Aukin ferðaþjónusta Ingibjörg Þórhallsdóttir heldur utan um Breiðafjarðarfléttuna.
Aukin ferðaþjónusta Ingibjörg Þórhallsdóttir heldur utan um Breiðafjarðarfléttuna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gunnlaug Árnason Stykkishólmur | Ferðaþjónustuaðilar á Snæfellsnesi, í Dölum og báðum Barðastrandarsýslum tóku höndum saman í desember á síðasta ári og stofnuðu félagsskap sem heitir Breiðafjarðarfléttan.

Eftir Gunnlaug Árnason

Stykkishólmur | Ferðaþjónustuaðilar á Snæfellsnesi, í Dölum og báðum Barðastrandarsýslum tóku höndum saman í desember á síðasta ári og stofnuðu félagsskap sem heitir Breiðafjarðarfléttan. Tilgangur félagsins er að efla og styrkja ferðaþjónustuaðila við og umhverfis Breiðafjörð og auka samstarf þeirra á milli.

Ingibjörg Þórhallsdóttir hefur tekið að sér að halda utan um starfsemi félagsins og stýra vinnu félagsmanna við að ná markmiðum félagsins, en þau eru meðal annarra að mynda tengslanet og auka samstarf, efla gæði þjónustunnar og þekkingu félagsmanna, efla markaðsstarf, auka arðsemi greinarinnar og lengja ferðamannatímann.

Ingibjörg segir að sér lítist vel á hópinn sem að félaginu stendur, en það eru 26 ferðþjónustuaðilar á félagssvæðinu. „Þarna eru mjög áhugasamir einstaklingar í ferðaþjónustu sem ætla í sameiningu að efla ferðaþjónustuna á þessu svæði.“ Upphaf félagsins má rekja til möguleika í vaxtarsamningum Vesturlands og Vestfjarða til að styrkja þróunarverkefni af þessu tagi, auk þess sem Útflutningsráð styður við bakið á starfinu með ráðgjöf og fræðslu.

„Félagar í Fléttunni eru flestir einyrkjar og eins er þjónustan mjög árstíðabundin. Samlegðaráhrif hópsins eru því mikilvæg til að byggja upp öflugri ferðaþjónustu og vinna sameiginlega að markaðsmálum,“ segir Ingibjörg. „Samvinnan felst m.a. í því að bæta upplýsingamiðlun og þróa fjölþættari þjónustu og að fá ferðamennina inn á svæðið en samkeppnin í því að veita betri og eftirsóknarverðari þjónustu þegar ferðamaðurinn er kominn á svæðið.“ Að sögn Ingibjargar hefur starfið gengið vel. Félagar í Breiðafjarðarfléttunni hafa hist nokkrum sinnum í vetur á fræðslu- og vinnufundum og hafa að auki kynnst og lært á þjónustu hver annars. „Í þessum hópi lærist fólki að horfa á heildina en ekki bara á sitt fyrirtæki.“

Svæðið er ein heild

„Við erum að vinna á gríðarlega stóru svæði sem nær til tveggja landshluta, sem við lítum á sem eina heild. Þetta er talsverð áskorun fyrir okkur því að allt skipulag og innviðir svæðanna miða við tvö svæði. Þetta á ekki síst við um samgöngur sem, einkum norðan fjarðarins, gera daglegt líf íbúanna erfiðara og flækja markmið okkar um að lengja ferðaþjónustutímann. Lenging ferðamannatímans kostar undirbúning, hún kemur ekki af sjálfri sér og er ekki á valdi neins eins ferðaþjónustuaðila. Þetta krefst samvinnu og samhæfðra aðgerða. Þar skipta ákaflega margir hlutir máli. Það þarf að þróa og bjóða upp á afþreyingu og þjónustu sem höfðar til ferðamanna utan háannatímans og koma á framfæri hvað stendur til boða. Þetta krefst m.a. sameiginlegrar markaðssetningar. Við erum nú að vinna að sameiginlegri heimasíðu sem fer í loftið í maí. Hún verður leitarvélarvæn til að hún finnist auðveldlega meðal allra þeirra vefsetra sem eru í samkeppni um athygli ferðamannsins á netinu og þarna erum við að tala um bæði íslenskan og erlendan markað. Vefsíður með góðum og áhugaverðum upplýsingum er eitt öflugasta markaðstækið sem við höfum í dag til að vekja athygli á svæðinu og við verðum að notfæra okkur þann miðil,“ segir Ingibjörg.

Hún segir að félagar í Breiðafjarðarfléttunni telji að góðar og öruggar samgöngur séu ein af forsendum fyrir því að fá fleiri ferðamenn inn á svæðið. Á svæði Breiðafjarðarfléttunnar vantar mikið upp á hnökralausar samgöngur og gott aðgengi að áhugaverðum stöðum.

Uppbygging liður fyrir samgöngur

Hún nefnir að uppbygging heilsársvegar um Barðaströnd gangi ótrúlega hægt. Eins þurfi að bæta aðgengi að náttúruperlum eins og Látrabjargi og að Skógarstrandarvegur, sem þó er tengivegur milli Dalasýslu og Snæfellsness, sé sniðgenginn af ferðafólki þar sem hann er ekki malbikaður og margir, ekki síst útlendingar, forðast malarvegi eins og pestina.

„Það er synd að uppbygging ferðaþjónustu á svæði sem hefur upp á svo margt að bjóða, fallega náttúru, ríka sögu og menningu og fjölbreytta afþreyingarmöguleika skuli þurfa að líða fyrir það hve samgöngum er víða ábótavant á svæðinu.“

Ingibjörg segir að verkefnið sé fjármagnað í tvö ár. Að þeim tíma liðnum vonar hún að félagar í Breiðafjarfléttunni hafi náð mælanlegum árangri í samstarfinu og sjái sér hag í áframhaldi samstarfi, þó að fyrirkomulag á fjármögnun eða formi félagsins breytist. „Markmiðið er jú að fá fleiri ferðamenn á svæðið og veita þeim betri og fjölbreyttari þjónustu. Þannig geti ferðaþjónustan vaxið og skilað arði fyrir þá sem að henni standa og styrkt stoðir byggðanna á svæðinu,“ segir Ingibjörg.

Í hnotskurn
» Breiðafjarðarfléttan er félag ferðaþjónustufyrirtækja á Snæfellsnesi, í Dölum og Barðastrandarsýslum.
» Tilgangurinn er að efla og styrkja ferðaþjónustuaðila við Breiðafjörð og auka samstarf.
» Í Breiðafjarðarfléttunni eru 26 ferðaþjónustuaðilar.