Í Landamannalaugum Það er enginn leikur að vera skálavörður að vetrarlagi en sannarlega skemmtilegt að sögn Kerstinar Langenberger sem kann hvergi betur við sig en úti í íslenskir náttúru.
Í Landamannalaugum Það er enginn leikur að vera skálavörður að vetrarlagi en sannarlega skemmtilegt að sögn Kerstinar Langenberger sem kann hvergi betur við sig en úti í íslenskir náttúru. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var eintóm tilviljun sem réð því er hún kom fyrst til Íslands fyrir sjö árum til að hugsa um hænsn í Svarfaðardal. Núna vill Kerstin Langenberger þó hvergi annars staðar vera. Fríða Björnsdóttir hitti þýska kjarnakonu.

Hún Kerstin Langenberger telur sig ekki hafa verið neina sérstaka ævintýrastúlku fyrir einum sjö árum þegar hún lagði land undir fót og hélt til Íslands frá Þýskalandi. Henni hefur líklega ekki dottið í hug þá að hún ætti eftir að verða skálavörður í skálum Ferðafélags Íslands í Þórsmörk og Landmannalaugum, ljúka námi frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og vera nú í þann veginn að hefja meistaranám á Hólum. En sú hefur þó orðið raunin.

„Það var algjör tilviljun að ég kom til Íslands árið 2001. Ég hafði lokið stúdentsprófi og mig langaði til að fara eitthvað, en ég vissi ekki hvert. Ég fór á vinnumiðlunarskrifstofu og endirinn varð sá að ég var send til Íslands. Fyrst vann ég eitt ár úti í sveit eins og svo margir útlendingar gera, sérstaklega kannski frá Þýskalandi. Hingað koma margar þýskar stelpur og fá vinnu á sveitabæjum vegna þess hvað þær hafa mikinn áhuga á hestum.“

Byrjaði í hænsnunum

Kerstin byrjaði þó ekki að hugsa um hesta heldur hænsni þar sem hún fékk vinnu á Klaufabrekku í Svarfaðardal. Þar var hún í sex vikur en fór þá suður og var fyrst í Austur- og síðan í Vestur-Landeyjum. Eins og ráð hafði verið fyrir gert var hún hér í eitt ár og fór svo aftur heim til Þýskalands og í líffræðinám í háskólanum í Bonn. Hún er reyndar frá litlum bæ, Lohmar, svona helmingi stærri en Akureyri, sem er milli Kölnar og Bonn.

„Ég kom aftur árið 2003 og nú vildi ég bara vera hér. Ég fór í háskólann á Hvanneyri og var þar í þrjú ár og lærði landnýtingu.“

En margt hefur Kerstin gert fleira þessi síðustu ár, skroppið til Nýja-Sjálands, farið aftur til Þýskalands og loks kom hún enn og aftur til Íslands í september sl. Tvö sumur hafði hún reyndar verið skálavörður í Emstrum og í haust lá leiðin í Þórsmörk þar sem hún var í sex vikur. Nú er hún nýkomin úr Landmannalaugum þar sem hún var skálavörður í tíu vikur og er nú farin að vinna á skrifstofu Ferðafélags Íslands. Hún segist vera að afla peninga til að fara í haust í Háskólann á Hólum. Þar ætlar hún að fara í meistaranám í ferðamálafræðum.

Varðandi valið á Háskólanum á Hólum segir Kerstin að sig hafi langað að vera fyrir norðan því sér finnist svo fallegt þar. Fram að þessu hafi hún aðallega kynnst Suður- og Vesturlandinu. Hún býst við að verða ein þrjú ár á Hólum enda þurfi hún að taka nokkra grunnkúrsa í ferðamálafræðunum sem hún hafi ekki úr landnýtingunni á Hvanneyri en meistaranámið sé annars bara tvö ár.

Rosalega fallegt í Landmannalaugum

Við snúum okkur aftur að skálavörslunni og spyrjum hvort ekki sé ólíkt að vera vörður á sumrin og veturna.

„Jú, það er mikill munur. Á veturna er til dæmis mikið af jeppafólki sem kemur í Landamannalaugar og þá í allt öðrum tilgangi en sumarferðamennirnir sem eru mikið á göngu úti í náttúrunni. Mig langaði samt að prófa vetrarvörslu og veit nú að það er miklu meira vesen heldur en á sumrin. Annars er svo rosalega fallegt í Landmannalaugum og ég hef notið þess að vera mikið á gönguskíðum og snjóþrúgum í vetur.“

Skálavarslan að vetrarlagi er enginn dans á rósum fyrir unga stúlku, sem þar að auki er útlendingur. Það heyrist á tali Kerstinar. „Meginvinnan er fyrst og fremst fólgin í að þrífa og sjá til þess að allt sé í lagi í skálanum. Yfir veturinn er mikilvægt að fylgjast vel með öllu, til dæmis að vatnið frjósi ekki í leiðslunum, og ég gerði í raun sjálf allt sem ég get gert í viðhaldi. Að auki þurfti ég auðvitað að gefa alls konar upplýsingar. Á sumrin þarf skálavörður líka að veita fyrstu hjálp og jafnvel leita að fólki. Þegar ég var í Emstrum, sem er mjög góður staður, lenti ég sem betur fer ekki í neinu slæmu. Ég hef bara þurft að hjálpa fólki smávegis ef það hefur dottið og meitt sig.“

Dró bíla upp úr Krossá

Það hefur vissulega verið ævintýri fyrir Kerstin eins og aðra skálverði í Þórsmörk að þurfa að draga bíla upp úr Krossánni og leiðbeina rútunum yfir árnar. Líklega töluvert ólíkt því sem vinkonur hennar í Þýskalandi aðhafast þessa stundina. „Ég var á stórri dráttarvél og þetta var svaka skemmtilegt. Það þarf oft að hjálpa jafnvel nokkrum bílum á dag úr ánni.“

Kerstin segist ekki hafa verið nein ævintýrastúlka í Þýskalandi en þó kannski svolítið náttúrubarn innst inni. Hún hafi haft gaman af að ganga úti í skógi í nánd við heimili sitt en aldrei farið í fjallgöngur suður í Ölpunum. „Nú langar mig hins vegar ekkert að vera í Reykjavík. Mig langar bara út í náttúruna. Mér hafði aldrei dottið í hug að ég myndi lenda í þessu. Dreymdi ekki einu sinni um það.“

Foreldrum Kerstinar fannst mjög skrýtið að dóttir þeirra skyldi ætla að flytjast til annars lands. Þeir eru þó alveg búnir að sætta sig við það núna og hafa meira að segja heimsótt hana hingað þrisvar sinnum, líst mjög vel á landið og skilja hana nú orðið alveg. Heima á Kerstin tvo yngri bræður en hún skellihlær þegar hún er spurð hvort þeir eigi kannski eftir að fylgja henni til Íslands. „Nei, þeir eru alls ekki að hugsa um að koma hingað. Þeir vilja ekki tala önnur tungumál en þýsku og þeir eru eins og strákar eru, hugsa bara um bíla og stelpur. Eru alls ekki neinir ævintýradrengir,“ segir Kerstin að lokum á reiprennandi íslensku sem fær Íslendinginn til að öfunda hana af því hvað henni hefur tekist að ná góðum tökum á okkar ástkæra ylhýra máli.

www.images-of-iceland.com

Kerstin er mikill landslagsljósmyndari og segir að mesta áhugamálið sé að taka ljósmyndir af íslenskri náttúru. Hún er að koma sér upp heimasíðu þar sem hægt verður að sjá má myndir hennar í framtíðinni en þar eru nú þegar nokkrar frábærar myndir.

fridabjornsdottir@gmail.com

Höf.: Fríða Björnsdóttir