Heillandi Toronto er sannkallaður suðupottur mannlífs úr öllum heimsins hornum. Þar ægir saman skýjakljúfum, framsæknum arkitektúr og gömlum byggingum, en þrátt fyrir það býr borgin yfir þokka og ferskum andblæ.
Heillandi Toronto er sannkallaður suðupottur mannlífs úr öllum heimsins hornum. Þar ægir saman skýjakljúfum, framsæknum arkitektúr og gömlum byggingum, en þrátt fyrir það býr borgin yfir þokka og ferskum andblæ. — Morgunblaðið/Ferðamálaráð Toronto
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is Toronto er borg andstæðna og kraumandi menningar.

Eftir Steinunni Ásmundsdóttur

steinunn@mbl.is

Toronto er borg andstæðna og kraumandi menningar. Þar ægir saman nútímalegum skýjakljúfum og gömlum glæsibyggingum, kanadískum sérkennum og menningu fjölmargra þjóðarbrota sem sett hafa sterkan svip á umhverfið.

Borgarhverfin eru hvert með sínu auðkenni og auðvelt að kjósa sér umgjörð eftir erindi. Kínahverfið, Litla-Ítalía, gríska hverfið, Kóreuhverfið, fjármálahverfið og strandsvæðið eru til dæmis um það. Menning og listir eru hátt skrifaðar og gildir þá einu hvort um er að ræða tónlist, byggingarlist, hönnun, bókmenntir, kvikmyndir eða myndlist. Andrúmsloft borgarinnar er þægilegt, auðvelt að rata í vel skipulögðu samgangnakerfi og heimamenn greiðviknir með upplýsingar um hvaðeina. Skilvirkar upplýsingar fyrir ferðafólk finnast á hverju strái.

Brugghús hýsa blómstrandi list

Kanadísk saga er hvarvetna í borgarlandslaginu og talsvert lagt í að minna vegfarendur á hana, t.d. í formi skúlptúra á almannafæri sem vísa í söguna, eða með byggingarsögulegri friðun heilla húsaraða.

Gott dæmi um slíka varðveislu er Distillery District, hverfi sem eitt sinn hýsti eina af stærstu bruggverksmiðjum veraldar. Þar, í hjarta borgarinnar, var ýmislegt framleitt og m.a. bruggaður bjór, rúgviskí og romm til sölu innanlands og flutnings yfir landamærin til Bandaríkjanna á bannárunum.

The Distillery samanstendur af rúmlega 40 byggingum við nokkrar götur og teljast húsin einhver best varðveittu sýnishorn af viktoríönskum iðnaðararkitektúr í norðurhluta álfunnar. Fyrir nokkrum árum var ákveðið að varðveita The Distillery og gera hverfið að griðastað framsækinna lista og hönnunar með vönduðum veitingahúsum, verslunum, vinnustofum, leik- og kvikmyndahúsum og sýningarsölum. Þar býr líka fjöldinn allur af listafólki, eða rúmlega tvö þúsund manns. Ferðamenn laðast að hverfinu eins og býflugur að hunangi, enda ríkir þar indæll og frjálslegur andblær frumlegrar hugsunar og framsækni. Það er afar vinsælt sem bakgrunnur í kvikmyndir, eins og reyndar Toronto-borg öll og algengt er að halda þar stórveislur utandyra.

Meðal þeirra unaðssemda sem sú er þetta skrifar varð aðnjótandi á ferð sinni um The Distillery, var súkkulaðihimnaríkið Soma sem er svo eftirsótt að meira að segja íkornar hverfisins halda til þar fyrir utan. Skartgripaverkstæði Tonys Leungs; Corktown Jewellery Gallery (hverfið er ekki kallað Korkbær að ófyrirsynju, vísað er þar til flöskutappa fortíðarinnar). Auto Grotto, þar sem Len Curtis selur með sínum óforbetranlega sjarma eftirlíkingar af öllum bílum og mótorhjólum sem framleidd hafa verið fyrr og síðar í álfunni. Listagallerí Söndru Ainsley er einn af demöntum The Distillery. Þar stendur nú yfir stór sýning á verkum glerlistamanna víða að úr veröldinni. Hún er sannkölluð sprenging fyrir skilningarvitin og mörg verkanna fá mann til að grípa andann á lofti.

Veitingahús The Distillery eru allnokkur og drjúgur hluti þeirra talinn með bestu og skemmtilegustu veitingahúsum borgarinnar. Nefna má The Boiler House, sem er engu líkt hvað umgjörð og mat varðar og býður gestum sínum oft á tíðum upp á góðan djass í sínum öldnu viðum og röftum. Pure Spirits Oyster House & Grill er annað gott veitingahús. Framundan eru hátíðir af öllum sortum á svæðinu og svo fátt eitt sé nefnt má tiltaka þrjár tónlistarhátíðir, stóra bændamarkaði, fornbílahátíð, bjórsmökkunarhátíð og listahátíðir allskonar.

Ballettskór Baryshnikovs

Það er ekki hægt að skilja við Toronto án þess að skoða stærsta skósafn veraldar, stórfurðulegt og töfrum slungið Bata Shoe-safnið sem nú kynnir sögu ballettskósins frá öndverðu í samstarfi við ríkisballettskóla Kanada. Þar eru t.a.m. skór Mikhails Baryshnikovs, Margot Fonteyn og Veronicu Tennant. Fyrir utan nú skófatnað frá öllum tímum úr flestum heimshornum. Alveg ótrúlegt safn. Annað sem er vert að geta, og fyrir ferðamenn að uppgötva, er hinn ógnarhái Canadian National-turn sem var þar til í fyrra langhæsta bygging veraldar. Þar er veitingastaðurinn 360 í hæstu hæðum og snýst einn hring á klukkustund, sem veitir makalaust útsýni yfir borgina og Ontario-vatn. Hægt er að reyna á þolrifin og hoppa á glergólfi, með ekkert fyrir neðan nema frjálst fall svo nemur hundruðum metra. Skemmtilegt sambland nýrrar og gamallar byggingarlistar er í hinu stórmerka Royal Ontario-safni, þar sem mætist gömul öndvegisbygging og nútímaskúlptúrinn Kristallinn. Ekki má svo gleyma Harbourfront við strönd Ontario-vatns, sem einu sinni var svæði undirlagt gömlum og ónýtum vöruskemmum og úrgangi, en er nú fallegt útivistarsvæði með glæsibyggingum fyrir listastarfsemi. Í góðu veðri er himneskt að rölta þar um.

Líklega geta allir fundið eitthvað fyrir sitt nef í Toronto. Nú er hægt að fljúga þangað beint með Icelandair og tekur fimm tíma. Og svo liggja leiðir til allra átta, t.d. skottúr að Niagara-fossunum, heldur lengra yfir til franska hluta Kanada og slóða Vestur-Íslendinga í vesturhlutanum eða yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Innspýting og fjölbreytni

FYRIR utan New York er Toronto sú borg í heiminum sem hýsir nú flest aðflutt fólk úr öllum heimsins hornum. Borgaryfirvöld telja það mjög af hinu góða, því þetta gefi Toronto gríðarlega innspýtingu og fjölbreytni, sem litist af ólíkum og kraumandi menningarstraumum. Það geri svæðið jafnframt sérlega opið fyrir nýjum hugmyndum, nýju fólki og efnahagslegum vexti. Enda er sagt að yfir 36% vinnuafls í borginni starfi við sköpun, hugmyndavinnu og nýsköpun á ólíkum sviðum. Drifkraftur efnahagslífsins byggir fremur orðið á þekkingu og sköpun en beinni framleiðslu og sú þróun heldur áfram. Yfirvöld segja að bæði staðsetning Toronto og hversu margbreytileg og sveigjanleg borgin er gefi henni verulegt forskot umfram mörg önnur borgarsamfélög til að dafna ört og örugglega í veraldarsamfélagi nútímans.