Margt kræsilegt er að finna í Varsjá, eins og blaðamaður komast að þegar hann flaug þangað með Iceland Express á dögunum. Hún nálgast til dæmis alsælu unaðstilfinningin sem fylgir því að drekka hnausþykkt súkkulaði með bragðtegund að eigin vali. Slíkir drykkir eru reiddir fram á súkkulaðikaffihúsum sem kennd eru við E. Wedel og eru höfuðstöðvar þess fyrirtækis í Varsjá, þó útibú E. Wedel sé einnig að finna víða um heim). Hægt er að gæða sér á þessum unaðsdrykk til að mynda með chillíbragði, amaretto, kanil, berja- eða rommbragði, svo fátt eitt sé nefnt. E. Wedel hefur framleitt eðalsúkkulaði síðan 1851. Og þó að nokkra E. Wedel-staði sé að finna í verslunarmiðstöðum Varsjár er það alls ekki sama stemning og í aðalstaðnum við Szpitalna götu. Þar inni er hátt til lofts, innréttingar vandaðar og einhver forn virðing liggur í loftinu. Óhætt er að mæla með því að bregða sér þar inn, bragða á einum súkkulaðidrykk og kaupa kannski á leiðinni handunna súkkulaðimola sem bráðna í munni.
Tandorí höllin dásamlega
Þeir sem hafa áhuga á að fara út að borða í Varsjá geta eflaust fengið nettan valkvíða því úrval veitingastaða er mikið.Það er alltaf viss sjarmi yfir því að freista gæfunnar á pínulitlum veitingastöðum, sem kannski framreiða jafn framandi og ópólska fæðu og egypskan skyndibita. Indverskir staðir hafa þá ekki síður gert innreið sína í Pólland og hefur Tandoor Palace, eða Tandorí höllina við Marszalkowska-götu það orð á sér meðal heimamanna að vera einn af bestu indversku veitingastöðum Evrópu. Þar hittist enda vikulega hópur fólks í Varsjá sem nefnir sig Karrí klúbbinn. Sagt er að Tikka masal-kjúklingurinn í Tandorí höllinni eigi sér sinn sérstaka aðdáendahóp. „Rétta“ andrúmsloftið er sett með indverskri tónlist og ekki skemmir fyrir að þar má oft sjá viðskiptavini úr hópum sikka með túrbanvafin höfuð. Veitingastaðurinn India Curry hefur þá ekki síður gott orð á sér en verðlagið er aðeins hærra en í höllinni.
Magadans eða mötuneyti
Í Varsjá má finna veitingastaði frá öllum heimshornum. Líbanski staðurinn Le Cedre og fondú staðurinn Rabarbar eru góð dæmi um þetta. Marrakesh er ekki síðri fulltrúi hins alþjóðlega andrúmslofts, en þar er framreiddur matur frá austurlöndum, vatnspípur boðnar viðskiptavinum sem síðan geta notið þess að fylgjast með magadansi meðan á borðhaldi stendur. Sushi staðir eru sömuleiðis margir og er vert að benda á austurlenska staðinn Papaya við Folksal-götu, en þessi staður sem er eins konar blanda af japönskum, kínverskum og taílenskum stað hlaut í fyrra sérstök verðlaun sem „besti staðurinn fyrir tvo“.Svo má að sjálfsögðu ekki sleppa því að prófa hefðbundinn pólskan mat, því fjölda pólskra veitingastaða er að sjálfsögðu að finna í borginni. Sérstaklega er hægt að mæla með Literacka við Konungstorgið í gamla bænum. Þar var rekið mötuneyti fyrir rithöfunda á tímum kommúnismans, en nú er staðurinn opinn öllum og þar fæst hefðbundinn pólskur heimilismatur á sérstaklega hagstæðu verði.
Bjór í mörgum litum
Fyrir bjóráhugafólk er tilvalið að skella sér á Browarma-veitingastaðinn við Krolewska-götu í nágrenni háskólans. Þar er bjórinn bruggaður á staðnum og á margar ólíkar tegundir í boði. Dökki bjórinn þar er mjög sérstakur og góður fyrir heilsuna segja sumir, en við gerð hans er notaður sérstakur gersveppur. Browarma býður líka upp á svonefnda „konubjórar“ – þ.e. bjór í öllum regnbogans litum, og það verður að viðurkennast að það getur verið nokkur tilbreyting í því að drekka grænan eða rauðan bjór með ávaxtabragði.Kaffihúsin í Varsjá eru óteljandi rétt eins og matsölustaðirnir, en vert er að nefna Cafe Vogue í hjarta Varsjár sem og tehúsið Herba Thea. Mannlífið og kaffihúsin í Úazienki garðinum klikka ekki heldur. Cafe „pod witrazem“ í gamla bænum er þá heimsóknarinnar virði, en þar ræður hún Barbara ríkjum. Staðnum er líklega best lýst sem bleikum og kvenlegum og er andrúmsloftið einkar heimilislegt.
Kanilbar eða Listaspíruhverfi?
Þegar fara á út að kveldi er ekki úr vegi að skreppa á Panorama klúbbinn sem er á fertugustu hæð Marriott-hótelsins í einum af skýjakljúfum miðbæjarins. Panorama-klúbburinn er frábær staður til virða borgina fyrir sér, þó að drykkirnir séu í dýrari kantinum.Cinnamon, eða Kanilbarinn er þá vinsæll meðal unga, ríka og fallega fólksins en þeir sem kjósa meiri notalegheit ættu frekar að gera sér ferð til Praga sem var gyðingahverfi Varsjár fyrir heimsstyrjöldina síðari. Praga er í mikilli uppsveiflu og þar að finna gnægð af skemmtilegum börum, klúbbum og kaffihúsum enda býr fjöldi listamanna í hverfinu.
khk@mbl.is