og færi. Háannatíminn er þó fyrrihluta sumars, í júní og júlí, og ef nægur snjór er er hægt að þjóna fólki fram í ágúst eða september.

Eigendur Snjófells láta ekki eldsneytishækkanir og spár um að Snæfellsjökull hverfi á þessari öld vegna loftslagsbreytinga slá sig út af laginu. Hjalti segir að nýrri tækin séu sparneytnari en þau eldri og það vegi hluta hækkanana upp.

Smækkuð útgáfa af Íslandi

Þá vill hann ekki hugsa til þess að jökullinn hverfi. „Snæfellsnes er einn fallegasti staður landsins, finnst mér, og er eins og smækkuð útgáfa af Íslandi. Svæðið hefur upp á svo margt að bjóða. Við erum aðeins í tveggja og hálfs tíma akstursfjarlægð frá höfuðborginni og þá er fólk komið út í stórbrotna náttúru,“ segir Hjalti Sverrisson, markaðsstjóri Snjófells og Arnarstapa.

Í hnotskurn
» Snæfellsjökull er 1.446 metra hár. Sést hann víða að af Vesturlandi og Reykjanesi.
» Hann er hluti af samnefndum þjóðgarði sem nær yfir vestasta hluta Snæfellsness.
» Snæfellsjökull er sögusvið bókarinnar Leyndardómar Snæfellsjökuls eftir Jules Verne.