Imre Kertesz Saga hans fjallar nákvæmlega um það sem fólk eins og við getum ekki skilið.
Imre Kertesz Saga hans fjallar nákvæmlega um það sem fólk eins og við getum ekki skilið.
Skáldsaga ungverska nóbelskáldsins Imre Kertesz, Rannsóknarlögreglusaga , sem nýlega var endurútgefin, tekst á við rökvísi ógnarstjórnar og hæfileika manneskjunnar til að lifa af kúgun og hörmungar.

Eftir Björn Þór Vilhjálmsson

vilhjalmsson@wisc.edu

Ungverska nóbelskáldið Imre Kertesz fæddist í Búdapest árið 1929. Í þekktustu bókum sínum gerir hann helförina, hið mikla svöðusár tuttugustu aldarinnar á Vesturlöndum, að umfjöllunarefni. Þar sækir hann í sumum tilvikum til eigin reynslu því Kertesz var sjálfur, líkt og svo margir aðrir gyðingar, peð í þeim mikla harmleik sem undir stjórn Þjóðverja vatt fram á fjórða og fimmta áratug liðinnar aldar. Í atburðarás sem leiddi frá ofsóknum til útrýmingar reyndust allra síðustu ár stríðsins einkar afdrifarík. Þá jukust „afköst“ útrýmingarbúðanna til muna og það var einmitt þá sem gyðingar Ungverjalands lentu í klónum á nasistum. Í mars 1944 hernámu Þjóðverjar Ungverjaland og stuttu síðar var hafist handa við flutning ungverskra gyðinga í útrýmingabúðir í Póllandi, en yfirumsjón hafði Adolf Eichmann. Á milli 15. maí og 9. júlí það ár sendu ungversk yfirvöld tæplega hálfa milljón gyðinga þessa leið. Flestir enduðu í Auschwitz. Imre Kertesz var einn þeirra, þá á fimmtánda ári.

Þekktasta skáldsaga Kertesz, Örlögleysi , sem út kom á íslensku árið 2004 í þýðingu Hjalta Kristgeirssonar, lýsir lífsreynslu hins fimmtán ára gamla Georgs í útrýmingarbúðum nasista, Auschwitz, Buchenwald og Zeitz. Ævisaga höfundarins vill hér gjarnan þvælast fyrir lesendum, en lífshlaup hans líkist að sumu leyti efni bókarinnar, en sjálfur hafnar Kertesz jafnan ævisögulegum lestri á verkinu.

Hér ber að geta þess að með skrifum sínum hefur Kertesz leikið lykilhlutverk í því ferli að Ungverjaland, ríkisstjórn, almenningur og seinni kynslóðir geri upp samsekt sína með Þjóðverjum í útrýmingu ungverskra gyðinga. Þá er Örlögleysi sú skáldsaga höfundar sem farið hefur víðast, og var hún kvikmynduð árið 2005 af Lajos Koltai með afar góðum árangri, en útgáfa á verkum Kertesz á ensku hefur tekið mikinn fjörkipp á síðustu árum og dæmi um það er nýleg útgáfa á Rannsóknarlögreglusögu ( Detective Story ), skáldsögu sem upphaflega kom út í Ungverjalandi árið 1977. Líkt og aðrar bækur höfundar fjallar Rannsóknarlögreglusaga um sögulegt áfallsástand, trámatíska atburði sem þenja til hins ýtrasta skilgreiningar á hinu mannlega. Hér er það þó ekki helförin sem fjallað er um heldur lífið undir hælnum á herforingjastjórn í ónefndu landi í Suður-Ameríku. Hæfileiki einstaklingsins til að lifa af þrátt fyrir kúgun og ógn er reynd í þaula, en athygli vekur að sjónarhorn sögunnar tilheyrir geranda en ekki fórnarlambi, pyntingarmeistarinn segir frá og reynir að skilja eigin þátt í sögulegum atburðum sem virðast í endurliti fjarstæðukenndir.

Valdboð og rökvísi

„Ég vil segja sögu. Einfalda sögu. Þú munt að endingu kalla hana ógeðfellda, en það breytir engu um einfaldleika hennar. Þar af leiðandi vil ég segja einfalda og ógeðfellda sögu“. Með þessum orðum hefst frásögn Antonios R. Martens, rannsóknarlögreglumanns í pólitískri sérdeild herforingjastjórnarinnar. Í ljós kemur að Martens er að hugsa aftur til árdaga hins nýja herforingjaríkis, tímabils þegar ógnarstjórn var að festa sig í sessi, og svo virðist sem minningar um glæpi sem hann bæði horfði upp á og framdi í nafni ríkisins sæki á hann. Starf Martens fólst í því að njósna um þá sem grunaðir voru um niðurrifsstarfsemi og sækja einstaklinga í yfirheyrslur þegar útséð var um sekt þeirra. Einkum virðist það vera eitt tiltekið mál sem Martens er umhugað um. Það er rannsóknin á Salinas-fjölskyldunni, einhverri ríkustu fjölskyldu landsins, en grunsemdir virðast hafa vaknað um þjóðhollustu Salinas-feðganna. Það er sonurinn, Enrique, og afskipti hans af róttækum háskólastúdentum sem beina athygli yfirvalda að fjölskyldunni, en eins og sagt er á einum stað: „Hver sá sem lent hefur í opinberri skýrslu mun að lokum flokkast í hóp grunaðra, á því leikur enginn vafi“. Við ritun frásagnar sinnar hefur Martens aðgang að dagbókum fjölskyldumeðlima og kaflar úr þeim eru birtir með reglulegu millibili. Þannig verða eiginlegar söguhetjur verksins til: Þær eru skapaðar af skrímslinu sem að lokum eyðir þeim og frásögnin verður því grótesk tilraun til endurlausnar og yfirbótar. En það er einmitt í þessum dagbókarköflum sem lífinu undir herforingjastjórninni er lýst og í samspili þeirra og sjónarhorns sögumanns verður til sérstök hugmyndafræðileg spenna. Einkalífið er gaumgæft af afli sem hefur það hlutverk að grafa undan því, og með því að fella dagbækurnar inn í eigin frásögn svíðvirðir Martens fjölskylduna í annað sinn, í þetta sinn á jafnvel enn grófari hátt en í fyrra skiptið. En það eru einmitt forréttindi og ríkidæmi Salinas-fjölskyldunnar sem virðast skapa henni verndarhjúp sem þó reynist að endingu reistur á sandi. Andspænis rökvísi alræðisins falla gamalgróin samfélagsgildi í valinn.

Undantekningarástand

Rammafrásögnin er sú að Martens situr í fangaklefa þar sem hann liggur undir saksókn fyrir glæpi sína. Herforingjastjórnin sem hann studdi hefur því fallið og ný ríkisstjórn er að skapa sér andrými. Það að réttarhöld séu haldin yfir honum og að hann fái að tjá sig er skýrlega dæmi um að nýja stjórnin sé betri en sú sem ríkti á undan. En þannig kallast rammafrásögnin líka á við eiginlega sögu bókarinnar sem sömuleiðis er stofnsaga, saga um það hvernig ríki er sett á fót, hvernig það réttlætir eigin tilvist og hvaða stöðu lögin hafa innan þess. „Við höfðum öll sönnunargögnin“, segir sögumaður eitt sinn þegar hann lýsir starfi sínu í leynilögreglunni, „slíkt er nauðsynlegt til að staðfesta að við fylgdum lagabókstafnum í hvívetna“.

Jafnvel þótt ríkisstjórnin sé að fremja stríðsglæpi gagnvart eigin þegnum er lagabókstafnum fylgt, segir Martens. Hvað þýðir þetta? Ekki að lögin séu spillt. Þetta þýðir að réttlætingar er þörf svo hægt sé að framfylgja rökvísi ógnarstjórnar. Það er ekki hægt að færa sig út fyrir ramma laganna til að ná markmiðum sínum, lögin eru það sem gerir niðurstöðuna þess virði að henni sé náð. Annars hefur vald ekkert gildi. Þetta er hið raunverulega viðfangsefni bókarinnar. Það hvernig söguhetjan gengur ávallt fram í krafti laganna, það að rökvísin sem ekki er fyrir hendi öðlast óhugnanlega birtingarmynd og tvífara í orðræðu réttvísinnar – þetta er vandamálið sem Martens horfist í augu við í upphafi og í lok bókarinnar: „Um hvað viltu skrifa?“, er hann spurður. „Um það hvernig ég hef núna skilið rökvísina,“ svarar Martens. „Núna? Þú átt við að þú skildir hana ekki meðan þú gerðir það sem þú gerðir?“, spyr sá sem við hann ræðir. „Nei,“ svarar Martens. „Ekki meðan á atburðunum stóð. Kannski á undan, og núna skil ég. En þá... það er eitthvað sem fólk eins og þú getur ekki skilið“. Og skáldsaga Kertesz fjallar nákvæmlega um það sem fólk eins og við getum ekki skilið.