Áfangastöðum flugfélaga frá Íslandi í Austur-Evrópu fjölgar stöðugt, og er það vel, því þar er margt að sjá og njóta. Einn þessara staða er Varsjá sem Iceland Express hefur beint flug til í maí.
Kannski er það vegna þess að maður er með staðlaða mynd í hausnum af Austur-Evrópu eða af því að maður veit ekkert við hverju má búast: Varsjá kemur í öllu falli skemmtilega á óvart enda er hún full af lífi, grænum svæðum, söfnum, leikhúsum, matsölustöðum og síðast en ekki síst góðu fólki því borgarbúar eru einstaklega gestrisnir, hlýir og persónulegir.
Varsjá er allt önnur en áður enda hefur borgin breyst ótrúlega mikið undanfarin ár. Fyrir áratug var hún ekki mjög aðgengileg fyrir erlenda ferðamenn því flestar götur voru eingöngu merktar á pólsku og fáir töluðu ensku. Nú eru allar götur og staðir merktir á ensku, menntun almenn og flestir enskumælandi, sérstaklega unga fólkið.
Borgin er vaxandi þar sem uppbygging hefur verið mikil frá falli kommúnismans árið 1989 og ekkert lát er á þeirri uppbyggingu. Varsjá er líka borg mikilla andstæðna, sem gerir hana einmitt sjarmerandi og fjölbreytta. Í miðbænum eru himinháir skýjakljúfar í vestrænum stíl sem minna á Manhattan, en skammt frá þeim leynast gamlar niðurníddar Rússablokkir sem minna á fortíð kommúnismans.
Þetta er því suðupottur þar sem austur og vestur mætast á margan hátt. Hæsta bygging Varsjár, Höll vísinda og lista, gnæfir dökk yfir í miðbænum og stingur skemmtilega í stúf við glerhýsin allt í kring. Byggingin er risavaxið minnismerki sem Stalín lét reisa um kommúnismann, og hún ber óneitanlega gamla tímanum vitni enda byggð í sovéskum stíl. Yngri kynslóðir Varsjárbúa telja þessa byggingu fagra en þeir sem eldri eru hata hana margir, því hún minnir á vonda tíma, sem þeir sjálfir upplifðu. Hvað sem heimamönnum finnst, mega þeir sem heimsækja Varsjá ekki sleppa því að gera sér ferð upp í þessa 42 hæða byggingu og horfa yfir borgina. Í þessari höll eru hvorki meira né minna en 3.000 herbergi, tvö leikhús, bíó, skrifstofur og ótal margt annað tileinkað vísindum og listum.
Besta kaffið í gamla bænum
Þeir sem koma til Varsjár mega heldur ekki missa af gamla bænum (Stare Miasto), sem er einstakt svæði. Þar eru gamlar hlýlegar byggingar, torg með iðandi mannlífi, götumarkaðir og allskonar veitingastaðir, litlar búðir og gallerí svo fátt eitt sé nefnt. Besta kaffið í Varsjá ku einmitt vera í gamla bænum á stað sem heitir Pozegnanie 2 Afryka. Fyrir þá sem lítið eru fyrir kaffi en kjósa heldur te, er óhætt að mæla með tehúsi í gamla bænum sem heitir Same Fusy. Þar fyrirfinnst einnig veitingastaðurinn Pierrogeria, fyrir þá sem vilja smakka á hinum klassíska pólska rétti pierogi. Þarna er þetta pastakennda góðgæti nefnilega ofnbakað, sem mörgum finnst mun kræsilegra en þegar það er soðið. Þessir réttir fást með nokkrum ólíkum fyllingum og bragði, en sá rússneski er sérlega góður.
Uppreisn og uppbygging
Varsjá er seigluborg, eða öllu heldur eru Varsjárbúar seiglufólk. Almennir borgarar fylktu liði og tókst hið ómögulega árið 1944 þegar neðanjarðarhreyfingin og heimaherinn reis upp gegn nasistum og hafði betur. Full ástæða er til að mæla með heimsókn í stórbrotið sögusafnið sem heitir einfaldlega 1944. Þetta safn er á þremur hæðum og frábærlega útfært. Það er mögnuð upplifun og öllum hollt að fara þangað.Varsjárbúar reistu líka borgina úr rjúkandi rústum eftir að hún hafði nánast verið jöfnuð við jörðu í heimstyrjöldinni síðari. Varsjá var París Austur-Evrópu áður en nasistarnir eyðilögðu hana í stríðinu. Gömlu fallegu byggingarnar í gamla bænum og hallir, kirkjur og aðrar stórbyggingar við konunglegu leiðina (Trakt Królewski) eru því í raun ekki „gamlar“ byggingar, heldur endurreistar nákvæmlega eins útlítandi og þær sem fyrir voru.
Garðar, tónlist og kaffinudd
Heilmikla náttúru er að finna í Varsjá, enda eru 21% af borginni græn svæði. Auk þess rennur áin Vistula í gegnum hana (og landið allt) og eru bakkar hennar grónir og fagrir. Fjölda garða er að finna borginni en stærstur þeirra og vinsælastur er Ùazienki garðurinn. Þetta er konunglegur hallargarður þar sem fólk safnast saman, fær sér göngutúr eða sest niður og nýtur náttúrunnar. Hann er einkar fagur með gömlum byggingum, páfuglum, íkornum og gróðri. Þar eru tónleikar haldnir undir berum himni yfir sumartímann, öllum opnir, sem og útileiksýningar og notaleg kaffihús.Tónlistarlíf er í miklum blóma í Varsjá, hvort sem tónlistin er klassík, djass eða hipp hopp. Af nægu er að taka en nefna skal Tygmont djassbarinn við götu sem heitir Mazowiecka, en þar er spiluð lifandi djasstónlist á hverju kvöldi. Að lokum eru allir hvattir til að skella sér í níutíu mínútna kaffinudd á stofu í miðbænum sem kennd er við Svíþjóð og heitir Ce-Ce. Algjör himnasæla.
khk@mbl.is