Á flugi Jökull Bergmann skíðar í fjöllunum við Látraströnd. Tröllaskaginn þykir frábært þyrluskíðunarsvæði.
Á flugi Jökull Bergmann skíðar í fjöllunum við Látraströnd. Tröllaskaginn þykir frábært þyrluskíðunarsvæði. — asfdad
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is „MENN eru vægast sagt dolfallnir eftir tveggja daga þyrluskíðun hér á Tröllaskaganum og Látraströndinni.

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson

orsi@mbl.is

„MENN eru vægast sagt dolfallnir eftir tveggja daga þyrluskíðun hér á Tröllaskaganum og Látraströndinni. Að skíða niður brekkur með Norður-Atlantshafið við fætur sér og með útsýni yfir að Grímsey og Flatey á Skjálfanda er mjög sérstök upplifun að ekki sé talað um alla birtuna hvort sem er að nóttu sem degi. Allir hér eru sammála um að þyrluskíðun á þessu svæði sé einstök upplifun.“ Þetta segir Jökull Bergmann fjallaleiðsögumaður að lokinni tveggja daga skipulagðri úttekt á Tröllaskaganum sem þyrluskíðunarsvæði, en úttektinni lýkur á sunnudag. Að úttektinni standa auk Jökuls, sjö sérfræðingar í þyrluskíðun, skíðamenn og erlendir fjallaleiðsögumenn sem eru að meta svæðið. Munu þeir senda frá sér skýrslu um svæðið síðar í sumar.

Þyrluskíðun er sérstök atvinnugrein í Kanada og víðar, enda vinsæl afþreying og veltir greinin gífurlegum fjárhæðum árlega. Fjöldi sérhæfðra þyrluskíðunarfyrirtækja gerir út ferðir með skíðamenn upp á fjallstinda og hefur Jökull Bergmann starfað við greinina þar vestra í tengslum við UIAGM nám sitt í alþjóðlegri fjallaleiðsögn. Lauk hann prófi á þessu ári, fyrstur Íslendinga. Að námi loknu taldi hann einsýnt að athuga möguleika á markaðssetningu á Tröllaskagans sem þyrluskíðunarsvæðis og lagði hann því drög að skipulagðri úttekt með tilkomu erlendra sérfræðinga. Flogið hefur verið með hópinn um svæðið í nýrri þyrlu í eigu Norðurflugs og skíðað ótæpilega og lagði að baki fleiri þúsund fallmetrar.

„Við erum á þyrlu af gerðinni B2 sem er hin klassíska skíðaþyrla víða um heim. Þessi vél var keypt til landsins í fyrra og með tilkomu hennar hefur loksins skapast grundvöllur til að hefja þyrluskíðun hérlendis. Aðstæður á Tröllaskaganum og Látraströnd eru mjög góðar,“ segir Jökull. „Markmiðið með úttekt okkar nú er í fyrsta lagi að taka upp myndefni til markaðssetningar og í öðru lagi að kanna möguleika á sölu á þyrluskíðunarferðum á Tröllaskaganum.“

Í þyrluskíðun er þjónustustig mjög hátt og því telst þessi afþreying dýr. Segir Jökull að líklega sé laxveiði eina greinin hérlendis sem skoða megi sem samkeppnisaðilann í þessu sambandi. Í Kanada kostar dæmigerður vikupakki í þyrluskíðun á bilinu 8-12 þúsund dollara.

„Í framhaldi af úttekt okkar nú verður síðan tekin ákvörðun um hvort við förum af stað og byrjun að selja þyrluskíðaferðir á Tröllaskaga á Íslandi – eða ekki. En það verður að segjast að allir eru yfir sig ánægðir með aðstæðurnar að svo komnu máli.“