Eftir Steinunni Ásmundsdóttur
steinunn@mbl.is
Fljótsdalur | Vatnajökulsþjóðgarður, stærsti þjóðgarður Evrópu, verður formlega stofnaður 7. júní n.k. Fyrsta nýja gestastofa þjóðgarðsins verður byggð á Skriðuklaustri í Fljótsdal og á að vera tilbúin í júní að ári. Að auki verða reistar gestastofur á Kirkjubæjarklaustri, Höfn og við Mývatn og gestastofur í Skaftafells- og Jökulsárgljúfraþjóðgörðum munu falla undir hinn nýja þjóðgarð.
Efnt var til opinnar hönnunarsamkeppni um útlit gestastofu að Skriðuklaustri og beðið um drög að hinum gestastofunum í samhljómi við hana. Höfundar vinningstillögunnar eru arkitektarnir Birgir Teitsson og Arnar Þór Jónsson hjá Arkís ehf., í samstarfi við Ara Trausta Guðmundsson, Árna Bragason, Hörpu Birgisdóttur, Helgu J. Bjarnadóttur og Jóni Skúla Indriðason hjá Línuhönnun hf. Í umsögn dómnefndar segir m.a. að tillagan sé vel úthugsuð og öguð. Aðkoma og tenging við útisvæði vel leyst, byggingin sitji vel í landinu, fyrirkomulag sé opið og sveigjanlegt og rýmisnýting góð. Þá sé útlit byggingarinnar stórskorið og efnisval sannfærandi.
Skriðjökullinn klýfur bergið
Húsið byggist á þremur meginrýmum; þjónustu- og starfsmannaálmum sinni hvorum megin við fræðsluhús og segja höfundar álmurnar tvær hugsaðar sem berggrunn og fræðsluhúsið flæði milli þeirra líkt og skriðjökull. Rís þak fræðsluhússins upp til tveggja átta í allt að 6 metra hæð. Utan á því verður rauðbrúnn kopar, en álmurnar úr rákaðri steypu og lerkiflekum og gróðurþekja á þaki álmnanna. Unnt verður að opna fræðsluhúsið út í náttúruna og tengja þar á milli. Úti verður m.a. veggur skreyttur táknum vatns, íss, hrauns og vinds, n.k. baksvið útifræðslu, og verða slíkir veggir líklega í öllum gestastofum þjóðgarðsins. Stærð byggingarinnar er áætluð 565 fermetrar og byggingarkostnaður um 170 milljónir króna.Búið er að ráða 40 landverði til starfa í Vatnajökulsþjóðgarði og á næstu dögum verður ráðið í starf þjóðgarðsvarðar á Skriðuklaustri. Framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs er Þórður H. Ólafsson.