Mortens Gæstehus Bleik hurð á bláa húsinu auðkennir innganginn.
Mortens Gæstehus Bleik hurð á bláa húsinu auðkennir innganginn. — Morgunblaðið/Steinþór
SUMIR segja að hvergi sé betra að gista í Kaupmannahöfn en á D'Angleterre hótelinu við Kóngsins Nýja torg. Það er enda fimm stjörnu hótel þar sem fá má tveggja manna herbergi fyrir meira en 3.

SUMIR segja að hvergi sé betra að gista í Kaupmannahöfn en á D'Angleterre hótelinu við Kóngsins Nýja torg. Það er enda fimm stjörnu hótel þar sem fá má tveggja manna herbergi fyrir meira en 3.000 krónur danskar á nóttu, um 48 þúsund krónur, miðað við að danska krónan kosti 16 krónur. Flestum finnst samt óþarfi að miða aðeins við það besta og dýrasta og benda á að fá megi ágætis tveggja manna gistingu í miðbænum fyrir um 1.100 til 1.200 kr. danskar.

Hins vegar slær fátt út verðið hjá Morten H. Frederiksen sem tekur 550 danskar krónur fyrir tveggja manna herbergi í gistihúsi sínu, Mortens Gæstehus, við Torvegade 36 í Kristjánshöfn, Christianshavn, sem er í 10 til 20 mínútna göngufæri frá D'Angleterre og skammt frá íslenska sendiráðinu.

Morten H. Frederiksen byrjaði að leigja út frá sér herbergi á sumrin fyrir um aldarfjórðungi. Hann segist hafa gert þetta sér til gamans og til að nýta herbergin, en 1998 hafi hann stokkið út í djúpu laugina, sagt upp vinnunni og einbeitt sér að útleigu herbergja, byrjað að leigja út fimm herbergi allt árið en haldið íbúðinni á efstu hæð. Það hafi gengið vel og hann vilji helst engu breyta.

Allt til alls en enginn lúxus

Gistihúsið er í um hálfrar aldar gamalli byggingu, sem er nánast við torgið í Kristjánshöfn, þar sem allt er til alls. Þar er viðkomustaður Metro, neðanjarðarlestar, sem gengur annars vegar út á flugvöll og hins vegar til Kóngsins Nýja torgs og þaðan áfram. Þar eru biðstöðvar strætisvagna, hraðbankar, lágvöruverðsverslun og eitt besta bakarí Kaupmannahafnar. Í næsta nágrenni eru kirkjur, krár og þónokkrir veitingastaðir, meðal annars veitingahúsið Noma, sem er í sömu byggingu og íslenska sendiráðið og eina veitingahúsið í Danmörku sem er með tvær stjörnur í Michelin-bæklingnum. Knippelsbrúin er á næsta leiti og þegar komið er yfir hana er ekki langt í Strikið.

Ekki er boðið upp á sérstakan lúxus á gistiheimilinu, þar er til dæmis hvorki útvarp né sjónvarp, en herbergin eru snyrtileg og rúmgóð með borðstofuborði og stólum.

Baðherbergi og salerni eru sameiginleg og gestir hafa aðgang að eldhúsi, en þó er ekki gert ráð fyrir að þeir eldi þar mat.

Í stutt máli, heimilislegt gistihús á þægilegum stað með alla nauðsynlega þjónustu nánast við útidyrnar. Verðinu mjög stillt í hóf enda enginn lúxus í boði og gestir þurfa að deila baðherbergi og tveimur salernum.

Gistiheimili Mortens , Torvegade 36, Christianshavn Sími: (+45) 32953273. vefsíða: www.chickens.dk netfang: morten@chickens.dk