Árbítur Nýbökuð bagetta með smjöri og sultu, café au lait og ávaxtasafi. Hinn fullkomni “petit déjeuner.
Árbítur Nýbökuð bagetta með smjöri og sultu, café au lait og ávaxtasafi. Hinn fullkomni “petit déjeuner.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Morgunstund gefur gull í mund.“ Hanna Friðriksdóttir sannreyndi máltækið yfir morgunmat í borg rómantíkurinnar, París.

París er borg rökkurs „par excellence“, borg eilífra ljósaskipta. Síbreytileg birtan mild vegna grárra háhýsanna, þröngra stræta sem minna á fiskabúr: lagskipt líf í litum, botngróðurinn líflegastur. En gráminn er hlýr þökk sé ótal ljósastaurum frá liðnum öldum (þessum luktarlegu, rómantísku), upptendruðum búðargluggum og síðast en ekki síst heitum ilmi sem berst frá opnum bakaríum, sérverslunum og sölumönnum ýmiss konar. Hvað er notalegra en ristaðar kastaníuhnetur í kulda, rjúkandi pönnukökur í rigningu? Nú eða nýbakað croissant eða baguette með smjöri og sultu og café au lait í morgunsárið?

Parísartúristum er eindregið ráðlagt að að fá sér morgunmat „le petit déjeuner“ á einhverju af hinum fjölmörgu og sjarmerandi kaffihúsum borgarinnar, en ekki á hótelinu (þó auðvitað sé það notalegt líka). Það er hins vegar eitthvað ólýsanlegt og töfrandi við það að vakna með borginni, fylgjast með lífinu fara á stjá, finna ómengaðan ilm af nýbökuðum smjörhornum og brauði og náttúrlega hinn óviðjafnanlega kaffiilm áður en útblástursfýla bílanna, skelfisklykt útisöluborða fiskbúða og veitingastaða og önnur lykt sem tilheyrir París blandast um of hinni mjúku hlýju morgunlykt.

Til þess að ná að fanga þessi sérstöku andartök, þarf maður helst að vera kominn út á kaffihús ekki seinna en kl. 7 og nú rétt eftir að sumartími hefur gengið í garð í Evrópu og klukkan færð fram, er enn rökkvað á þessum tíma og hægt að fylgjast með ljósakiptunum og horfa á borgina teygja úr sér eins og köttur eftir langan dúr. Svo árla morguns hefur maður líka kaffihúsin nánast útaf fyrir sig, sem er góð og slakandi byrjun á Parísardegi, því áreiti af öllu tagi er mikið í hinni lifandi höfuðborg Frakklands.

Það er því til mikils að vinna að rífa sig upp jafnvel þótt vakað hafi verið lengi frameftir í Parísarfjöri. Það er alltaf hægt að skríða aftur undir sæng og fá sér síðmorgunlúr (afar rómantískt meira að segja), en rjúkandi brauð- og kaffiilmur í ljósaskiptum á mannauðu kaffihúsi í París er einungis í boði við sólarupprás.

www.cafe-de-flore.com/index2.htm www.lesdeuxmagots.fr www.laduree.fr Gerard Mulot, rue de Seine 76 www.brasserie-lipp.fr Café de l´industrie, rue Saint-Sabin 17 Cafe Charbon, Rue Oberkamp 109 www.lamaisonduchocolat.com Cafes of Paris eftir Christine Graf er þá frábær kaffihúsavísir um kaffihús Parísarborgar sem enginn Parísarunnandi ætti að láta fram hjá sér fara.
Höf.: Hanna Friðriksdóttir